Tekjustofnar sveitarfélaga

Fimmtudaginn 09. nóvember 2000, kl. 15:46:16 (1522)

2000-11-09 15:46:16# 126. lþ. 22.5 fundur 199. mál: #A tekjustofnar sveitarfélaga# (útsvar, fasteignaskattur o.fl.) frv., ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 22. fundur, 126. lþ.

[15:46]

Ögmundur Jónasson:

Herra forseti. Hér er fjallað um frv. til laga um breytingu á lögum um tekjustofna sveitarfélaga, en frv. er afrakstur nefndar sem hæstv. félmrh. skipaði 2. júní 1999. Nefndina skipa ýmsir sérfræðingar, sveitarstjórnarmenn og stjórnmálamenn héðan af Alþingi, en vakin hefur verið athygli á því áður að aðeins þrír stjórnmálaflokkar eiga þar fulltrúa, Sjálfstæðisflokkurinn, Framsóknarflokkurinn og Samfylkingin, en hv. þm. Guðmundur Árni Stefánsson átti sæti í þessari nefnd og hefur gert ágreining um niðurstöðuna úr nefndarstarfinu. Við fyrir okkar leyti í Vinstri hreyfingunni -- grænu framboði gerðum athugasemd við það á sínum tíma að við ættum ekki fulltrúa í þessari nefnd, en við þeim tilmælum okkar var ekki orðið þegar þau voru gerð á sínum tíma. Þetta vildi ég aðeins rifja upp hér í upphafi.

Ef það er eitthvað sem hefur einkennt opinbera fjármálaumsýslu á liðnum árum, þá er það tvennt, annars vegar hefur ríkið verið að greiða niður skuldir sínar, jafnframt því sem ríkissjóður hefur skilað umtalsverðum tekjuafgangi á síðustu árum, en á sama tíma hefur orðið stöðugt þyngra undir fæti hjá sveitarfélögunum. Það kemur fram í niðurstöðum fyrrnefndrar nefndar og í plöggum sem frá henni eru komin að allan síðasta áratug hafi sveitarsjóðirnir verið reknir með halla. Mestur var hallinn árið 1994, en þá nam hann 8,6 milljörðum, árið 1999 var hallinn 2,7 milljarðar, en miðað við fjárhagsáætlanir ársins 2000 verður um áframhaldandi hallarekstur að ræða. Í niðurstöðum nefndarinnar segir, með leyfi forseta:

,,Heildarskuldir sveitarsjóða voru í árslok 1999 51,8 milljarðar og hafa þar með rúmlega tvöfaldast síðan 1990. Peningalegar eignir þeirra hafa einnig aukist en þó ekki í takt við skuldirnar og því hefur peningaleg staða sveitarsjóðanna versnað um nærri 21 milljarð síðan 1990, eða um liðlega 72 þúsund kr. að meðaltali á íbúa.``

Síðan er þessi fjárhagsgrunnur allur rakinn í ítarlegra máli, en nefndin veltir því einnig fyrir sér hvað það sé sem valdi og getur að sjálfsögðu fyrst um hina miklu búseturöskun, að hún hafi orðið til þess að sveitarfélög þar sem fólki hafi fækkað hafi lent í rekstrarörðugleikum þegar færri íbúar standa undir fjármögnun þeirrar þjónustu sem nauðsynlegt er að veita. Þetta segir sig sjálft, að stofnanir sem eru fámennar, t.d. skólar, litlir skólar, eru miklum mun dýrari í rekstri hlutfallslega fyrir hvern nemanda en fjölmennari skólar og hefur oft verið sýnt fram á þetta tölulega.

Tillögur nefndarinnar til þess að mæta hallanum hafa verið reifaðar hér í dag og ætla ég ekki að eyða löngu máli í það. Menn hafa rætt um hækkun á útsvarsprósentunni, en hún mun hækka í áföngum um tæplega eitt prósentustig. Þetta hefur verið mjög umdeilt. Í annan stað er lagt til að stofn til álagningar fasteignaskatts verði fasteignamat, en sem kunnugt er hefur viðmiðið verið fasteignamatið í Reykjavík fyrir allt landið og hefur þetta leitt til mikils misræmis og peningalegs óhagræðis fyrir landsbyggðina og þetta er breyting sem menn almennt hafa fagnað og tekið undir.

Síðan er unnið að því að fækka undanþágum frá fasteignaskatti. Það kemur til sögunnar sérstakt framlag ríkisins í Jöfnunarsjóð sveitarfélaga að fjárhæð 700 millj. kr. og það er gert ráð fyrir öðru eins á næsta ári. Þetta er hins vegar ekki ætlað til frambúðar heldur til að mæta þeim vanda sem sveitarfélögin standa frammi fyrir nú um stundir.

