Aukaframlög til Þjóðmenningarhúss

Mánudaginn 13. nóvember 2000, kl. 15:35:19 (1605)

2000-11-13 15:35:19# 126. lþ. 23.1 fundur 109#B aukaframlög til Þjóðmenningarhúss# (óundirbúin fsp.), fjmrh.
[prenta uppsett í dálka] 23. fundur, 126. lþ.

[15:35]

Fjármálaráðherra (Geir H. Haarde):

Herra forseti. Ég vil fyrst vekja athygli á því að hér er verið að spyrja um þingmál sem er til afgreiðslu í þinginu. Það er heldur óvenjulegt að draga slíkt mál inn í óundirbúnar fyrirspurnir en þetta mál bar reyndar á góma við 1. umr. um fjáraukalagafrv. Spurt var um þetta og því var svarað. Ég bendi hv. þm. á að kynna sér þær umræður. Þeim spurningum var ekki svarað til hlítar vegna þess að það var ekki hægt í þeirri umræðu en tekið var fram af minni hálfu að fjárln. þingsins mundi að sjálfsögðu fá allar upplýsingar um málið vegna þess að hér er um að ræða frv. sem er til meðferðar í þinginu og er eðlilegt að nefndin afli sér slíkra upplýsinga.

Það liggur líka í augum uppi að ég er ekki í stakk búinn til að gefa óundirbúið nákvæmar skýringar á þessum atriðum. En forsrn., sem ber ábyrgð á þessari byggingu, hefur óskað eftir sérstakri athugun á því hvernig á því stendur að þarna hefur orðið umframkostnaður og ég geri ráð fyrir því að fjárln. fái greiðlega öll þau svör sem eru á takteinum í þessu efni.