Ríkisábyrgðir

Mánudaginn 13. nóvember 2000, kl. 19:40:25 (1676)

2000-11-13 19:40:25# 126. lþ. 23.6 fundur 165. mál: #A ríkisábyrgðir# (EES-reglur) frv., RG
[prenta uppsett í dálka] 23. fundur, 126. lþ.

[19:40]

Rannveig Guðmundsdóttir:

Herra forseti. Það kemur fram í grg. að Lánasýsla ríkisins höfðaði dómsmál á síðasta ári til innheimtu ríkisábyrgðargjalds og þannig er það til komið að EFTA-dómstóllinn var beðinn um ráðgefandi álit. Það er ljóst að Lánasýsla ríkisins sækir ríkisábyrgðargjaldið, það er alla vega ekki svo lágt að það skipti ekki máli. Ráðuneytið hlýtur því að skoða hvaða umfang er á þessum breytingum. Hér er gjaldið á höfuðstól innlendra skuldbindinga hækkað og þrátt fyrir að dregið hafi úr ríkisábyrgð á lánum finnst mér afskaplega einkennilegt að heyra að þessi breyting hafi verið áætluð og þetta frv. flutt án þess að skoða umfang lánanna eða hvort þetta sé mikið mál fyrir einstaka lántakendur eða einhvern íslenskan hóp.

Ég vil líka spyrja ráðherrann að því hvað menn eigi við með almennu gjaldprósentunni. Heitir það almenn gjaldprósenta af því að hún var sett á einhvern tíma af efh.- og viðskn.? Þá var almenna gjaldprósentan væntanlega 0,0375% á gjaldskyldar innlendar skuldbindingar líka eða hvað?