Tekjuskattur og eignarskattur

Mánudaginn 13. nóvember 2000, kl. 19:11:38 (1661)

2000-11-13 19:11:38# 126. lþ. 23.5 fundur 196. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (skatthlutfall) frv., LB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 23. fundur, 126. lþ.

[19:11]

Lúðvík Bergvinsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Hæstv. fjmrh. viðurkenndi áðan að hallað hefur á sveitarfélögin í þeirri löggjöf sem hefur fært þeim ákveðin verkefni og því þurfi að fara út í þá hækkun sem hér er verið að leggja til að heimiluð verði.

En ég velti því fyrir mér, virðulegi forseti, í þessu samhengi hvort sá tímapunktur sem nú er sé réttur til þess að hækka skatta því að við erum að tala um í dag háa vexti, við erum að tala um að krónan hafi fallið, við erum að tala um á þessum tíma lækkandi gengi hlutabréfa og við erum að horfa upp á verðbólguþróun sem er eins og hæstv. fjmrh. þekkir. Því velti ég fyrir mér hvort skynsamlegt sé að hækka skatta á þessum tímapunkti í því ljósi að hagsveiflan er augljóslega að ganga til baka. Ég held að skynsamlegt hefði verið að reyna þetta í febrúar eða mars á þessu ári því að þá hefði hún hugsanlega getað haft áhrif á þensluna. En að koma með skattahækkunartillöguna á þessum tíma held ég að sé ekki rétt, virðulegi forseti.