Tekjustofnar sveitarfélaga

Fimmtudaginn 09. nóvember 2000, kl. 16:37:22 (1534)

2000-11-09 16:37:22# 126. lþ. 22.5 fundur 199. mál: #A tekjustofnar sveitarfélaga# (útsvar, fasteignaskattur o.fl.) frv., LB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 22. fundur, 126. lþ.

[16:37]

Lúðvík Bergvinsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Þegar margumrædd nefnd tók til starfa lá fyrir krafa sveitarfélaganna um nauðsyn þess að fá auknar tekjur vegna þess að verkefnum sem flutt voru til þeirra fylgdu ekki nægir fjármunir. Það er kjarni málsins. Ýmsir hafa talað um það, þar á meðal flokksfélagar hv. þm., að færa hefði þurft sex milljarða til sveitarfélaganna. Hér er opnað á að færa 3,7 milljarða, virðulegi forseti. Það er alveg ljóst eftir alla þá umræðu og vinnu sem hefur farið fram að ef sveitarfélögin eiga að standa undir þeim verkefnum sem þeim hafa verið falin þá neyðast þau til að hækka útsvarið sem þessu nemur. Það er niðurstaða nefndarinnar. Hér er því verið að tala um að hækka skatta sem þessu nemur, það er algjör neyð. Við gætum hins vegar farið aðra leið og fært verkefni frá sveitarfélögunum til ríkisvaldsins. Þá þyrfti hugsanlega ekki að gera þetta.

Virðulegi forseti. Í óbreyttu umhverfi --- við erum að tala um umhverfið eins og það er í dag, ekki ,,hypótetískt`` sveitarfélag einhvers staðar í ótilgreindu landi --- er kjarninn málsins einfaldlega þessi: Sveitarfélögin neyðast til að hækka útsvar vegna þeirra aðstæðna sem þau búa við.