Tekjustofnar sveitarfélaga

Fimmtudaginn 09. nóvember 2000, kl. 19:08:42 (1568)

2000-11-09 19:08:42# 126. lþ. 22.5 fundur 199. mál: #A tekjustofnar sveitarfélaga# (útsvar, fasteignaskattur o.fl.) frv., JB (um fundarstjórn)
[prenta uppsett í dálka] 22. fundur, 126. lþ.

[19:08]

Jón Bjarnason (um fundarstjórn):

Herra forseti. Ég tek undir sjónarmið hv. þm. Guðmundar Árna Stefánssonar um að eðlilegt hefði verið að þau mál sem hér eru tengd saman yrðu afgreidd sameiginlega til nefndar.

Ég tek líka undir ábendingu um að ekki var boðaður kvöldfundur í kvöld og þess vegna kæmi það mér mjög, ekki íslenskt heldur spánskt fyrir sjónir ef það yrði í sjálfu sér gert.

Ég vil líka vekja athygli á því, herra forseti, að þetta mál hefur ekki tafist í meðförum þingsins, síður en svo. Nefndin sem þetta frv. byggði á átti að skila áliti snemma í sumar en gerði það ekki fyrr en núna fyrir nokkrum dögum og frv. er því alveg nýkomið fram. Það er því engan veginn sanngjarnt að segja að Alþingi sé að tefja framgang málsins hafi einhverjir viljað láta að því liggja, þetta er eitt stærsta mál sem hefur komið fram á Alþingi í haust, a.m.k. að mínu mati, þ.e. tekjuskipti ríkis og sveitarfélaga og hvernig standa eigi að því að bæta sveitarfélögunum sinn mikla tekjumissi sem hefur orðið af hálfu stjórnvaldsaðgerða.

Herra forseti. Það er því alveg furðuleg staða að koma hér með þetta mál sem hefði átt að eiga sér svo langan aðdraganda og stilla því upp með þeim hætti að Alþingi geti ekki rætt það eina dagstund, að þá sé farið að tefja það gagnvart þeim sem það á að ná til. Ég vil bara gagnrýna það. Finni menn síðan einhverja aðra málsmeðferð til að bæta hér úr slakri framgöngu ríkisstjórnarinnar við að leggja fram mál, þá má svo sem taka vel undir það að draga hana þar að landi, kunni hún að meta það.