Starfsmannamál Ríkisútvarpsins

Mánudaginn 13. nóvember 2000, kl. 15:23:36 (1595)

2000-11-13 15:23:36# 126. lþ. 23.1 fundur 107#B starfsmannamál Ríkisútvarpsins# (óundirbúin fsp.), menntmrh.
[prenta uppsett í dálka] 23. fundur, 126. lþ.

[15:23]

Menntamálaráðherra (Björn Bjarnason):

Herra forseti. Það sem mér finnst einkennilegast í öllu þessu máli er að þeir sem svara þessum spurningum hafa verið ráðnir á þeim forsendum sem þeir telja svona ámælisverðar. Og það er það sem mér finnst skrýtnast við niðurstöður þessar að það starfsfólk sem hefur verið ráðið á þessum forsendum sem það er að gagnrýna með þessu móti skuli telja að ranglega hafi verið staðið að ráðningu þess sjálfs. Því að ég get ekki lesið annað út úr þessum svörum en það að þetta fólk telji að einhverjar ómálefnalegar ástæður hafi ráðið því að það var ráðið til starfa hjá Ríkisútvarpinu. Ef málið snýst um þetta þá segi ég, eins og ég sagði í blaðaviðtalinu, það hlýtur að koma fleirum í opna skjöldu en mér að þetta fólk hafi þá afstöðu þegar spurt er svona.

Ef spurningin snýst hins vegar um önnur atriði eins og þau hvort bera eigi undir útvarpsráð að menn séu ráðnir til starfa við dagskrárgerð o.s.frv. þá er það lagasetningarmál sem ég tel sjálfsagt að taka á og í því frv. sem ég hef hug á að leggja fyrir Alþingi um breytingar á stjórnarháttum í Ríkisútvarpinu verður tekið á því máli.