Fjárhagsvandi sveitarfélaga á Vestfjörðum

Mánudaginn 13. nóvember 2000, kl. 15:51:19 (1610)

2000-11-13 15:51:19# 126. lþ. 23.94 fundur 104#B fjárhagsvandi sveitarfélaga á Vestfjörðum# (umræður utan dagskrár), EKG
[prenta uppsett í dálka] 23. fundur, 126. lþ.

[15:51]

Einar K. Guðfinnsson:

Virðulegi forseti. Við ræðum hér um mál sem er ákaflega mikið alvörumál, þ.e. vandi sveitarfélaga á Vestfjörðum. Það er ljóst að þessi vandi stafar af ýmsum orsökum og ég held að það sem er veigamest í því sambandi sé hin alvarlega fólksfækkun sem þar hefur átt sér stað á undanförnum árum, sem smám saman hefur dregið viðnámsþróttinn úr sveitarfélögunum, minnkað tekjurnar og gert sveitarfélögin vanbúin til þess að takast á við verkefni sem þau þurfa að sinna. Það er því eins konar vítahringur sem sveitarfélögin hafa lent í og við sjáum að öflug sveitarfélög hafa getað tekið þátt í mikilli atvinnusköpun og tekið þátt í því að laða til sín atvinnustarfsemi sem síðan hefur styrkt þau.

Sveitarfélögin á Vestfjörðum hafa ekki verið í þessum færum á undanförnum árum og þess vegna hefur smám saman verið að fjara undan þeim og staðan er þess vegna svona alvarleg.

Við vitum að það er verið með ýmsum hætti að reyna að treysta tekjugrundvöll sveitarfélaganna í landinu með almennum aðgerðum. Í fyrsta lagi með því að hækka tekjur þeirra almennt talað. Síðan eru fyrirhugaðar sérstakar aðgerðir til þess að mæta vanda þeirra sveitarfélaga sem hafa mátt sjá á eftir fólki úr sínum sveitarfélögum og síðan með því að efla atvinnustarfsemi með sérstökum aðgerðum varðandi fasteignaskattana. Þetta allt er auðvitað liður í því að treysta sveitarfélögin.

Þrátt fyrir þetta er ljóst að þetta mun ekki duga þeim sveitarfélögum sem eru í mestum vanda, svo sem eins og sveitarfélögunum á Vestfjörðum. Og það er af þeim ástæðum sem sveitarfélög á Vestfjörðum eða sveitarstjórnir á Vestfjörðum hafa leitað eftir því að ríkið kaupi hlut sveitarfélaganna í Orkubúi Vestfjarða.

Það er alveg ljóst mál og það ber að legga á það mikla áherslu að það er ekki svo að ríkisvaldið hafi verið að slægjast eftir þessari eign, heldur hefur verið litið þannig á að það gæti verið liður í þeirri viðreisn sem nauðsynlega þarf að eiga sér stað á Vestfjörðum, að þessi eignarhlutur sé seldur.

Ég vil segja, herra forseti, að þeir sem gagnrýna þessa aðferð, verða auðvitað þá að leggja fram aðrar hugmyndir a.m.k. jafngóðar því það tjóar örugglega ekki að skilja sveitarfélögin eftir í þeim vanda sem þau eiga í í dag. Við verðum auðvitað að finna á þessum mikla vanda lausn og við erum hér að tala um stórar upphæðir sem hlaupa á milljörðum króna.