Tekjuskattur og eignarskattur

Mánudaginn 13. nóvember 2000, kl. 19:10:32 (1660)

2000-11-13 19:10:32# 126. lþ. 23.5 fundur 196. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (skatthlutfall) frv., fjmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 23. fundur, 126. lþ.

[19:10]

Fjármálaráðherra (Geir H. Haarde) (andsvar):

Herra forseti. Það er algjör misskilningur að ríkisstjórnin sé að leggja til skattahækkun. Hún er að gera sveitarfélögunum það heimilt og kleift að auka tekjur sínar ef þau telja sig þurfa á því að halda.

Hv. þm. sagði að hann væri algjörlega andvígur skattahækkun af þessu tagi. Því er hann þá að leggja til eða samherjar hans í öðru orðinu í hinni almennu efnahagsumræðu að hækka þurfi skatta? (Gripið fram í.) Kannski ekki hv. þm. en ýmsir samherjar hans hafa verið að halda því fram.

Það má heldur ekki gleyma því þegar verið er að fjalla um sveitarfélögin hvers góðs þau hafa notið af hinni almennu efnahagsstefnu ríkisstjórnarinnar og þeirri veltuaukningu sem hefur orðið í þjóðfélaginu. Halda menn ekki að útsvarstekjurnar hafi aukist eitthvað í takt við aukningu ríkistekna eins og hv. þm. Gísli S. Einarsson las hér upp? Ég er ansi hræddur um það.