Tekjustofnar sveitarfélaga

Fimmtudaginn 09. nóvember 2000, kl. 19:17:21 (1573)

2000-11-09 19:17:21# 126. lþ. 22.5 fundur 199. mál: #A tekjustofnar sveitarfélaga# (útsvar, fasteignaskattur o.fl.) frv., ÁRJ (um fundarstjórn)
[prenta uppsett í dálka] 22. fundur, 126. lþ.

[19:17]

Ásta R. Jóhannesdóttir (um fundarstjórn):

Herra forseti. Ég vil leggja aðeins orð í belg og halda því til haga að það er orðið ansi þreytandi þegar alltaf er þessi pressa á þingmönnum þegar ríkisstjórnin er að koma með mál svona seint fram. Það var alveg vitað að það var ákveðin pressa í þessu máli vegna þess að sveitarfélögin þurfa að fara að vinna eftir þessum lögum innan skamms.

Það er rétt að við þingmenn Samfylkingarinnar lögðum það til að málið færi í útsendingu og samþykktum það. Þó að það sé ósiður að senda út mál eða taka mál til umfjöllunar í nefnd áður en búið er að ræða það í þinginu í 1. umr. Við höfum samþykkt það vegna þess hve tímapressan er mikil. Þar með erum við að leggja því lið að málið fái þinglega meðferð og sveitarfélögin geti svarað og komið með umsagnir sínar. Ekki er þar með sagt að við séum að styðja málið sem við erum auðvitað ekki að gera eins og sést á þeirri brtt. sem við höfum lagt fram og alls ekki að samþykkja að það verði einhver regla að viðhafa þessi vinnubrögð þegar ríkisstjórnin er sein fram með mál.

Ég tek undir með hv. þm. Guðmundi Árna Stefánssyni að þessi mál verði send frá þinginu saman. Þau hanga í rauninni saman, þar með talin brtt. Samfylkingarinnar við skattamálið. Ég teldi eðlilegt, hv. þm. stjórnarliðsins sem eru hér í salnum, að brtt. Samfylkingarinnar yrði send út með þessum málapakka ríkisstjórnarinnar, það er fullkomlega eðlilegt. Og, herra forseti. Ég fer fram á það hér að þegar þessi mál fara til útsendingar fylgi þessi brtt. með. Ég get reyndar ekki séð að það muni miklu hvort málið fer út á morgun eða mánudaginn en að málin fari öll saman til sveitarfélaganna þannig að þau geti tekið afstöðu til þeirra í heild og síðan væri fullkomlega eðlilegt að félmn. fái skattalega þáttinn a.m.k. til umsagnar.