Fjárhagsvandi sveitarfélaga á Vestfjörðum

Mánudaginn 13. nóvember 2000, kl. 16:03:12 (1615)

2000-11-13 16:03:12# 126. lþ. 23.94 fundur 104#B fjárhagsvandi sveitarfélaga á Vestfjörðum# (umræður utan dagskrár), félmrh.
[prenta uppsett í dálka] 23. fundur, 126. lþ.

[16:03]

Félagsmálaráðherra (Páll Pétursson):

Herra forseti. Það er alfarið á valdi sveitarfélaga á Vestfjörðum hvers um sig hvort þau kjósa að ganga til samninga við ríkið um hlut í Orkubúi Vestfjarða. Engum hefur dottið í hug að ætla sveitarfélögunum að greiða upp skuldir sínar í félagslega kerfinu svo að það sé bara ljóst. Menn tala eins og það eigi að taka þetta orkubú til að borga allar skuldir af félagslega íbúðakerfinu, svo er ekki.

Ég ætla ekki að svara aulalegum og illkvittnum tilgátum um fjandskap ríkisvaldsins í garð sveitarfélaga á Vestfjörðum. Þær eiga sér enga stoð og það er enginn vilji til þess að sölsa eignir sveitarfélaganna undir ríkið. Af okkar hálfu er fullur vilji til að aðstoða sveitarfélögin til þess að komast í rekstrarhæft ástand.

Hv. þm. Jón Bjarnason vitnaði í 75. gr. sveitarstjórnarlaga. Þar er um neyðarráðstafanir að ræða. Í 75. gr. segir, með leyfi forseta:

,,Komi í ljós við rannsókn að fjárhagur sveitarfélags sé slíkur að það geti ekki með eðlilegum rekstri staðið straum af lögboðnum útgjöldum eða öðrum skuldbindingum sínum er ráðuneytinu heimilt að tillögu eftirlitsnefndar að veita sveitarfélaginu styrk eða lán úr Jöfnunarsjóði sveitarfélaga til þess að koma fjárhag sveitarfélagsins á réttan kjöl með þeim skilyrðum sem ráðuneytið setur. Ráðuneytið getur heimilað eða lagt fyrir sveitarstjórn í því tilviki sem hér um ræðir og að tillögu eftirlitsnefndar að leggja álag á útsvör og fasteignaskatta sem nemi allt að 25%.``

Ég hef ekki löngun til þess að leggja þetta til og það er ekki hægt að gera öðruvísi við sveitarfélög á Vestfjörðum en önnur sveitarfélög í landinu að breyttu breytanda. Þau eru svo heppin, sveitarfélögin á Vestfjörðum, að eiga fyrirtæki sem þau geta komið í verð ef þau kæra sig um. En það er ekki okkar að gera það. Okkur er hins vegar þægð í að sveitarfélögin séu í rekstrarhæfu standi.