Tekjuskattur og eignarskattur

Mánudaginn 13. nóvember 2000, kl. 18:10:21 (1646)

2000-11-13 18:10:21# 126. lþ. 23.5 fundur 196. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (skatthlutfall) frv., JónK (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 23. fundur, 126. lþ.

[18:10]

Jón Kristjánsson (andsvar):

Herra forseti. Umræðan í dag er framhald af umræðunni um tekjustofna sveitarfélaga sem fór fram í vikunni sem leið. En það er eitt atriði sem kom fram hjá hv. ræðumanni sem er ekki hægt að láta ómótmælt því hún segir tillöguna stríða gegn stefnumörkun ríkisstjórnarinnar um átak í byggðamálum. Ef það stríðir gegn stefnumörkun um átak í byggðamálum að leggja 700 milljónir til jöfnunar út á landsbyggðinni, ef það stríðir gegn átaki í byggðamálum að lækka skatta á landsbyggðinni um 1.100 millj., þá veit ég nú ekki hvað snýr upp eða niður. Ég verð að láta þetta koma fram við umræðuna.