Tekjustofnar sveitarfélaga

Fimmtudaginn 09. nóvember 2000, kl. 18:29:35 (1553)

2000-11-09 18:29:35# 126. lþ. 22.5 fundur 199. mál: #A tekjustofnar sveitarfélaga# (útsvar, fasteignaskattur o.fl.) frv., félmrh.
[prenta uppsett í dálka] 22. fundur, 126. lþ.

[18:29]

Félagsmálaráðherra (Páll Pétursson):

Herra forseti. Ég þakka þessa umræðu. Langflestir þingmenn Samfylkingar og vinstri grænna hafa talað einu sinni og ég tel rétt að grípa inn í og segja nokkur orð áður en önnur umferð hefst því hv. þm. hafa látið í ljós mikla óánægju með þetta frv. og þær tillögur sem það byggist á.

[18:30]

Vissulega geta sveitarstjórnarmenn fúslega tekið á móti meiri peningum en þarna er rétt að þeim eða þeim fengin heimild til að sækja. En nokkuð finnst mér skrýtið að hv. þm. virðast hafa miklu meiri áhyggjur af hag sveitarsjóðanna í landinu en sveitarstjórnarmennirnir sem sátu fjármálaráðstefnu sveitarfélaga. Sú óánægja sem hefur komið fram í dag hjá hv. stjórnarandstæðingum kom ekki fram hjá sveitarstjórnarmönnum á fjármálaráðstefnu sveitarfélaganna og lá þó fyrir hverjar voru tillögur tekjustofnanefndar og voru þær teknar þar sérstaklega til umræðu. Af þeim hópi sem tók til máls á sveitarstjórnarráðstefnunni voru tveir fulltrúar sem gagnrýndu tillögurnar. Annar þeirra var fulltrúi stjórnarandstöðunnar í nefndinni, hv. þm. Guðmundur Árni Stefánsson, hinn var Ásgeir Magnússon, bæjarfulltrúi á Akureyri, og hann gagnrýndi fyrst og fremst reglur jöfnunarsjóðs, ekki þessar tillögur heldur fyrst og fremst reglur jöfnunarsjóðs og að Ólafsfjörður fengi meira en Akureyri út úr jöfnunarsjóði á íbúa.

Ég hef séð ályktanir frá nokkrum sveitarfélögum og mér koma þær ekkert á óvart. Ég hef athugað afkomu nokkurra sveitarfélaga og kannski er rétt að byrja þá á sveitarfélögum úr kjördæmi hv. þm. Guðmundar Árna Stefánssonar sem hefur lýst hér miklum áhyggjum. Ég ætla að lesa það sem stendur á fréttavef Morgunblaðsins, með leyfi forseta:

,,Áætlaður tekjuafgangur hjá Hafnarfjarðarbæ á næsta ári. Bæjarsjóður Hafnarfjarðar verður rekinn með lítils háttar tekjuafgangi á árinu 2001 í fyrsta sinn um langt skeið samkvæmt fjárhagsáætlun sem lögð var fram á fundi bæjarstjórnar í gær. Skatttekjur bæjarsjóðs árið 2001 nema 4.026 milljónum samkvæmt áætluninni og hækka um 580 milljónir frá fjárhagsáætlun 2000 eða 16,8%. Heildarútgjöld bæjarsjóðs 2001 eru áætluð 4.009 milljónir króna og hækka um 53 milljónir frá fjárhagsáætlun ársins 2000.

Tekjur af útsvari eru áætlaðar 3.241 milljón króna og taka mið af álagningarstofni ársins 2000, hækkun útsvars\-álagningar um 0,66 prósentustig í 12,7% frá 1. janúar 2001, fjölgun íbúa um 4% og spá Þjóðhagsstofnunar um hækkun atvinnutekna.``

Síðan fara þeir yfir fasteignagjöldin og þar er sömu sögu að segja. Sem betur fer virðist þetta vera á réttri leið í Hafnarfirði.

