Tekjuskattur og eignarskattur

Mánudaginn 13. nóvember 2000, kl. 17:51:14 (1645)

2000-11-13 17:51:14# 126. lþ. 23.5 fundur 196. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (skatthlutfall) frv., MF
[prenta uppsett í dálka] 23. fundur, 126. lþ.

[17:51]

Margrét Frímannsdóttir:

Virðulegi forseti. Hér hefur átt sér stað allfróðleg umræða um niðurstöðu nefndar um tekjustofna ríkis og sveitarfélaga og skiptingu þar á milli, fyrst umræðan sem hæstv. félmrh. var með hér fyrir helgi og að hluta til í dag og síðan framsaga hæstv. félmrh. áðan um tekju- og eignarskatt og þá niðurstöðu sem fékkst hjá nefndinni, sem ég hlýt að skoða fyrst og fremst sem skilaboð frá ríkisstjórninni en ekki eindreginn vilja þeirrar nefndar sem þar átti hlut að máli, vegna þess að mér finnst ítrekað hafa komið fram að ýmsir nefndarmenn, þar á meðal fyrst og fremst sveitarstjórnarmennirnir og síðan fulltrúar sem stjórnarandstaðan átti í þessari nefnd, hafi sagt: ,,Lengra varð ekki komist. Þetta var það eina sem boðið var upp á og því verðum við að taka.``

Það er hins vegar þannig að þróun undanfarinna ára hefur gert það að verkum að fjárhagsstaða sveitarfélaga hefur verið og er mjög erfið. Margt kemur þar til, ekki bara að verkefni hafi verið flutt yfir til sveitarfélaganna sem við gjarnan viljum sjá, þ.e. að sveitarfélögin höndli meira með þá þætti sem snúa að íbúum hvers sveitarfélags og um það hefur verið samstaða í þinginu að flytja verkefni til þeirra. En það er ekki einungis um það að ræða heldur hafa mjög mörg sveitarfélög í landinu gengið í gegnum erfiðleikatímabil hvað varðar atvinnu og framgang og stöðu fyrirtækja. Þar nægir að nefna sjávarbyggðirnar allt í kringum landið og þann fólksflótta sem verið hefur frá sveitarfélögunum á landsbyggðinni til höfuðborgarsvæðisins.

Þar er ekki bara um það að ræða, virðulegi forseti, að það bitni illa á fjárhagsstöðu viðkomandi sveitarfélaga sem missa frá sér fólk. Það er einnig mjög erfitt fyrir sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu að taka við þeim mikla fjölda sem þangað hefur flutt á undanförnum árum. Það hefur því æðimargt orðið til þess að fjárhagsstaða sveitarfélaganna er nú sú sem lýst hefur verið í umræðunni í dag og fyrir helgi.

Það er einnig ljóst að góðærið svokallaða hefur ekki skilað sér að sama skapi til sveitarfélaganna hvað varðar auknar tekjur þeirra, eins og til ríkisins. Þess vegna hefur verið býsna erfitt að hlusta á helstu talsmenn hæstv. ríkisstjórnarinnar halda því fram að hér væri aðeins um það að ræða að sveitarfélögin hefðu eytt og sóað og að þau þyrftu bara að sýna meira aðhald í peningamálum til þess að laga stöðuna. Það væri ekki vegna þess að tekjustofnar þeirra væru allt of litlir. Það væri ekki vegna þess að verkefnin sem þau hafa fengið væru mörg og þung og tekjustofnar sem hafa fylgt með hefðu verið of litlir. Það væri ekki vegna þess að fólki hefði fækkað mjög í mörgum sveitarfélögum úti um landið. Það væri ekki vegna svikinna loforða ríkisvaldsins í gegnum tíðina hvað varðar uppbyggingu atvinnu á landsbyggðinni. Það væri ekki vegna þess að sveitarfélögin mörg hver hefðu ekki getað nýtt þennan tekjustofn sinn, útsvarið. Hann nýtist þeim afar illa. Útsvarið sem tekjustofn nýtist mjög misjafnlega í sveitarfélögum. Það fer eftir tekjum sem þar eru og það eru mörg láglaunasvæði í landinu. Mér hefði fundist eðlilegra að hæstv. félmrh. og hæstv. fjmrh. færu yfir þær aðstæður sem sveitarfélögin í landinu búa við í dag, en að menn settu ekki undir sig hausinn og segðu: Þetta er bara eyðsla og sóun. Þetta er það sem við gerum. Hér eru heimildir til sveitarfélaganna, náðarsamlegast, til að hækka útsvarstöku, en við ætlum ekki að lækka okkar tekjustofna á móti, vegna þess að þetta er refsiaðgerð af því þau hafa hagað sér svo illa. Þau hafa eytt svo miklu. Og þetta er beinlínis refsiaðgerð af hálfu ríkisvaldsins.

