Tekjuskattur og eignarskattur

Mánudaginn 13. nóvember 2000, kl. 19:14:42 (1664)

2000-11-13 19:14:42# 126. lþ. 23.5 fundur 196. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (skatthlutfall) frv., fjmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 23. fundur, 126. lþ.

[19:14]

Fjármálaráðherra (Geir H. Haarde) (andsvar):

Herra forseti. Ef öll sveitarfélögin hækka útsvarið sitt um 0,66% og ríkið leggur 0,33% upp í þá hækkun standa eftir 0,33% sem gera 1.250 millj. Á móti lækka fasteignaskattarnir í landinu um 1.100 millj. Þar eru komnar þessar 150 millj. sem ég var að tala um.

[19:15]

Á móti kemur síðan það sem ríkisstjórnin er að gera í barnabótum og fleiru þess háttar þannig að það er auðvitað ekkert hægt að tala um skattahækkun.

Jafnvel þó að einhver sveitarfélög muni síðar meir notfæra sér 0,33% sem verða til ráðstöfunar að ári liðnu, þá er það bara eðlilegur þáttur í starfi kjörinna fulltrúa, bæði á vettvangi sveitarfélaga og á Alþingi, að taka slíkar ákvarðanir og standa og falla með þeim, taka ábyrgð á þeim hvort sem þeir eru að hækka eða lækka sína tekjustofna. Mér finnst það eðlilegur hlutur og ég hefði haldið að það væri almenn skoðun hér í þessum sal.