Tekjustofnar sveitarfélaga

Fimmtudaginn 09. nóvember 2000, kl. 15:43:56 (1521)

2000-11-09 15:43:56# 126. lþ. 22.5 fundur 199. mál: #A tekjustofnar sveitarfélaga# (útsvar, fasteignaskattur o.fl.) frv., KLM (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 22. fundur, 126. lþ.

[15:43]

Kristján L. Möller (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. Jón Kristjánsson leiddi þessa nefnd og ég efast ekki um að hv. þm. hefur haft góðan hug til starfa í þessari nefnd og viljað láta gott af sér leiða hvað varðar niðurstöður þar. Hins vegar stendur það upp úr að hæstv. forsrh. tjáði sig um það á ákveðnum tímapunkti þegar nefndin var í vinnu hvernig að þessu skyldi staðið og það er hluti af þeirri niðurstöðu sem hér er að koma fram.

Hv. þm. gerði mikið úr lækkun fasteignaskatta á landsbyggðinni og þar er ég alveg hjartanlega sammála honum. Þetta er löngu tímabær aðgerð og hefði átt að vera komin fram fyrir lifandi löngu. Við fórum svo yfir það áðan hvernig þetta eykur tekjur ríkissjóðs, þ.e. sú breyting sem ég er að tala um og fasteignagjaldsstofninn sem var notaður á þann hátt að ríkissjóður fékk miklu meiri tekjur en ætlað var vegna þessara breytinga. Og þá er ekki verið að skila miklu í gegnum jöfnunarsjóð. Það stendur upp úr. En hv. þm. Jón Kristjánsson hefur ekki svarað fyrir þetta. Hann talar bara um árið 2001, skiljanlega.

[15:45]

En mig langar að fá að vita hvað kemur fram árið 2002 þegar sveitarfélögin ... (Gripið fram í.) Það verður líka varanleg aðgerð, hv. þm. Jón Kristjánsson, árið 2002 þegar sveitarfélögin nota þann víxil sem ríkisstjórnin veitir þeim til þess að hækka útsvarið, hækka skatta árið á eftir. Það liggur í augum uppi.

Mig langar að ítreka þá spurningu sem ég lagði fram áðan til hv. þm.: Hvað með árið 2002?

Nú erum við búnir að tala um 2001, ágæta lækkun fasteignagjalda á landsbyggðinni sem vonandi gengur eftir og það er það besta í þessu, en tölum nú um árið 2002 þegar skattahækkun ríkisstjórnarinnar kemur fram til íbúa á höfuðborgarsvæðinu og á landsbyggðinni þar sem íbúar höfuðborgarsvæðisins munu greiða allt að 50 þús. kr. meira fyrir fimm manna fjölskyldu og íbúar á landsbyggðinni munu fara að greiða hærra útsvar sem kemur þá á móti þeirri lækkun sem kemur út úr fasteignaskattslækkuninni árið 2001.