Tekjuskattur og eignarskattur

Mánudaginn 13. nóvember 2000, kl. 19:20:05 (1669)

2000-11-13 19:20:05# 126. lþ. 23.5 fundur 196. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (skatthlutfall) frv., KLM
[prenta uppsett í dálka] 23. fundur, 126. lþ.

[19:20]

Kristján L. Möller:

Herra forseti. Ég hafði ekki hugsað mér að blanda mér inn í þessa umræðu nú. Við höfðum rætt þetta undir þeim lið sem hæstv. félmrh. fylgdi úr hlaði fyrir nokkrum dögum síðan. Lítill tími var til andsvara við hæstv. fjmrh. til að koma inn á nokkur atriði sem komu fram í ræðu hans.

Fyrst er það sem hæstv. fjmrh. gat um áðan, að ýmsar breytingar sem gerðar væru á hinu háa Alþingi og skertu útsvarstekjur hafi ekki verið til þess jafnframt að auka tekjur ríkissjóðs. Það er kannski alveg hárrétt. Við getum tekið sem dæmi að það er talið að skattfrelsi lífeyrisiðgjalda hafi skert tekjur sveitarfélaga um hvorki meira né minna en 1.846 millj. kr. þrjú ár, 1995--1997, og áætlað að það hafi verið 972 millj. kr. 1998 og 1.229 millj. kr. 1999. Ef við tökum bara árið 1995 þá hafði, eins og fram hefur komið, skattfrelsi þessara lífeyrisiðgjalda ekki aðeins í för með sér skerðingu útsvarstekna heldur líka skerðingu á tekjuskatti ríkisins.

Það var mat ríkisins árið 1995 að þessi ákvörðun mundi kosta ríkissjóð í kringum 1.600 millj. kr. þegar ákvæðið væri komið að fullu til framkvæmda. En þá er spurningin: Fékk ríkissjóður ekki neitt vegna þessara breytinga eins og sveitarfélögin? Nei, það er nefnilega ekki svoleiðis vegna þess að ríkið bætti sér upp þetta tekjutap í tengslum við skattfrelsi lífeyrisiðgjalda með aukinni skattheimtu á því ári, árið 1995. Í fyrsta lagi hækkaði það tryggingagjaldsprósentuna um 0,5 prósentustig, sem var áætlað að skila ríkissjóði um einum milljarði í viðbótartekjur. Í öðru lagi var persónuafslætti og öðrum bótagreiðslum haldið óbreyttum milli áranna 1995 og 1996 og sú ráðstöfun var talin auka tekjur ríkissjóðs um 800 milljónir. Ríkissjóður varð því af tekjum upp á 1,6 milljarða eftir reiknikúnstum, væntanlega frá fjmrn., en bætti sér þessar tekjur með þessum atriðum sem ég nefndi hér áðan upp á 1,8 milljarða. Þetta er því alls ekki eins og kom fram í ræðu hæstv. fjmrh., að það gilti það sama með ríkissjóð og sveitarfélögin varðandi þær breytingar og ákvarðanir sem gerðar væru á hinu háa Alþingi, þ.e. að þær skertu bæði tekjur vegna útsvars og tekjuskatts. Þetta sýnir svart á hvítu að ekki er saman að jafna.

Herra forseti. Ég vildi í örstuttu máli nefna það sem hér hefur verið marglofað, þ.e. að breyta eigi álagningarstofni fasteignagjalda á landsbyggðinni. Það er rétt sem hér kemur fram að það eigi að gera og því ber að fagna. En það er í raun og veru ekki hægt að fagna þessu nema í eitt ár og það er næsta ár. Íbúar landsbyggðarinnar munu árið 2002, allflestir vil ég fullvirða, þurfa að horfa upp á að útsvarsstofninn verði hækkaður. Hin litlu sveitarfélög berjast í bökkum um allt land og þurfa jafnvel að leggja í mikil útgjöld til þess að freista þess að halda í íbúana þannig að þeir flytji ekki hingað suður og framhald verði á þeim þjóðarvanda sem hefur verið við lýði og við þurfum ekki að fjölyrða um hér. Allir eru sammála um hvað þar er á ferðinni. Heldur hæstv. fjmrh. virkilega að sveitarfélögin úti á landi geti sleppt því að hækka útsvarsstofninn? Ég er sannfærður um að það verður ekki. Þau geta ekki sleppt því. Íbúar þessara sveitarfélaga sem eiga að fá þessa réttlátu lækkun fasteignagjalda, fá hækkað útsvar árið á eftir.

Þess ber svo að geta líka vegna þeirrar umræðu að ríkissjóður hafi orðið af tekjum alveg eins og sveitarfélögin vegna ýmissa breytinga á hinu háa Alþingi, að það er talið að þetta vitlausa kerfi sem hefur verið við líði varðandi álganingarstofn fasteignagjalda á landsbyggðinni hafi gefið ríkissjóði ansi miklar viðbótartekjur vegna hækkana á ýmsum eignarsköttum, stimpilgjöldum og öðru slíku sem tengt er fasteignamati í hvert sinni. Ég hafði gögn um þetta við fjárlagaumræðuna á liðnu ári. Fram kom að fasteignamatið mundi hækka um 18% á höfuðborgarsvæðinu, sem svo gekk reyndar yfir allt landið. Og þegar verið var að reikna upp á nýtt varðandi fjárlög þessa árs þá duttu allt í einu inn bara 300--400 millj. sem mátti beint rekja til þessa hækkaða fasteignamats á höfuðborgarsvæðinu sem gekk svo yfir allt landið.

Þetta vildi ég láta koma fram, herra forseti, og andmæla því sem kom fram í ræðu hæstv. fjmrh. áðan, að ríkið verði af tekjum jafnt og sveitarfélögin þegar ýmsar breytingar eru gerðar og kvaðir eru settar á sveitarfélögin á hinu háa Alþingi. Ég tel mig hafa sýnt fram á það hér með tveimur dæmum að ríkissjóður hefur í krafti meiri hluta síns á Alþingi, þ.e. að ríkisstjórnarflokkarnir hafa gengið þá göngu að ná sér í auknar tekjur á móti því tekjutapi sem þeir hafa orðið fyrir, t.d. eins og með skattfrelsi lífeyrisiðgjalda.