Tekjustofnar sveitarfélaga

Fimmtudaginn 09. nóvember 2000, kl. 17:22:27 (1548)

2000-11-09 17:22:27# 126. lþ. 22.5 fundur 199. mál: #A tekjustofnar sveitarfélaga# (útsvar, fasteignaskattur o.fl.) frv., ÞBack
[prenta uppsett í dálka] 22. fundur, 126. lþ.

[17:22]

Þuríður Backman:

Herra forseti. Örfá orð inn í þessa miklu umræðu um frv. til laga um breytingu á lögum um tekjustofna sveitarfélaga því hér hefur margt komið fram í dag og sérstaklega frá stjórnarandstöðunni sem haldið hefur uppi gagnrýni á frv., þ.e. aðallega í þá átt að það gangi ekki nægilega langt í að rétta stöðu sveitarfélaganna og má rökstyðja það með margvíslegum hætti.

Ég vil byrja á því að þakka fyrir störf nefndarinnar og sérstaklega formanni nefndarinnar, Jóni Kristjánssyni, sem ég veit að hefur lagt sig fram við að ná þessum árangri, en ég held að við verðum öll að líta á þetta sem eitt skref af mörgum til að leiðrétta stöðu sveitarfélaganna. Og því miður var skrefið ekki tekið til fulls því að hér var tækifærið, hér var hægt að uppfylla væntingar sveitarfélaganna hvað varðaði leiðréttingu á tekjustofnunum og því er þetta bæði mér og mörgum öðrum vonbrigði.

Ég er kannski ekki sleip í reikningi og hef aldrei haldið því fram, en það er alveg sama hvernig ég lít á þetta og skoða frá öllum hliðum og tek tillit til barnabóta og þess sem hér hefur verið nefnt sem innlegg í málið og ég hef nú ekki alveg skilið, þá vantar upp á það að með hækkun á útsvarinu sé samsvarandi lækkun á tekjuskatti. Þarna eru heil 0,66% sem ber á milli og ég get ekki fengið það öðruvísi inn í mitt höfuð en að þar með sé verið að hækka skatta þar sem jafnvægi er ekki náð. Það getur verið að ekki muni öll sveitarfélög nýta sér hámarksskattlagningu útsvars eða álagsprósentu en því miður held ég að það verði þannig að langflest geri það því að staða þeirra býður ekki upp á annað.

Nettóskuldaaukningin sl. tíu ár er 21 milljarður, eins og hér hefur komið fram, og stafar eingöngu af því að undanfarin ár hafa tekjur sveitarfélaganna verið allt of lágar, vextir á lánum sveitarfélaganna eru háir þannig að skuldastaða sveitarfélaganna vegna lána er líka mjög há.

Sveitarfélögin hafa ekki getað staðið undir lögboðnum og eðlilegum verkefnum. Það er almenn viðbótartekjuþörf upp á 5--7 milljarða á þessu ári og árlega sem vantar inn í þennan pakka og að mínu mati þyrfti í raun og veru að horfa til þess að inn í þetta kæmi enn hærri upphæð, ekki bara til að reka sveitarfélögin eins og gert er í dag heldur að horfa til þess að til að styrkja byggð í landinu verður að setja aukið fjármagn bæði í menntun og atvinnulífið og það verði umfram það sem lögin gera ráð fyrir.

Ég tel að nú þurfi að endurskoða lög um jöfnunarsjóðinn og fara vel yfir þá lagasetningu alla og hvaða hlutverki hann eigi að gegna, hvernig hann eigi að koma inn í þetta. Sömuleiðis er ekki nóg að hafa 700 millj. sem sérstakt framlag í Jöfnunarsjóð sveitarfélaga, 700 millj. fyrir árið í ár og næsta ár vegna breytinga á tekjum sveitarfélaganna varðandi breytingu á fasteignaskattinum. Þarna verðum við að sjá framhald á.

Herra forseti. Ég ætlaði ekki að hafa þetta langa ræðu. Það mætti nefna hér margt fleira en búið er að fara mjög vel yfir frv. og leggja fram mörg rök í þá átt að þetta sé ekki nægilegt til þess að rétta af fjárhag sveitarfélaganna og ég skal segja enn og aftur að ég varð fyrir vonbrigðum með að ekki skyldi nást jöfnuður á milli hækkunar útsvarsins og lækkunar tekjuskattsins því að í mínum huga þýðir þetta aukna skattheimtu.