En ég vil líka vitna í ársskýrslu Kópavogs þar sem bæjarstjórinn segir, með leyfi forseta, í formála að ársskýrslu Kópavogs:

,,Án þess að þreyta lesendur um of á tölum nefni ég sem dæmi um þróunina undanfarin ár að 1995 var rekstrarafgangur 296 milljónir króna, árið 1996 429 milljónir, 1997 589 milljónir og 1998 964 milljónir og árið 1999 1.287 milljónir. Allt þetta fé fer síðan í uppbyggingu og framkvæmdir utan það að á sl. ári voru skuldir lækkaðar um rúmlega 210 millj. kr.``

Sem betur fer eru sveitarfélögin ekki alveg á kúpunni.

Hv. þm. Guðmundur Árni Stefánsson sem kom í ræðu sinni inn á langflest þau atriði sem hafa verið rædd í dag og ég mun nota þennan tíma til þess að fjalla fyrst og fremst um ræðu hans enda hefur hún verið endurtekin að mestu með ýmsum tilbrigðum.

Hv. þm. vill ekki að sveitarstjórnirnar beri ábyrgð á því að leggja gjöld á íbúana. Það er sjálfsagt fallega hugsað. En sem bæjarstjóri og forustumaður í sveitarstjórn sinni hikaði hann ekki við að skuldsetja Hafnfirðinga, hann hikaði ekki við að skuldsetja Hafnfirðinga þegar hann var bæjarstjóri þar og mestur ráðamaður. Það að skuldsetja sveitarfélag sitt er náttúrlega ávísun á það að borga þurfi þessar skuldir og íbúar sveitarfélagsins þurfi með einhverjum hætti og einhvern tíma að greiða þær skuldir sem til er stofnað.

Sveitarstjórnarmenn eru ekki bara til að eyða, þeir bera líka ábyrgð á því að afla tekna. Sveitarstjórnir þurfa að hafa heimildir til að lækka útsvar ef þær hafa tækifæri til og síðan er aftur spurningin: Hvað á að skattleggja fyrir sveitarfélögin? Menn hafa verið að tala um að hér ætti að breikka skattstofna og verið með ýmsar vangaveltur þar um.

Í erindisbréfi tekjustofnanefndarinnar er kveðið nánar á um hlutverk hennar og ítrekað að markmið slíkrar endurskoðunar sé að tryggja að tekjustofnar sveitarfélaganna séu á hverjum tíma í samræmi við þau verkefni sem sveitarfélögunum er lögskylt að sinna. Þar segir enn fremur að stefnt skuli að því með endurskoðuninni að viðhalda einföldu og sveigjanlegu tekjustofnakerfi sem jafnframt skapi sveitarfélögunum nægilega tekjustofna til að sinna lögbundnum verkefnum.

Ég kem ekki auga á annan tekjustofn betri en útsvarið til að vera einfaldur og þó sveigjanlegur.

Menn hafa prófað ýmis kerfi í nágrannalöndunum, t.d. er ákaflega flókið tekjujöfnunarkerfi milli sveitarfélaganna í Danmörku, þ.e. fátæku kommúnurnar rukka ríku kommúnurnar. Ég held að menn væru ekki sælli með það hér.

Ég sagði í upphafsorðum mínum í morgun að útsvar eða staðgreiðsla einstaklings með 2 millj. kr. tekjur mundi hækka um 6 þús. kr. ef fullnýttar væru heimildir á þessu ári. Hv. þm. Guðmundur Árni Stefánsson hefur verið að tala um 50 þús. kr. hækkun á ári. 50 þús. kr. hækkun á ári á fjölskyldu útheimtir sú sama fjölskylda hafi yfir 8 millj. kr. tekjur. Til þess að ná þessari 50 þús. kr. útsvarshækkun, herra forseti, þarf fjölskyldan að vera með yfir 8 milljóna árstekjur. Ég vorkenni ekkert voðalega fjölskyldu með 8 milljónir þó að staðgreiðsla hennar hækki um 50 þúsund á ári.

