Tekjuskattur og eignarskattur

Mánudaginn 13. nóvember 2000, kl. 19:05:24 (1655)

2000-11-13 19:05:24# 126. lþ. 23.5 fundur 196. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (skatthlutfall) frv., GE (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 23. fundur, 126. lþ.

[19:05]

Gísli S. Einarsson (andsvar):

Herra forseti. Þá fæ ég mínútu til viðbótar. Ég þigg það svo sannarlega.

Ég bendi á að hlutabréfaafsláttur samkvæmt lögum frá 1984 þýðir útsvarslækkun hjá sveitarfélögunum um 233 millj. og útsvarslækkun 1998 um 258 millj. og 1999 var það einhvers staðar nálægt 300 millj. Ég spyr þá aftur: Hvert var tekjutap ríkisins vegna hlutabréfaafsláttarins? Og eins og ég spurði áðan: Hvert var tekjutap ríkisins vegna skattfrelsis lífeyrisiðgjalda? Þannig að það komist nú allt til skila.

Það er alveg augljóst að þau sveitarfélög sem hafa orðið að taka lán erlendis, ekki síst þau sem hafa tekið dollaralán, standa langtum verr en þau hefðu gert ef þau hefðu haft eðlilegar tekjur og ekki lent í þeirri skerðingu sem ég hef margrakið sem nemur u.þ.b. 14 milljörðum á árunum frá 1990 til 1997.