Tekjustofnar sveitarfélaga

Fimmtudaginn 09. nóvember 2000, kl. 16:33:27 (1532)

2000-11-09 16:33:27# 126. lþ. 22.5 fundur 199. mál: #A tekjustofnar sveitarfélaga# (útsvar, fasteignaskattur o.fl.) frv., LB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 22. fundur, 126. lþ.

[16:33]

Lúðvík Bergvinsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þm. Pétur Blöndal flutti ágæta ræðu um að hér væru ekki á ferðinni skattahækkanir. Það var inntak ræðu hv. þm. Hann treysti því að sveitarfélögin mundu sennilega ekki hækka eins og heimildir í frv. sem hér liggur fyrir kveða á um.

Kjarni málsins er hins vegar að tekjustofnanefndin var sett á laggirnar sökum þess að sveitarfélögin sögðu: Við stöndum ekki lengur undir þeim verkefnum sem okkur er falið að sinna nema að fá auknar tekjur. Það var sett á laggirnar nefnd og niðurstaðan varð sú að fara þá gömlu, hefðbundnu leið að hækka skatta til þess að sveitarfélögin geti staðið undir þeim verkefnum sem þeim er ætlað að sinna samkvæmt þeim lögum sem Alþingi setur. Bróðurparti sveitarfélaga er því sjálfsagt nauðugur einn kostur að hækka skattana. Þess vegna er þessi heimild er rýmkuð.

Hér er því ekkert annað á ferðinni en skatthækkun. Ég skil hins vegar vel að hv. þm., sem hefur talað sennilega fyrir flestu öðru en skattahækkunum hér á hinu háa Alþingi, svíði dálítið að hans eigin flokkur skuli standa fyrir skattahækkun sem nemur um 3,7 milljörðum á tveimur árum. Ég skil það ósköp vel og þeir skattar leggjast að sjálfsögðu á íbúa sveitarfélaganna. Það er náttúrlega algjörlega fráleitt, virðulegi forseti, að halda því fram að hér sé um annað ræða en skattahækkanir. Hins vegar á, af einskærri góðvild og þrátt fyrir að sjóðir ríkisins fljóti allir yfir um af peningum að sögn, að gefa eftir, á móti þessum 3,7 milljörðum, 1.250 millj. kr.

Virðulegi forseti. Hér er ekkert annað á ferðinni en frv. um skattahækkanir.