Menn hafa verið að tala um jöfnunarsjóð og ég lít svo á að jöfnunarsjóður hafi miklu hlutverki að gegna. Ég vil taka það fram að hann hefur ekki verið skertur í minni tíð sem er meira en sumir aðrir geta státað af. Þörf fyrir tekjuaukningu sveitarfélaganna er mjög mismunandi og eins og ég held ég hafi komið inn á í framsöguræðu minni hækkuðu útsvarsstofnar á höfuðborgarsvæðinu frá 1996--1999 um 31,5% en útsvarsstofnarnir á landsbyggðinni hækkuðu ekki nema um 17,2%. Fasteignaskattsstofnarnir hækkuðu á milli 1997 og 2000 um 27,2% á höfuðborgarsvæðinu og 22,4% á landsbyggðinni. Svo eru menn að tala út og suður, sumir telja að verið sé að fara sérstaklega illa með landsbyggðina, sumir telja að verið sé að fara sérstaklega illa með höfuðborgarsvæðið. Ég held að verið sé að reyna að finna sanngjarna leið bæði fyrir höfuðborgarsvæðið og landsbyggðina.

Það var rétt hjá hv. þm. Jóni Bjarnasyni að í fyrra var í umræðu að miða fasteignaskatt við fasteignamat. En ég lagðist eindregið gegn því að taka það í mál í fyrra vegna þess að ekki var búið að finna leið til að bæta sveitarfélögunum upp þá tekjuskerðingu sem af því hefði hlotist fyrir dreifbýlissveitarfélögin. Nú er búið að finna leiðina og þar af leiðandi er þetta gert.

Útsvarið er ákaflega þægilegur tekjustofn fyrir sveitarfélögin og ég bendi á að þau þurfa ekki einu sinni sjálf að innheimta það. Ríkið innheimtir fyrir þau og skilar þeim útsvarinu þannig að það er ákaflega þægilegur tekjustofn fyrir sveitarfélögin.

Það hefur verið alveg gegnumgangandi í umræðunni hræðsla stjórnarandstöðunnar vegna sveitarstjórnarmanna að þeir þyrftu e.t.v. að standa fyrir lítils háttar skattalækkun á hluta gjaldenda, sérstaklega á höfuðborgarsvæðinu. (Gripið fram í.) Skattahækkun, fyrirgefið. (Gripið fram í: Lítils háttar?) Lítils háttar, já. Breyting á fasteignaskattinum plús tvisvar sinnum 700 millj. kr. framlag, það er hluti sem kemur þá til lækkunar eða til hagsbóta á landsbyggðinni. Síðan hefur a.m.k. einn ræðumaður ekki áttað sig á því að nú í ár borga sveitarfélögin í fæðingarorlof í kringum 400 milljónir. Fæðingarorlofssjóðurinn sem fer í gang um áramótin léttir þessum 400 milljónum af sveitarfélögunum. Þetta kemur því sveitarfélögunum til hagsbóta líka og í ár er það framlag til dreifbýlissveitarfélaganna eða landsbyggðarsveitarfélaganna kannski í kringum 150 milljónir, ég hef reyndar ekki athugað þetta hlutfall nákvæmlega.

Herra forseti. Nú er það svo að ég hef verið lengi á þingi og ég hef verið í stjórnarliði í meira en 20 ár og ég ber ábyrgð á bæði mörgum skattahækkunum og líka skattalækkunum. Það er bara hluti af starfinu alveg eins og það er hluti af starfi sveitarstjórnarmanna að stjórna sveitarfélögum. Ég hef stundum verið með nokkrum böggum hildar en kannski fyrst og fremst þegar við höfum verið að lækka skatta, ekki þegar við höfum verið að hækka þá. Þegar við höfum lækkað skatta hef ég óttast að það kæmi niður á samneyslunni í landinu. Ég vil halda uppi skynsamlegri samneyslu í þjóðfélaginu og við þurfum að hafa öryggisnet fyrir fólkið sem lakast stendur.

Hv. þm. Jóhann Ársælsson spurði um fasteignaskatt á jarðir sem eru notaðar til annars en landbúnaðar. Það er jafn fasteignaskattur á jarðir hvort sem þær eru notaðar til landbúnaðar eða ekki, þ.e. í lægra þrepi. Öll hlunnindi eru skattlögð eins, og þetta er gert af samkeppnisástæðum og samkvæmt dómum úr Hæstarétti. Gistipláss er hins vegar skattlagt eins og iðnaðar-, skrifstofu- og fiskeldismannvirki. (Forseti hringir.)

Herra forseti. Ég er því miður búinn með tíma minn og verð að hlíta því, ég á að vísu nokkuð eftir sem ég get komið að í lokaræðu minni í kvöld.