Við getum auðvitað deilt um það, og það er kannski eðlilegra að sú umræða fari fram í annan tíma, hvort útsvarið er rétt leið hvað varðar tekjustofna sveitarfélaganna, þ.e. að vera með þetta tvískipt, annars vegar tekjuskattinn og eignarskattinn, og hins vegar útsvarið sem tekjustofn sveitarfélaga. Þetta er auðvitað sýndarmennskusjálfstæði sveitarfélaga og ekkert annað, þar sem Alþingi ákveður hámarkið á álögum sveitarfélaga hverju sinni. Síðan sér ríkið um innheimtuna og alla umsýslu og skilar gjaldinu til sveitarfélaganna. Það væri eðlilegra að þetta væri bara einn gjaldstofn, við værum bara með tekjuskatt og sveitarfélögin ættu þar ákveðinn hlut af. Það væri mikil einföldun á því kerfi.

Ég átti satt að segja von á því eftir þennan langa tíma sem tekjustofnanefndin var að störfum að menn ræddu ýmsar aðrar leiðir hvað varðar tekjustofna ríkis og sveitarfélaga. Við erum með úrelta tekjustofna hjá ríkinu, svo ég nefni bara stimpilgjaldið. Við erum líka með úrelta tekjustofna og úrelt fyrirkomulag hvað varðar ríki og sveitarfélög, þessa skiptingu á tekjuskatti og svo útsvarinu. Ég hefði átt von á því að tekjustofnanefndin kæmi með tillögur til úrbóta, þó þarna væri gripið inn í sérstaklega hvað varðar næsta ár, að þá lægju a.m.k. fyrir einhverjar tillögur til að vinna úr hvað framtíðina varðar frá þessari ágætu nefnd.

Síðan er eitt, virðulegi forseti, sem ég hef undrað mig á í þessari umræðu og reyndar í ræðu sem hæstv. félmrh. hélt á ráðstefnu um fjármál sveitarfélaganna. En þar hefur hann haldið því fram að það sem út úr þessu frv. sem hér er til umræðu kemur og þeim breytingum sem ríkisstjórnin hefur lagt til á tekjustofnunum, þá hafi sveitarfélögin --- þ.e. í stað þess að allir fulltrúar sveitarfélaganna halda því fram og þar á meðal flokksbróðir hæstv. fjmrh., að þrátt fyrir þessar ráðstafanir komi sveitarfélögin til með að skorta tekjur og þá miðað við þau verkefni sem við blasa að þau hafa í dag, þó ekki sé verið að taka tillit til þeirra verkefna sem koma hugsanlega á næstu árum. En hæstv. félmrh. og reyndar hæstv. forsrh. hefa ítrekað haldið því fram að þarna sé bara nokkuð vel í lagt. Mig minnir að hæstv. félmrh. hafi orðað það þannig, en það kom fram í útvarpsviðtali við hæstv. félmrh. fyrir stuttu síðan, að eftir þessar ráðstafanir þá vanti sveitarfélögin ekki 7 milljarða króna eins og fulltrúar þeirra í tekjustofnanefnd hafa haldið fram --- þar viðurkennir hann þó að fulltrúar sveitarfélaganna í þessari tekjustofnanefnd hafi ekki verið fullkomlega hressir með þetta --- heldur eigi þau þvert á móti völ á því að nýta sér 6--7 milljarða króna eftir aðgerðir ríkisins til að rétta hlut sveitarsjóðanna.

Auðvitað munu þau nýta þessar fjárhæðir og auðvitað er það þannig að flest sveitarfélögin munu nýta þessa heimild í botn. Af hverju munu þau gera það? Vegna þess að það er vöntun á tekjum til að sinna lögbundnu hlutverki. Ef hæstv. ráðherrar og ég tala nú ekki um hv. þingmenn, stuðningsmenn ríkisstjórnarinnar, hafa ekki tekið eftir því, þá er staðan þannig í dag að nær öll sveitarfélög nýta hámarkið hvað útsvarið varðar, þ.e. hámarkið er 12,04%, eða hefur verið, en meðaltal allra sveitarfélaga í landinu er 11,96%. Það segir sína sögu. Sveitarfélögin nýta hámarkið og verða að gera það. En það dugar ekki til miðað við þá fjárvöntun sem blasir við hjá þeim.