Í umræðunni hefur komið fram að Jöfnunarsjóður sveitarfélaga er orðinn mjög stór hluti af fjármögnun sveitarfélaganna og sýnist sitt hverjum í því efni hvort eðlilegt er að nýta Jöfnunarsjóðinn á þann hátt eða hvort ríkissjóður eigi frekar að hlaupa þarna undir bagga. Ég get tekið undir þá hugsun sem hér hefur komið fram, að eðlilegt er í ljósi þess mikla vanda sem sveitarfélögin standa frammi fyrir og í ljósi þess að verulegur tekjuafgangur er hjá ríkissjóði að eðlilegt hefði verið og er að veita peninga úr honum til stuðnings sveitarfélögunum.

Vinstri hreyfingin -- grænt framboð efndi til sveitarstjórnarráðstefnu um síðustu helgi. Hana sátu um 70 fulltrúar víðs vegar að af landinu og þar voru þessar tillögur, sem núna hafa birst í frumvarpsformi, ræddar ítarlega. Það var mat fundarins að tillögur nefndarinnar og þar með frv. væru ófullnægjandi viðbrögð við útbreiddum fjárhagsvanda meðal sveitarfélaganna sem safnað hafi umtalsverðum skuldum. Og hér segir, og ég leyfi mér að vitna, með leyfi forseta, í yfirlýsingu frá fundinum:

,,Ríkisstjórnin hefur á undanförnum árum flutt fjárlagahalla ríkisins yfir á sveitarfélögin í formi kostnaðarsamra verkefna án þess að tryggja sveitarfélögunum fjármagn til að sinna þeim. Nauðsynlegt er þegar verkefni á sviði samfélagsþjónustu eru flutt til sveitarfélaga að þeim séu tryggðar nægar tekjur til að sinna verkefnum með fullnægjandi hætti þannig að allir landsmenn hafi aðgang að góðri þjónustu.``

Talað er um að breikka tekjustofna sveitarfélaganna. Hér er hægt að fara ýmsar leiðir. Það er hægt að veita þeim hlutdeild í tekjusköttum fyrirtækja. Hægt er að veita þeim hlutdeild í veltusköttum á einhvern hátt. Það var óneitanlega stór biti að kyngja þegar sveitarfélögin voru svipt aðstöðugjaldinu á sínum tíma sem gaf sveitarfélögunum í landinu samtals um 5--6 milljarða króna, og þótt á einhvern hátt væri komið til móts við þau með öðrum breytingum dugðu þær engan veginn til að rétta af þann halla eða þá bagga sem þá voru settir á sveitarfélögin.

Menn taka ekki á og nefndin vék sér reyndar undan því að fjalla um margvíslegan aðsteðjandi vanda sem sveitarfélögin standa frammi fyrir. Hér má nefna tvennt: Annars vegar grunnskólann og rekstur grunnskólans. Það er ljóst að mörg sveitarfélög eru að sligast undan rekstri skólans og að sveitarfélögunum voru ekki tryggðir nægilega sterkir tekjustofnar til að standa straum af kostnaði við skólahaldið þegar grunnskólinn var færður frá ríki til sveitarfélaga á sínum tíma.

Síðan er náttúrlega ósvarað hvernig eigi að bregðast við einu alvarlegasta vandamáli sem við stöndum frammi fyrir nú um stundir og það er húsnæðisvandinn. Þar er ljóst að miklar deilur eru í ríkisstjórninni um hvernig eigi að taka á félagslega leiguíbúðakerfinu sérstaklega, en sem kunnugt er hangir það inni í bráðabirgðaákvæði sem sett var í húsnæðislögin á sínum tíma, bráðabirgðaákvæði sem rennur út núna um næstu áramót, hvernig eigi að tryggja þeim aðilum sem sjá fyrir félagslegu leiguhúsnæði stuðning til frambúðar.

Húsnæðislöggjöfin byggði á því að færa þann stuðning allan úr eða frá því fyrirkomulagi að vextir væru lágir. Það er ekki ýkjalangt síðan vextir á félagslegu húsnæði voru 1%, síðan var það fært upp í 2,4% og síðan yfir 3%, fært úr þessu formi yfir í annars konar stuðning. Við vitum hins vegar ekki hvernig sá stuðningur verður og það komu fram mjög misvísandi yfirlýsingar frá hæstv. fjmrh. annars vegar og hæstv. félmrh. hins vegar hvernig staðið verði að þessu og hvernig stuðningi verði háttað við félagslegt leiguhúsnæði.

Í fjárlögum á þessu ári var gert ráð fyrir 100 millj. kr. að því er mig minnir, en í frv. er þetta framlag helmingað. Þar er talað um 50 millj., en orðalagið ef ég man rétt í frv. er á þann veg, að þetta eigi að vera í einhvers konar styrkjaformi, alla vega ekki í því formi sem áður var að veita lán með lægri vöxtum. En ég man eftir því að hæstv. félmrh. sagði að þetta mál væri óútkljáð. Hann vildi ekki taka undir að það ríktu um þetta miklar deilur. Það er ég sem er að ráða í orðaskiptin sem urðu á ráðherrabekknum þegar fjárlagafrv. var til umræðu. Það er alla vega óútkljáð mál hvernig á þessu verði tekið.

