Tekjustofnar sveitarfélaga

Mánudaginn 13. nóvember 2000, kl. 16:56:58 (1632)

2000-11-13 16:56:58# 126. lþ. 23.2 fundur 199. mál: #A tekjustofnar sveitarfélaga# (útsvar, fasteignaskattur o.fl.) frv., JóhS
[prenta uppsett í dálka] 23. fundur, 126. lþ.

[16:56]

Jóhanna Sigurðardóttir:

Herra forseti. Það var ekki hugmynd mín að tefja neitt þessa umræðu sem hefur staðið um alllanga hríð frá því hún hófst fyrir helgi, um tekjustofna sveitarfélaga og það hvernig hæstv. ríkisstjórn og hæstv. ráðherra ætla að afgreiða sveitarfélögin með því að gefa þeim heimild til þess að hækka skatta hér, sérstaklega á íbúa á suðvesturhorninu. En mér fannst ekki hægt að skilja við þessa umræðu með þeim hætti sem hæstv. félmrh. gerði í lokin. Þess vegna bað ég um orðið aftur.

Mér finnst það mál sem snýr að leiguíbúðum og þeirri stöðu sem hundruð heimila eru í í dag skipta svo miklu máli að ekki sé hægt að hætta henni eins og ráðherrann gerði.

Hæstv. ráðherra sagði að ekki ætti að hækka vexti upp í 5--6%. Ráðherrann sagði að það væri ekki meiningin. En samkvæmt fjárlagafrv. er talað um að þetta sé síðasta árið, þ.e. það ár sem nú er að líða, sem vextir eru niðurgreiddir. Og framlög til leiguíbúða miðast við að þessari niðurgreiðslu verði hætt núna á áramótum.

Ef ég man nákvæmlega rétt það sem stendur í fjárlagafrv. er talað um að 100 millj. kr. framlag sem varið var til niðurgreiðslu á þessu ári eigi að lækka í 50 milljónir og það eigi að veita byggingarstyrk eða þá að hækka húsaleigubætur fyrir þessa fjárhæð. Ráðherrann nefndi einmitt í sínu máli hér í lokin að það ætti ekki að hækka vextina upp í 5--6%, það ætti að veita byggingarstyrki.

Nú finnst mér að menn þurfi að skoða hvað þessir byggingarstyrkir mundu gefa ef það væri farið út í þá. Ráðherrann talar um að það eigi að veita lán til 500 íbúða. Ef sveitarfélögin og félagasamtök taka þau lán sem hæstv. félmrh. er að bjóða yrði byggingarstyrkur á hverja þessara íbúða um 100 þús. kr.

Herra forseti. Ég spyr hvort hann haldi að það breyti miklu fyrir sveitarfélögin eða félagasamtök hvort þau fái byggingarstyrk sem svarar þessari upphæð.

Ég held að það breyti ekki þeirri stöðu sem 300 fjölskyldur eru í hérna í Reykjavík þó þessi leið verði farin. Reyndar, herra forseti, ber að halda því til haga að á biðlistum eftir leiguíbúðum og þeirra sem þurfa lausn á leigumarkaðnum eru 2.000 manns sem bíða eftir leiguíbúðum og það er samkvæmt skýrslu félagsmálaráðherrans.

[17:00]

Hæstv. ráðherra sagði áðan að Reykjavíkurborg hefði ekki nýtt sér þau lánsloforð sem Reykjavíkurborg hefur fengið nema að hluta. Nú hef ég ekki kynnt mér það en dreg í efa að Reykjavíkurborg hafi ekki nýtt sér það sem hún mögulega getur og treystir sér til miðað við fjárhagsáætlanir sínar, miðað við það neyðarástand sem ríkir í þessum málum og út frá þeim áhyggjum sem borgarstjóri lýsti af þessum málum nú fyrir helgina.

Sveitarfélögin gera fjárhagsáætlanir og ég býst við því að hún hafi raskað verulega fjárhagsáætlunum, t.d. hjá Reykjavíkurborg, sú gífurlega hækkun sem hefur orðið á fasteignaverði á sl. tveimur árum. Það hefur hækkað svo tugum prósenta skiptir og hefur auðvitað haft áhrif á fjárhags\-áætlun sveitarfélaganna, t.d. í Reykjavík, að geta ekki byggt samsvarandi fjölda íbúða og ætlað var í upphafi. Með sama hætti hefur hækkun á fasteignaverði, sem er bein afleiðing af niðurlagningu á félagslega kerfinu, raskað verulega fjárhagsstöðu heimila.

