Vatnsveitur sveitarfélaga

Mánudaginn 13. nóvember 2000, kl. 17:19:09 (1639)

2000-11-13 17:19:09# 126. lþ. 23.3 fundur 200. mál: #A vatnsveitur sveitarfélaga# (vatnsgjald) frv., JÁ
[prenta uppsett í dálka] 23. fundur, 126. lþ.

[17:19]

Jóhann Ársælsson:

Hæstv. forseti. Eins og málið liggur fyrir er það staðfesting á því að sveitarfélögunum sé ætlað að hækka gjöld sín á móti þeim lækkunum sem hafa verið gerðar mögulegar með breytingum á skattinum á húsnæði. Þetta mun leiða það af sér að sveitarfélögin munu nýta sér þá möguleika til hækkunar og eiga ekki annars kost. Síðan mun í framtíðinni koma í ljós hvort ríkið haldi áfram að greiða eitthvert sérstakt framlag til sveitarfélaganna úti á landi vegna lægri fasteignagjalda því að þau geta svo sannarlega ekki neitað sér um þær tekjur sem þarf til að þjónusta íbúðarhúsnæði þeirra sem búa á svæðinu þó að íbúðarhúsnæði sé kannski í lægra verði en á höfuðborgarsvæðinu. Þetta er því staðfesting á því að þannig mun þetta fara.

Hins vegar langar mig til að spyrja hæstv. félmrh. hvort vatnsveiturnar eins og aðrar veitur séu ekki að neinu leyti inni í umræðunni um breytingar á orkudreifingu eða veiturekstri sem virðist núna stefna hraðbyri inn í einhvers konar allt annað umhverfi en hefur verið á undanförnum árum. Það er nefnilega þannig að vatnsveitur eru víða reknar í samhengi og saman með öðrum veiturekstri sveitarfélaganna. Í sjálfu sér er ekki svo mikill eðlismunur á því að útvega íbúunum vatn hvort sem það er kalt eða heitt, svo ég nefni dæmi, eða rafmagn. Veiturekstur sem slíkur gæti hugsanlega og ekki bara hugsanlega, hann hlýtur að verða tekinn til umræðu í tengslum við þá umræðu sem er í gangi, þó hún hafi ekki komið upp á yfirborðið, um það hvernig orkudreifing og veiturekstur verður í framtíðinni á þessu landi.

Mér finnst það orðið mjög tímabært að stjórnvöld fari að sýna á spilin hjá sér hvað þessi stóru mál varðar og í umræðunni sem var í dag utan dagskrár um stöðu sveitarfélaganna á Vestfjörðum nefndi ég þetta einfaldlega vegna þess að ömurlegt er að horfa fram á þá framtíð að einungis mjög lítill hluti af sveitarfélögunum í landinu muni eiga stærstan hluta í þeim fyrirtækjum sem verða rekin á þessu sviði í framtíðinni, eins og núna stefnir, en önnur sveitarfélög ekki neitt, verði eignalaus í þeirri framtíð sem þarna er verið að kokka á bak við tjöldin. Full ástæða er til að ná þeirri umræðu inn á Alþingi hvað menn ætla sér í þessum efnum því að yfirlýsingarnar um að það eigi að koma á breytingum af þessu tagi, þ.e. samkeppnisumhverfi í orkudreifingu, orkuöflun og dreifingu í þessu landi, hafa svo sem legið fyrir en ekkert hvernig menn ætli síðan að láta þetta taka gildi í upphafi og hvernig eignum sveitarfélaganna muni þá vera fyrir komið þar sem það liggur fyrir að Reykjavík á 45% í Landsvirkjun en Akureyri 5%, önnur sveitarfélög eiga ekki umtalsverðar eignir í þessum orkugeira. Þau sveitarfélög sem ég nefndi hafa nánast engar eignir lagt inn í Landsvirkjun en munu fara út með gífurleg verðmæti. Þarna þarf að rétta hlutina af áður en til þessarar uppstokkunar kemur og um þetta vantar alla umræðu.

Ég spyr hæstv. ráðherra: Eru veitur, vatnsveitur og aðrar veitur ekkert uppi á þeim borðum þar sem fjallað er um þessi mál?