[18:00]

Ég kom inn á það áðan, virðulegi forseti, að útsvarið er mjög misgjöfull skattstofn fyrir sveitarfélög. Ef við horfum t.d. á árið 1999 þá var útsvarið frá um 100 þús. kr. á gjaldanda upp í um 270 þús. kr. Meðaltalið var um 193 þús. kr. Um helmingur sveitarfélaga hafði minna en 155 þús. kr. í útsvarstekjur á gjaldanda, um helmingur meira. Hækkun útsvarshlutfallsins kemur sér mjög misjafnlega fyrir sveitarfélögin og ef miðað er við 1% hækkun á útsvari gefur það á bilinu frá 8 þús. kr. upp í u.þ.b. 22 þús. kr. tekjuhækkun á gjaldanda. Ástæðan er auðvitað mismunandi tekjur á mann í hverju sveitarfélagi.

Þetta er þannig að sveitarfélögin munu þrátt fyrir þessa leiðréttingu búa áfram við mismunun og þau munu áfram búa við ákveðna erfiðleika hvað varðar afkomu sína og möguleika til að skila þeirri þjónustu sem þau eiga að gera lögum samkvæmt. Auðvitað verður það erfiðast hjá litlu sveitarfélögunum. Auðvitað mun þetta bitna fyrst og fremst á þeim.

Við skulum heldur ekki gleyma því að sveitarfélögin hafa þurft að fjárfesta, sveitarfélögin hafa þurft að taka lán, jafnvel til rekstrar og vextir á lánum eru í dag með því hæsta sem gerst hefur. Það bitnar ekki bara á einstaklingum og fyrirtækjum, það bitnar af fullum þunga á sveitarfélögunum líka.

Sú peningamálapólitík sem rekin er af ríkisstjórninni hefur komið mjög illa niður á sveitarfélögunum. Vaxtahækkanirnar síðustu mánuði munu bitna af fullum þunga á þeim sveitarfélögum sem eru að reyna að veita það þjónustustig að þau séu samanburðarhæf og í samkeppninni um að halda fólkinu á staðnum.

Þetta er í raun stór hluti af byggðastefnunni. Byggðastefna ríkisstjórnarinnar felst í þessu frv. eins og það er raunverulega. Það er að koma ekki til móts við fólkið í landinu með því að lækka tekjuskattinn í sama hlutfalli og útsvarshækkunin er. Þetta þýðir hreina og klára skattahækkun, skattahækkun sem sveitarfélögin eru látin framkvæma. Hvers vegna? Vegna þess að skattahækkun er hagstjórnartæki og ríkisstjórnin hefur ekki haft kjark til að beita því hagstjórnartæki á umliðnum tveimur árum. Það á að velta ábyrgðinni yfir á sveitarfélögin vegna þess að ég býst við að hæstv. fjmrh. geri sér grein fyrir því að mikil þörf er á því að beita annars konar stýringu en eingöngu hækkun vaxta og á vissan hátt sýndarmennskutilburðum í aðhaldi í ríkisfjármálum. Við vitum öll að ríkisútgjöld hafa vaxið, þau hafa vaxið gífurlega á undanförnum árum. En tekjurnar hafa hins vegar vaxið mikið á móti og langt umfram það sem sveitarfélögin hafa notið.

Nú er ætlunin að flytja yfir til sveitarfélaganna eitt verkefnið enn, það eru málefni fatlaðra og þau munu verða þeim afar dýr miðað við þær tölur sem hafa verið birtar. Möguleikar sveitarfélaga til að mæta þessu verkefni verða áfram mjög misjafnir.

Við hefðum þurft að sjá í niðurstöðu nefndarinnar að tekið væri á þeim mismun sem er á milli sveitarfélaganna til að afla sér tekna með öðrum hætti en þær tillögur sem blasa við og niðurstöður nefndarinnar kveða á um.

