Aukaframlög til Þjóðmenningarhúss

Mánudaginn 13. nóvember 2000, kl. 15:33:45 (1604)

2000-11-13 15:33:45# 126. lþ. 23.1 fundur 109#B aukaframlög til Þjóðmenningarhúss# (óundirbúin fsp.), ÞSveinb
[prenta uppsett í dálka] 23. fundur, 126. lþ.

[15:33]

Þórunn Sveinbjarnardóttir:

Herra forseti. Í frv. til fjáraukalaga fyrir árið 2001 er undir liðnum Menningarstofnanir, viðhald og stofnkostnaður, farið fram á 63 millj. kr. aukafjárframlag vegna endurbóta Safnahússins við Hverfisgötu sem nefnist nú Þjóðmenningarhús.

Í fjárlögum yfirstandandi árs voru 90 millj. kr. veittar til endurbóta á húsinu en nú er komið á daginn að útgjöld vegna endurbóta hafa farið 67% fram úr áætlun eða um 63 millj. kr. Ástæða er til að spyrja hæstv. fjmrh. hvað valdi því að endurbætur Þjóðmenningarhússins fóru svo gífurlega fram úr áætlun en þá er ekki öll sagan sögð varðandi Safnahúsið við Hverfisgötu. Í lið 251 í frv. til fjáraukalaga er einnig farið fram á 37 millj. kr. fjárveitingu til að kaupa húsbúnað inn í Þjóðmenningarhúsið og tekið fram að farið sé fram á þetta í aukafjárlögum þar sem endurbótasjóður greiði ekki slíkan búnað.

Að lokum er farið fram á 12 millj. kr. vegna umframgjalda í rekstri hússins og landafundasýningin nefnd sérstaklega í því sambandi.

Herra forseti. Þetta gera samtals 112 millj. kr. umfram áætlanir um fjárframlög úr ríkissjóði til Þjóðmenningarhúss á yfirstandandi ári. Ég leyfi mér því að spyrja hæstv. fjmrh. hvað hafi helst gert það að verkum að áætlanir stóðust ekki, þ.e. hvað hafi helst valdið ófyrirséðum kostnaði vegna Þjóðmenningarhúss.