Tekjustofnar sveitarfélaga

Fimmtudaginn 09. nóvember 2000, kl. 19:12:13 (1570)

2000-11-09 19:12:13# 126. lþ. 22.5 fundur 199. mál: #A tekjustofnar sveitarfélaga# (útsvar, fasteignaskattur o.fl.) frv., GÁS (um fundarstjórn)
[prenta uppsett í dálka] 22. fundur, 126. lþ.

[19:12]

Guðmundur Árni Stefánsson (um fundarstjórn):

Herra forseti. Ég þakka fyrir jákvæð viðbrögð við ábendingum mínum um gang þessara mála og er fyrir mína parta ákaflega sáttur við orð hæstv. ráðherra og formanns nefndarinnar í þessa veru. Ég undirstrika að ég veit ekki betur en að stjórnarandstaðan hafi sýnt þessum málum áhuga, enda hefur umræðan hér í dag bent til þess og undirstrikað það og viðvera þingmanna nú og í allan dag raunar, og við erum jafn áfram um það að þetta mál fái hraðan og öruggan framgang.

Ég vil þó halda því ákveðið og rétt til haga þó að á því kunni að vera ákveðnir formgallar, ákveðin vandamál, að það er auðvitað ákaflega kúnstugt ef tvær þingnefndir ætla hvor um sig að senda þetta mál til umsagnar til sömu umsagnaraðila á sama tíma. Ég vek athygli á því að við þskj. 206 --- það er rangt númer á þessu en það breytir ekki öllu, það er um skattaþátt málsins --- er líka komin fram brtt. frá öllum þingmönnum Samfylkingarinnar, 17 talsins. Það er auðvitað einboðið að hún er hér fram komin strax við 1. umr. til að tryggja að hún fái málefnalega umfjöllun í nefndinni og meðal umsagnaraðila. Ég vil þess vegna halda því mjög klárlega til haga að hún fari einnig til viðkomandi nefndar. Ég sé það raunar þannig fyrir mér og þannig getur það ekki öðruvísi verið en að félmn. hafi forsjá málsins þó að efh.- og viðskh. hafi hina formlegu umfjöllun á hendi, þ.e. skattalegan þátt málsins. Þetta er ekki hægt að slíta í sundur eins og um var rætt. Að lyktum segi ég, og ber sérstaklega vel í veiði núna að varaformaður efh.- og viðskn. gekk í salinn, og ég velti því hér upp hvort í góðu samkomulagi forsvarsmanna þessara tveggja nefnda geti menn sent þetta út sem heildstæðan pakka, svo ég noti enn á ný það orðalag, og ég get ekki séð að það þurfi að ganga á ská og skjön við þingsköp, enda erum við að beygja þau talsvert þegar við sendum þetta út til umsagnar áður en 1. umr. lýkur. En allt má þetta gera í góðu samkomulagi ef viljinn er til staðar, og hann er það a.m.k. hjá stjórnarandstöðunni.