En við í Samfylkingunni höfum undir forustu okkar manns í títtræddri nefnd, tekjustofnanefndinni, flutt breytingartillögu um að tekjuskatturinn verði lækkaður til móts við þá hækkun sem er á útsvarinu og að ríkið firri sig ekki þeirri ábyrgð sem þarf að taka í hagstjórninni. Sé samstaða innan ríkisstjórnarinnar um að það þurfi að hækka skatta verði það ríkisstjórnin sem standi fyrir þeirri skattahækkun en henni sé ekki velt yfir á sveitarfélögin og það mun bitna mjög illa á þeim sveitarfélögum sem síst skyldi. Það eru þau sveitarfélög á landsbyggðinni sem eru í mjög erfiðri fjárhagsstöðu og hafa verið að reyna að byggja upp hjá sér til að halda íbúunum á staðnum. Þess vegna stríðir þetta afar mikið gegn þeirri tillögu sem var samþykkt hér að frumkvæði ríkisstjórnarinnar um sérstakt átak í byggðamálum. Þetta stríðir gegn þeim orðum sem hafa verið viðhöfð af hæstv. ráðherrum, æ ofan í æ úr þessum ræðustól, virðulegi forseti.

Það er löngu orðið tímabært að endurskoða skýrar en nefndin gerði tekjustofna ríkis og sveitarfélaga og koma með úrlausnir til frambúðar, ekki að horfa á þá tekjustofna eins og við höfum þá í dag heldur að koma með aðrar tillögur og taka út þá úreltu skiptingu og þetta úrelta fyrirkomulag sem gildir hvað varðar tekjustofna sveitarfélaganna annars vegar og ríkisins hins vegar.

Því hefur verið haldið fram æ ofan í æ af fulltrúum ríkisstjórnarinnar, jafnvel hæstv. félmrh., sem ætti að þekkja stöðu sveitarfélaganna betur en flestir aðrir ráðherrar, að stjórnarandstaðan sé með þessari tillögu beinínis að hvetja sveitarfélögin til eyðslu, hvetja sveitarfélögin til að halda áfram þeirri eyðslu sem ríkisstjórnin hefur gagnrýnt sveitarfélögin fyrir að standa í.

Þetta eru orð sem eru vart svaraverð og á að vísa beint til föðurhúsanna, virðulegi forseti, vegna þess að umræðan og nefndin sem hefur nú lokið störfum er sett á laggirnar og umræðan áður en hún hóf störf sín og meðan hún var að störfum og núna eftir að hún lauk störfum, hefur öll verið um þekktan fjárhagsvanda sveitarfélaganna.

Það er alveg ljóst að mjög stórir verkefnapóstar, sem eru hjá sveitarfélögunum, munu vaxa á næstu árum. Ef við ætlum að standa okkur í samanburði við þær þjóðir sem við höfum verið að bera okkur saman við og þá ekki síður hvað varðar verkefni sveitarfélaganna en verkefni ríkisins er alveg ljóst að Ísland hefur dregist verulega aftur úr hvað varðar framlög til heilbrigðismála og félagsmála, ef við miðum við þær þjóðir sem við viljum gjarnan bera okkur saman við, það eru þær sem eru innan Evrópska efnahagssvæðisins. Stór hluti af þeim útgjaldapóstum sem eru þar eru hjá sveitarfélögunum. Ef við tökum t.d. málefni sem varða fjölskyldur og börn, við tökum málefni aldraðra, tökum málefni öryrkja, húsnæði, húsnæðiskostnað, félagslega aðstoð, heimilishjálp o.fl. þá erum við að leggja miklum mun minni peninga hlutfallslega til þeirra málaflokka en Norðurlandaþjóðirnar og miklu minni peninga en flestar aðrar þjóðir á Evrópska efnahagssvæðinu.

Það er alveg ljóst að það verður m.a. verkefni sveitarfélaganna að bæta þarna úr. Fjárþörf þeirra er alls ekki fullnægt með þeirri breytingu sem hér er gerð. Ég held að tekjustofnanefndin hefði átt að horfa á þessa stöðu í samanburði við það sem fer til þeirra málaflokka sem sveitarfélögin fjalla um hjá Norðurlöndunum og gera samanburð á því hvernig staða sveitarfélaganna er og möguleikar þeirra til að mæta auknum útgjöldum sem eru engir. Það breytist ekki, því miður, við það frv. sem hér er og niðurstöðu ríkisstjórnarinar sem tekjustofnanefndin hefur gert að sinni.