Fjárhagsvandi sveitarfélaga á Vestfjörðum

Mánudaginn 13. nóvember 2000, kl. 15:43:10 (1608)

2000-11-13 15:43:10# 126. lþ. 23.94 fundur 104#B fjárhagsvandi sveitarfélaga á Vestfjörðum# (umræður utan dagskrár), félmrh.
[prenta uppsett í dálka] 23. fundur, 126. lþ.

[15:43]

Félagsmálaráðherra (Páll Pétursson):

Herra forseti. Ég get fullvissað hv. fyrirspyrjanda um að engin löngun er til þess að fara illa með sveitarfélög á Vestfjörðum eða annars staðar í landinu. Fleiri sveitarfélög hafa komist í fjárhagsvanda en þessi sveitarfélög á Vestfjörðum, t.d. komst Siglufjörður í alvarlegan fjárhagsvanda. Þar var sú leið farin til að bjarga fjárhag Siglufjarðar að selja veitustofnanir Siglufjarðar. Rarik keypti og hefur rekið þær með mikilli prýði og við mikla ánægju bæjarbúa.

Enginn vafi er á því heldur að sveitarfélögin bera fulla ábyrgð á öllum skuldbindingum vegna félagslega íbúðakerfisins bara svo að það sé tekið fram. En 24. september 1999 skrifaði Fjórðungssamband Vestfirðinga eða framkvæmdastjóri þess til þáv. iðnrh., Finns Ingólfssonar, svohljóðandi bréf um málefni Orkubús Vestfjarða sem ég ætla að lesa hluta úr, með leyfi forseta:

,,Sveitarstjórnarmenn á Vestfjörðum hafa rætt þá hugmynd að gera Orkubú Vestfjarða að hlutafélagi og/eða ganga til viðræðu við ríkisvaldið um sölu á eignarhluta sveitarfélaga í Orkubúi Vestfjarða eða þá að sveitarfélögin á Vestfjörðum kaupi hlut ríkissjóðs í Orkubúi Vestfjarða. Til að koma formlegri vinnu og umræðu af stað skipaði stjórn Fjórðungssambands Vestfirðinga nefnd sem á að meta hvaða kostir standa sveitarfélögum til boða varðandi framtíðarskipan Orkubús Vestfjarða, en nefndin á að skila áliti á Fjórungsþingi Vestfirðinga þann 8. og 9. október nk.

Fyrir hönd nefndarinnar óska ég eftir að þér, iðnaðarráðherra, boðið til fundar með fjármálaráðherra til að ræða þetta mál og skynja hug ríkisvaldsins. Þar sem styttist í fjórðungsþing væri æskilegast að geta komið fundi á sem fyrst`` o.s.frv.

[15:45]

Þetta er sem sagt bréf frá Ísafirði 24. september 1999. Hugmyndin um sölu á orkubúinu er komin frá Vestfirðingum sjálfum.

Skuldir einstakra sveitarfélögum á Vestfjörðum eru vissulega mjög miklar og það er alveg ljóst að það þarf að grípa til róttækra ráðstafana ef þau eiga að komast í rekstrarhæft form. Skuldir Bolungarvíkur eru 760 milljónir, skuldir Ísafjarðar nær tveir og hálfur milljarður og 918 milljónir í Vesturbyggð. Vanskilaskuldir við Íbúðalánasjóð eru lítill hluti af þessum fjárhæðum. Vanskilin á Bolungarvík eru ekki nema 10 milljónir, 217 milljónir á Ísafirði og 193 í Vesturbyggð.

Eftirlitsnefnd með fjárhagsstöðu sveitarfélaga hefur hvað eftir annað sent bréf til þeirra sveitarfélaga sem í vandræðum eru og óskað eftir því að þau geri grein fyrir því hvernig þau ætla að vinna sig út úr sínum vanda. Nú seinast 25. maí sendi eftirlitsnefndin bréf til sveitarfélaga m.a. á Vestfjörðum og áréttaði að hún vildi fá greinargerð um þróun á fjármálum sveitarfélagsins á árinu 1999 og hvernig sveitarstjórnin hygðist bregðast við fjárhagsvanda sveitarfélagsins, m.a. við gerð fjárhagsáætlunar fyrir árið 2000 og þriggja ára áætlunar sveitarfélagsins. Mikilvægt er að slíkri greinargerð fylgi ítarlegar upplýsingar á ársreikningum sveitarfélagsins árið 1999 þar sem fram komi fjármagnshreyfingar, samandregið rekstrar- og framkvæmdayfirlit og yfirlit yfir peningarlegar eignir og heildarskuldir í árslok. Enn fremur er mikilvægt að sambærilegar upplýsingar berist úr fjárhagsáætlun 2000 og þriggja ára áætlun sveitarfélagsins. Eftirlitsnefndinni hefur ekki borist áðurnefnd greinargerð né fullnægjandi gögn um fjárhagsstöðu sveitarfélagsins. Hér með er sveitarfélaginu veittur frestur til 10. júní nk. að skila umbeðnum gögnum.

Herra forseti. Ráðuneytisstjórar félagsmála-, fjármála- og iðnaðarráðuneytis sendu í umboði sinna ráðuneyta, eigum við að segja sinna ráðherra, bréf til Vestfirðinga, sem hér voru lesnar úr glefsur. Ég sé að ég hef ekki tíma til að lesa það allt saman. En það stendur ekki til að fara að ganga á hlut Vestfirðinga (Forseti hringir.) eða að setja þeim einhverja nauðungarkosti. Það er óskað eftir því að þeir kanni hvort þeir vilji gera Orkubúið að hlutafélagi (Forseti hringir.) þannig að einstök sveitarfélög geti, ef þau vilja, selt hlut sinn í því.

(Forseti (ÍGP): Ég minni hæstv. ráðherra og hv. þingmenn á að virða tímamörk.)