Tekjuskattur og eignarskattur

Þriðjudaginn 14. nóvember 2000, kl. 13:34:30 (1686)

2000-11-14 13:34:30# 126. lþ. 24.4 fundur 196. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (skatthlutfall) frv., GÁS (um atkvæðagreiðslu)
[prenta uppsett í dálka] 24. fundur, 126. lþ.

[13:34]

Guðmundur Árni Stefánsson (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Ég óska eftir að fá að segja nokkur orð um atkvæðagreiðsluna sem slíka og vekja á því athygli að fyrirliggjandi er í þingskjali breytingartillaga við það frv. sem hér liggur fyrir. Frv. fjallar eins og kunnugt er um mildandi áhrif með lækkun tekjuskatts sem mótvægisaðgerð gegn hækkun útsvars. Þingflokkur Samfylkingarinnar hefur lagt til að þrefalda þessa lækkun tekjuskatts á næstu tveimur árum og mín ósk er mjög eindregin sú að efh.- og viðskn. sem væntanlega mun taka þetta frv. til meðhöndlunar og senda til umsagnar vítt og breitt um landið til sveitarstjórna og fleiri hagsmunaaðila, hafi breytingartillöguna einnig til umfjöllunar í starfi sínu og sendi hana samhliða meginfrumvarpinu til umsagnar til hagsmunaaðila þannig að öllum málefnarökum sé til haga haldið í nefndarvinnu milli 1. og 2. umr. Ég vænti þess og geng út frá því að þessari ósk verði sinnt með heilindum og fullum þunga.