Tekjustofnar sveitarfélaga

Fimmtudaginn 09. nóvember 2000, kl. 19:01:13 (1563)

2000-11-09 19:01:13# 126. lþ. 22.5 fundur 199. mál: #A tekjustofnar sveitarfélaga# (útsvar, fasteignaskattur o.fl.) frv., JÁ (um fundarstjórn)
[prenta uppsett í dálka] 22. fundur, 126. lþ.

[19:01]

Jóhann Ársælsson (um fundarstjórn):

Hæstv. forseti. Við höfum verið nokkuð lengi á fundi í dag, hann hófst klukkan ellefu í morgun og segja má að fyrir utan matarhlé og eina utandagskrárumræðu hafi menn talað um þetta sama mál í allan dag og býsna margir eru á mælendaskrá enn þá. Ég held kannski að velta þurfi því aðeins fyrir sér hvernig framhald málsins verður. Eins og hv. þm. Guðmundur Árni Stefánsson sagði áðan eru önnur mál tengd þessu sem ekkert er farið að ræða og ég held það hljóti að fara að verða töluverð spurning með hvaða hætti þinghaldinu verður fram haldið í dag. Því mun örugglega ekki ljúka alveg á næstunni og ég býst við því að hv. þm. þurfi kannski á því að halda að fá sér eitthvað að borða eða eitthvað slíkt og það þurfi þá að gera hlé á störfum þingsins á meðan það gerist.

Ég vil spyrja hæstv. forseta hvort eitthvað sé búið að ræða þetta í forsn. þingsins og velta fyrir sér hve lengi á að halda hér áfram. Ég segi fyrir mitt leyti að mér finnst þessi dagur vera orðinn alveg nægilega langur og það hljóti þá að þurfa, a.m.k. ef menn ætla að halda þessum umræðum áfram miðað við þá mælendaskrá sem fyrir liggur, að gera hlé á fundinum þannig að gefinn verði kostur á því að þingmenn fái að fara í mat.