Tekjuskattur og eignarskattur

Mánudaginn 13. nóvember 2000, kl. 18:15:13 (1650)

2000-11-13 18:15:13# 126. lþ. 23.5 fundur 196. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (skatthlutfall) frv., GE
[prenta uppsett í dálka] 23. fundur, 126. lþ.

[18:15]

Gísli S. Einarsson:

Herra forseti. Hér á sér vissulega stað áhugaverð umræða. Málið sem við fjöllum um núna er eins konar bandormur í því málaflóði sem fylgir með tekjustofnafrv. þar sem fram kemur að ríkið áætlar að lækka hlutdeild sína í sköttum og lækka hlutfallið úr 26,41% niður í 26,08%, eða um 0,33%.

Það er áhugavert að velta stöðunni fyrir sér. Ef maður lítur á heildartekjur sveitarfélaga árið 1997 þá voru þær 29,4 milljarðar, hækkuðu upp í 37,4 milljarða 1998, 1999 í 42,7 milljarða og árið 2000 voru þær 48,5 milljarðar.

En hvað gerist á sama tíma hjá ríkinu? Það eigum að horfa á, nákvæmlega það og velta því fyrir okkur hvað hefur gerst hjá sveitarfélögunum. Við skulum hafa það í huga að árið 1995 voru tekjur sveitarfélaganna skertar um tæpa tvo milljarða, 1996 um 2,4 milljarða, 1997 um 3 milljarða. Þetta eru sannarlega skertar tekjur og þetta kemur fram, herra forseti, í skýrslu um fjármálaleg samskipti ríkis og sveitarfélaga á árunum 1990--1997. Nákvæmlega svona hefur þetta gerst, þetta eru opinberar tölur og þetta skiptir miklu máli. En almennar tekjur ríkissjóð t.d. árið 1997, hverjar voru þær? 144 milljarðar.

Milli áranna 1997 og 1998 aukast tekjurnar hvorki meira né minna en um 46,8 milljarða kr. Frá 1998--1999 aukast tekjurnar enn um 41,8 milljarða. Á sama tíma eykst skerðingin hjá sveitarfélögunum. Þetta er það sem skiptir máli í umræðunni. Síðan á náðarsamlegast að leyfa sveitarfélögunum að hækka útsvar um 0,99%, um 3,8 milljarða meðan ríkið ætlar að lækka sínar tekjur um 1,2 milljarða sem þýðir beint 2,5 milljarða skattahækkun.

Hverjir eiga að framkvæma skattahækkunina, herra forseti? Sveitarfélögunum er ætlað að hækka skatta um tvo og hálfan milljarð. Hvað er verið að gera? Hagstjórnin, sem ætti auðvitað að vera hjá ríkinu, er færð til sveitarfélaganna og skattahækkun komið á þannig að hægt sé að kenna sveitarfélögunum um skattahækkanir. Ég verð að segja að ég er mjög lítt hrifinn af þessum vinnubrögðum.

Á árunum frá 1990--1997 er sannarlega, samkvæmt þeirri skýrslu sem ég var að vitna í áðan, um 14 milljarða tekjuskerðingu að ræða hjá sveitarfélögunum. Samkvæmt sömu skýrslu má reikna með að á árinu 2000 verði tekjuskerðingin um 5--5,7 milljarðar, það fer eftir því hvaða forsendur menn gefa sér.

Þetta er það sem hæstv. ríkisstjórn er að gera undir forustu hæstv. félmrh. og fjmrh. Það á náðarsamlegast að leyfa sveitarfélögunum að leggja á viðbótarútsvar til að mæta þeim skerðingum sem ég var hér að ræða um. Afleiðingarnar eru þær sem ég reyndi að koma orðum að hér áðan, að ríkisstjórnin ætlar sveitarfélögunum að hækka skatta. Ríkisstjórnin ætlar að beita sveitarfélögunum fyrir sig á mjög lævísan hátt. Sveitarfélögin geta ekki annað en tekið við þessari prósentu því þau þurfa alla þá skatta sem heimilt er að leggja á.

Þetta er til þess að slá á þensluna. Ég vil að menn átti sig á því að ríkisstjórnin ætlar sveitarfélögunum að slá á þensluna, sveitarfélögum sem berjast í bökkum, sveitarfélögum sem neyðst hafa til að taka lán, jafnvel í dollurum, sem þau standa mjög illa undir í dag. Gengisbreytingar hafa reynst þeim skelfilega illa, alla vega sveitarfélögum sem tóku lán í dollurum eins og komið hefur fram í fjölmiðlum. Ég tel að með þessari aðferð hafi fundist leið til að geta beinlínis skellt skuldinni á Reykjavíkurlistann.

