Starfsmannamál Ríkisútvarpsins

Mánudaginn 13. nóvember 2000, kl. 15:22:22 (1594)

2000-11-13 15:22:22# 126. lþ. 23.1 fundur 107#B starfsmannamál Ríkisútvarpsins# (óundirbúin fsp.), ÁRJ
[prenta uppsett í dálka] 23. fundur, 126. lþ.

[15:22]

Ásta R. Jóhannesdóttir:

Herra forseti. Þar sem hæstv. ráðherra er ekki kunnugt um hvernig þessi spurning var orðuð gagnvart ríkisstarfsmönnum ætla ég að lesa hana hér. Það var spurt með fullyrðingu:

,,Ávallt er vandað til ráðningar starfsfólks á stofnuninni og fyllstu hlutlægni gætt.``

67% af öllum ríkisstarfsmönnum svöruðu þessari staðhæfingu játandi, en hjá Ríkisútvarpinu sögðust 75% vera þessu ósammála af þeim sem svöruðu og það voru tugþúsundir sem tóku þátt í þessari könnun.

Ég spyr hæstv. ráðherra: Finnst honum ekki ástæða til að beita sér fyrir því sem æðsti yfirmaður þessarar stofnunar að starfsmannamálin verði endurskoðuð af hlutlausum aðila eins og starfsmannafélagið fer fram í ályktun sinni? Það er altalað að fram fari pólitískar ráðningar, þær eru staðreynd, og þess vegna tel ég ástæðu til að þetta verði skoðað og spyr hæstv. ráðherra hvort hann muni ekki beita sér fyrir því sem æðsti yfirmaður stofnunarinnar.