Við úr Vinstri hreyfingunni -- grænu framboði munum koma þannig að þessu máli að leggja til að tekjustofnar sveitarfélaganna verði endurskoðaðir. Við viljum láta breikka þá og skoða aðrar leiðir og við viljum líka íhuga að beinn stuðningur komi frá ríkissjóði í ríkari mæli en verið hefur.

Að lokum vil ég gera eina alvarlega athugasemd við framsetningu hæstv. félmrh. og annarra úr stjórnarliðinu sem hafa talað fyrir þessum tillögum því þeir hafa blandað þessu lagafrv. sem lýtur að tekjustofnum sveitarfélaga sérstaklega við allar aðrar skattbreytingar og millifærslur í skattkerfinu sem eiginlega nánast hugsast getur.

[16:00]

Fyrr við umræðuna kom talsmaður Sjálfstfl., hv. þm. Arnbjörg Sveinsdóttir, og sagðist sérstaklega vilja halda öllu því til haga sem til stæði að gera fyrir barnafólk á Íslandi. Menn skyldu minnast þess þegar þeir ræddu tekjustofna sveitarfélaganna hvað til stæði að gera fyrir barnafólk á Íslandi, hvað þessi góða ríkisstjórn ætlaði að gera fyrir börnin og barnafólkið. Ég hét henni því að ég mundi aðstoða við að halda upplýsingum um þetta til haga. Ég hef verið að gera það að undanförnu og minni t.d. á að þrátt fyrir margendurteknar yfirlýsingar hæstv. ráðherra um að eitthvað stórkostlegt sé á döfinni þegar hann tilkynnir okkur að á árinu 2001 verði varið 4.230 milljónum til barnabóta, til stuðnings barnafólki, þurfum við ekki að fara lengra en til ársins 1997 þegar þessi upphæð var hærri í krónum talið. Hún var hærri í krónum talið árið 1997 en fyrirhugað er að hún verði árið 2001. Ríkisstjórnin lýsir því yfir í ofanálag að hún ætli að láta á árunum 2001--2003 1.500 milljónir til viðbótar renna til barnafólks í áföngum.

Ef við reiknum barnabæturnar til núvirðis og horfum aftur í tímann kemur í ljós að árið 1991 námu barnabætur að núvirði 5.867 milljónum. Þá mundi vanta upp á til að ná þessu marki 1.637 millj. En góða ríkisstjórnin, sem er svo góð við litlu börnin og barnafólkið, ætlar bara að láta 1.500 millj. Hún ætlar ekki einu sinni að láta inn í barnabótakerfið það sem var varið til þessa stuðnings fyrir tíu árum. Menn koma hér upp og eru að monta sig af þessu og stæra sig af þessu sem sérstöku átaki til handa barnafólki. Hv. þm. Arnbjörg Sveinsdóttir segir: Ég vil endilega halda til haga stuðningi ríkisstjórnarinnar við barnafólk. Menn ætla ekki einu sinni að hafa stuðninginn jafnmikinn og hann var fyrir einum áratug. Við skulum bara halda þessu öllu saman til haga. Að sjálfsögðu skulum við halda þessu öllu til haga.

Herra forseti. Ég tel að við 1. umr. þessa máls sé rétt að gera grein fyrir megináherslum. Ég er einn af þeim sem hafa farið mjög varlega í að fordæma skattahækkanir og ætla að halda mig við það einfaldlega vegna þess að við þurfum að sjálfsögðu á sköttum að halda til að geta fjármagnað þá þjónustu sem við viljum að ríki og sveitarfélögin veiti og er mjög mikils virði, hvort sem það er á sviði húsnæðismála, skólamála eða annarra mikilvægra samfélagslegra verkefna. Ég ætla á þessu stigi ekki að kveða upp neina þunga dóma í því efni. Ég tel að við eigum við afgreiðslu þessa máls að víkka sjóndeildarhringinn ögn og horfa til þess að tekjustofnar sveitarfélaganna verði breikkaðir frá því sem nú er, hvort sem menn horfa til veltuskatta, virðisaukaskatts eða tekjuskatta fyrirtækja eða annarrar tegundar skattheimtu. Eins finnst mér einsýnt í ljósi þeirrar bágbornu fjárhagsstöðu sem mörg sveitarfélögin eiga við að glíma hvort ekki er rétt að ríkissjóður láti eitthvað af því umframfjármagni sem hann hefur úr að spila renna til sveitarfélaga og þá að sjálfsögðu einkum þeirra sem eru illa sett og verst sett.