Tekjustofnar sveitarfélaga

Fimmtudaginn 09. nóvember 2000, kl. 18:58:26 (1562)

2000-11-09 18:58:26# 126. lþ. 22.5 fundur 199. mál: #A tekjustofnar sveitarfélaga# (útsvar, fasteignaskattur o.fl.) frv., GÁS (um fundarstjórn)
[prenta uppsett í dálka] 22. fundur, 126. lþ.

[18:58]

Guðmundur Árni Stefánsson (um fundarstjórn):

Herra forseti. Við ræðum 5. dagskrárliðinn, tekjustofna sveitarfélaga, og höfum gert í allan dag. Ég velti því aðeins fyrir mér þar sem 5., 6. og 8. dagskrárliðir eru allir tengdir því máli sem við höfum rætt hér, hver á sína vísu og verða að hanga saman og geta ekki án hvers annars verið, hvernig forseti hafi hugsað sér að haga framhaldinu.

Nú er ég þess mjög fýsandi að menn gangi hratt og örugglega til verka því að þrátt fyrir annmarka á þessum málatilbúnaði er margt í þessu sem ástæða er til að gangi fram. Því spyr ég, og leita kannski eftir athugasemdum hæstv. ráðherra og formanns félmn., hvernig þau sjá það fyrir sér að þetta gangi fram því að sveitarfélögin þurfa að leggja á fyrir 1. desember og það þarf að ljúka verkinu hér í þinginu fyrir þann tíma og það þarf að senda þetta til umsagnar til allra sveitarfélaga hringinn í kringum landið.

Aðalástæðan fyrir því að ég staldra við á þessum tímapunkti er sú að fjmrh. er ekki viðstaddur þessa umræðu og ég veit ekki til þess að hans sé að vænta til þess að mæla fyrir 8. dagskrármálinu sem lýtur að hinum mildandi aðgerðum, þ.e. lækkun tekjuskatts. Mér þykir algjör óhæfa að við afgreiðum málið í bútum til viðkomandi nefnda.

Ég vildi líka gjarna spyrja hv. þm. Arnbjörgu Sveinsdóttur, formann félmn., hvort hún telji ekki eðlilegt og sjálfsagt að skattaþáttur málsins, þ.e. hinar mildandi aðgerðir, lækkun tekjuskattsins, fari til umfjöllunar eða a.m.k. umsagnar í félmn. sömuleiðis og að sá pakki verði líka sendur út til umsagnar sveitarfélaga þannig að sveitarfélögin og aðrir umsagnaraðilar hafi þessi mál í heildstæðri mynd. Ég held að það sé algjörlega nauðsynlegt. En nú virðist stefna í það, a.m.k. eins og sakir standa, að þetta verði eins konar bútasaumur eða umræðu a.m.k. lokið hér að hluta til. Félmn. mun funda á morgun eftir því sem ég best veit og taka hluta málsins til umfjöllunar og útsendingar og það er ekki nógu gott verklag, eins og ég rakti áðan. Ég get látið mér til hugar koma hvort mönnum litist á eða a.m.k. ræði í nefndinni þann möguleika að allur pakkinn fari til útsendingar á morgun, enda þótt 1. umr. um alla þessa dagskrárliði hafi ekki verið lokið. Ég, fyrir mína parta a.m.k., er alveg til viðræðu um það og tel það alls ekki óeðlilegt í ljósi þessara þröngu tímamarka.

Ég vildi færa þetta í tal, herra forseti, í ljósi þess að málið er ekki mjög einfalt úrlausnar. En það er hægt að gera þetta með góðum vilja.