Tekjustofnar sveitarfélaga

Fimmtudaginn 09. nóvember 2000, kl. 18:56:59 (1561)

2000-11-09 18:56:59# 126. lþ. 22.5 fundur 199. mál: #A tekjustofnar sveitarfélaga# (útsvar, fasteignaskattur o.fl.) frv., félmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 22. fundur, 126. lþ.

[18:56]

Félagsmálaráðherra (Páll Pétursson) (andsvar):

Herra forseti. Það er ekki svo mikið sem ber á milli okkar núna. Guðmundur Bjarnason taldi að hallareksturinn yrði á þriðja milljarð eða 3 milljarðar og að sveitarfélögin fengju hann uppi borinn núna. Hann hélt til haga fortíðarvandanum eins og ég sagði áðan. Ég ætla ekkert að fara að deila um hvað hann er mikill eða hvernig hann er til kominn en það eru ýtrustu útreikningar að telja hann upp á 35 milljarða.

Ég held að þessi niðurstaða hafi verið sanngjörn. Ég er alveg hjartanlega sammála formanni Sambands íslenskra sveitarfélaga að auðvitað eiga sveitarfélögin að nota þá tekjustofna sem þeim eru heimilir fremur en að reka sig með halla. Ég hef ekkert á móti því og ég kem ekki til með að álasa sveitarfélögunum þó að þau telji að þau þurfi að nota þær heimildir upp í topp sem þau hafa.