Hækkað fasteignaverð hefur komið fram t.d. í skertum vaxtabótum fólks, í því að fólk hefur fengið skertar barnabætur og ungt fók sem er að kaupa sitt fyrsta húsnæði hefur þurft að borga upp undir milljón meira fyrir tveggja herbergja íbúð en það hefði þurft að gera fyrir tveimur eða þremur árum.

Herra forseti. Við lok þessarar umræðu vil ég segja að það þýðir ekki að skauta svona létt fram hjá þeim mikla vanda sem fjöldi heimila stendur frammi fyrir. Ráðherrann lætur að því liggja að einhver lausn sé í nánd varðandi stöðu þeirra heimila sem bíða eftir að fá lausn í húsnæðismálum sínum. Ég fullyrði að það gerist ekki, herra forseti, nema með verulega auknu ríkisframlagi núna við fjárlagaafgreiðsluna til sveitarfélaganna.

Ég endurtek, herra forseti, að það er áhyggjuefni að ofan á það að þetta fólk bíði eftir því að fá lausn á húsnæðisvanda sínum þá geti það átt von á verulegri skattahækkun vegna óbilgirni ríkisvaldsins í að leysa þann vanda sem sveitarfélögin eru komin í vegna fjárhagslegra samskipta ríkis og sveitarfélaga.

Þessi ríkisstjórn hefur staðið að því á sinni tíð að skattleysismörkin hafa verið skert svo verulega að t.d. lífeyrisþegar, sem hafa lítið meira sér til framfærslu en lífeyri almannatrygginga, eru allt í einu farnir að borga skatta. Lífeyrisþegar kvarta auðvitað sáran yfir því að tekjur þeirra, sem eru langt frá því að duga fyrir framfærslunni, séu skattlagðar, að nú sé svo komið af hálfu ríkisvaldsins að það sjái ekki aðra að höggva í en lífeyrisþega og láglaunafólk. Þetta fólk er allt í einu farið að greiða skatta. Það munar töluvert um þær fjárhæðir þó ekki séu nema kannski 5 eða 6 þús. kr. sem það greiðir í skatta. Þeim sem greiða skatta hefur fjölgað verulega frá því var fyrir nokkrum árum.

Ég nefni þetta, herra forseti, vegna þess að þetta hittir fyrir það fólk sem býr nú við neyðarástand í húsnæðismálum eins og ég hef lýst. Mér finnst ráðherrann taka því allléttilega hér í ræðustól, svo ekki sé meira sagt.

Ég spyr ráðherrann því hér í lokin: Má búast við því að ... (Gripið fram í.) Það er til nokkuð sem heitir andsvar og ég býst við að ráðherrann megi tala í andsvari. Forseti kinkar kolli.

Ég spyr hæstv. ráðherra: Má búast við því að hæstv. ráðherra beiti sér fyrir auknu ríkisframlagi við fjárlagagerðina nú þannig að hægt sé að koma til móts við sveitarfélögin þannig að þau geti byggt fleiri leiguíbúðir?

Ég spyr, af því að ráðherrann neitar því að það sé verið að hækka vexti í 5--6%: Er ekki rétt skilið hjá mér að fjárlögin geri ráð fyrir að hækka vexti upp í markaðsvexti, eða skil ég það ekki rétt?

Ég veit ekki betur en við höfum rætt um það, m.a. þegar félagslega húsnæðiskerfið var lagt niður, að til stæði um nk. áramót að hætta niðurgreiðslu á vöxtunum. Það hlýtur að þýða verulega hækkun á vöxtum sem leiðir auðvitað til hærri húsaleigu, færri félagslegra íbúða, meiri útgjalda hjá sveitarfélögunum, ef þau ætla að halda í horfinu og byggja það sem þarf af leiguíbúðum, eða þá aukins kostnaðar vegna húsaleigubóta. Allt þetta þýðir aukningu á útgjöldum sveitarfélaganna, ef ekki á að koma til móts við þær fjölskyldur sem búa við neyðarástand í húsnæðismálum.

Ég spyr, herra forseti: Hefur hæstv. ráðherra kynnt sér ástandið hjá þeim sem búa við þetta neyðarástand? Það hefur komið fram hjá fleirum en borgarstjóra. Það hefur komið fram í fjölmiðlum að hundruð fjölskyldna, ekki síst hér á höfuðborgarsvæðinu, búa við neyðarástand.

Hefur hæstv. ráðherra gert sér það ómak að kynna sér stöðu þeirra fjölskyldna sem búa við þetta ástand? Hefur hæstv. ráðherra virkilega engar aðrar lausnir fram að færa en hann tjáði sig um hér fyrir augnabliki síðan?