Tekjustofnar sveitarfélaga

Fimmtudaginn 09. nóvember 2000, kl. 16:42:08 (1537)

2000-11-09 16:42:08# 126. lþ. 22.5 fundur 199. mál: #A tekjustofnar sveitarfélaga# (útsvar, fasteignaskattur o.fl.) frv., PHB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 22. fundur, 126. lþ.

[16:42]

Pétur H. Blöndal (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. segir að öll sveitarfélögin nýti hámarkið (MF: Nær öll.) Nær öll. Hún segir jafnframt að það að tekjuskatturinn lækki um 0,3% þýði að Reykjavíkurborg muni hækka útsvarið um 0,3% líka. Til hvers þarf það? Af hverju þarf borgin að nýta tækifærið núna þegar lögunum er breytt til að hækka umfram þessi 0,3%? Ég sé ekki ástæðu til þess.

Þó að 70% af tekjum sveitarfélaganna séu launagreiðslur þá er útsvarið hlutfallslegur skattur af launatekjum þannig að þegar launatekjur í landinu hækka þá hækkar útsvarið jafnmikið, nákvæmlega jafnmikið. Sveitarfélögin ættu því ekki að þurfa auknar skattgreiðslur vegna hækkunar á launum starfsmanna sinna vegna þess að laun skattgreiðenda hækka væntanlega jafnmikið, nema þau geri mistök í kjarasamningum.

Varðandi það að menn líti eingöngu til skattprósentunnar þegar þeir velja sér sveitarfélag. Ég gat þess einmitt áðan, herra forseti, að menn líta til skattprósentunnar, útsvarsprósentunnar, og líka til þeirrar þjónustu sem sveitarfélagið veitir.