Herra forseti. Ég hef ítrekað vakið athygli á því, m.a. í umræðum um fjárlög og fjáraukalög, að undir forustu ríkisstjórnar Davíðs Oddssonar, hæstv. forsrh., hafa verið sett lög um að leggja skyldur á sveitarstjórnir án þess að tekjur fylgdu með. Ég hef rakið þetta lið fyrir lið og gert grein fyrir þessum útgjöldum í 16--18 atriðum, farið nákvæmlega yfir hverja einustu kostnaðarhækkun sem orðið hefur vegna lagasetningar og samþykktar meiri hlutans hér á Alþingi. Stjórnarliðar hafa leyft sér að kalla þetta sparðatíning. Sparðatíningurinn nemur 5--6 milljörðum á þessu ári, það er sparðatíningur. En það eru miklir peningar fyrir sveitarfélögin sem hafa ekki nema þær tekjur ég gerði grein fyrir hér áðan, 48,5 milljarða á árinu 2000. Þá munar nú aldeilis um 5--6 milljarða.

Ætlunin er, eins og ég hef sagt, að leyfa sveitarfélögunum að hækka skatta vegna þeirra verkefna sem sveitarfélögin hafa orðið að taka á sig með tilheyrandi kostnaði.

Herra forseti. Ég tek þátt í þessari umræðu fyrst og fremst til að benda á að það er brýnt að fjölga tekjustofnum sveitarfélaga. Þeir tekjustofnar gætu verið t.d. í formi neysluskatta. Ég tel að auk þess beri að huga að skattlagningu fyrirtækja. Það er í raun verið að lækka skatta fyrirtækja vegna þess að einu skattarnir sem fyrirtækin greiða til sveitarfélaga eru fasteignaskattar.

Ég spyr bara: Eru þetta rétt skref? Er verið að stíga rétt skref í þessu máli? Ég tel að það ætti að endurskoða skatthlutfall olíufélaga, tryggingafélaga og slíkra og það ættu að koma þarna á móti, þar væru tekjustofnar sem hægt er að ná inn til sveitarfélaganna á sanngjarnan máta.

Ég leyfi mér bara að benda á að það er varasamt að einstakir tekjustofnar séu of stórir sem hlutfall heildartekna sveitarsjóða, eins og t.d. útsvarið. Útsvarið er varasamur tekjustofn vegna sveiflna. Stórir tekjustofnar sem skapa svo mikinn hluta sveitarsjóðanna eru viðkvæmir fyrir sveiflum í atvinnulífinu og ekki síður breyttri íbúasamsetningu. Þetta vitum við öll sem hér erum og höfum tekið þátt í umræðu um vandamál landsbyggðarinnar. Ég er sannfærður um að nauðsyn sé á sterkum jöfnunarsjóði. Hans hlutur verður að vera til staðar og jöfnunarsjóðurinn á að jafna sveiflur í tekjum sveitarfélaganna og veita tekjur vegna mismunandi þjónustuþarfa. Ég vil segja það hér að bak við jöfnun með slíkum sjóði þurfa að vera einfaldar, skilvirkar og gagnsæjar reglur svo ljóst sé hvernig þetta er unnið. Ég tel að reglurnar fyrir jöfnunarsjóði séu flóknar og ekki vel gagnsæjar.

Herra forseti. Ég ítreka að fasteignaskatturinn er eini skatturinn sem fyrirtækin greiða til sveitarfélaganna. Ég tel að sú skattbyrði fyrirtækjanna megi á engan hátt færast til einstaklinganna. Ég óttast að það sé að gerast í þeim tillögum sem fyrir liggja.

Tillögurnar sem eru lagðar hér fram af hálfu félmrh. eru á þann veg að það er ekki hægt að leggjast gegn þeim. Þær eru að sjálfsögðu skref í rétta átt en það vantar bara svo miklu meira. Frv. það sem Samfylkingin hefur lagt fram í þessu sambandi er mun skilvirkara og betra en það sem liggur fyrir af hálfu ríkisstjórnar.

Ég tel óþolandi að á sama tíma og sveitarfélögin berjast við að sinna skyldum sínum gagnvart íbúunum þá geti ríkisstjórnin gumað af slíkum afgangi sem verið hefur að undanförnu. Menn virðast meira að segja vera í vandræðum með hvað þeir eigi að gera við greiðsluafganginn. Menn eru ekki vissir um hvort þeir eigi að greiða skuldir í dag eða hvort þeir eigi að nota afganginn til að styrkja krónuna. Menn hafa viðrað þær hugmyndir nú. Það er ekki sama áætlunin með greiðsluafganginn í dag og þegar frv. var lagt fram, frv. til fjárlaga fyrir árið 2001. Það er kannski rétt að vekja athygli á því.

Ég sé ekki, herra forseti, ástæðu til að rekja nákvæmlega í tölum og prósentum skiptingu tekna ríkissjóðs frá 1997 til ársins 2000. Ég hef hins vegar staðfestar tölur fram til 1999 úr ríkisreikningi sem ég hef vitnað til hér. Ég hef hér staðfestar tölur frá sveitarfélögunum, alveg klárar tölur og allar réttar.

Hið eina í máli mínu sem efast mætti um er að skerðingin sé ekki meiri en ég greindi frá hér áðan. Það má nefnilega reikna með því að tekjuskerðingin sé meiri en ég gat um.

Herra forseti. Mitt svar við þessu öllu er einfalt. Ég tel að það eigi að losa sveitarfélögin og þar með þjóðina undan ráðleysi og aðgerðarleysi þessarar ríkisstjórnar hæstv. forsrh. Davíðs Oddssonar, með því að hún hætti hið fyrsta og fari frá völdum.