Starfsmannamál Ríkisútvarpsins

Mánudaginn 13. nóvember 2000, kl. 15:20:49 (1593)

2000-11-13 15:20:49# 126. lþ. 23.1 fundur 107#B starfsmannamál Ríkisútvarpsins# (óundirbúin fsp.), menntmrh.
[prenta uppsett í dálka] 23. fundur, 126. lþ.

[15:20]

Menntamálaráðherra (Björn Bjarnason):

Herra forseti. Það sem ég var spurður um í Degi var að fram kom í fyrirspurninni að það væru ekki málefnalegar ástæður sem réðu því þegar fólk væri ráðið til starfa hjá Ríkisútvarpinu, og ég lýsti undrun minni yfir því ef starfsmenn Ríkisútvarpsins teldu að það væru ekki málefnalegar aðstæður sem réðu þegar fólk væri ráðið til starfa hjá þessari stofnun. Það var það sem ég var að svara.

Varðandi hins vegar viðhorf starfsmanna Ríkisútvarpsins sem koma fram í könnun, sem ég hef ekki kynnt mér sérstaklega, um málefni sem lúta undir forræði fjmrn. um afstöðu opinberra starfsmanna til þeirra stofnana þar sem þeir starfa, um það mál hef ég í sjálfu sér ekki tjáð mig. Ég hef ekki kynnt mér það sérstaklega en tel sjálfsagt og eðlilegt, eins og staðið var að þeirri könnun, að stjórnendur viðkomandi stofnunar taki á þeim málum sem þar eru talin gagnrýnisverð og leitist við að koma til móts við starfsmenn sína. Ég taldi að þessi könnun fjmrn. snerist um að opinberir starfsmenn fengju tækifæri til að lýsa afstöðu sinni, að ræða við sína næstu yfirmenn og koma fram með sjónarmið sín í þeim tilgangi að viðkomandi stofnanir tækju á málum innandyra hjá sér og ég tel sjálfsagt og eðlilegt að Ríkisútvarpið geri það eins og aðrar opinberar stofnanir.