Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

Þriðjudaginn 14. nóvember 2000, kl. 13:36:56 (1687)

2000-11-14 13:36:56# 126. lþ. 24.7 fundur 110#B skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál# (munnl. skýrsla), utanrrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 24. fundur, 126. lþ.

[13:36]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson):

Herra forseti. Stöðugleiki og samstaða um grundvallar\-atriði utanríkismála einkennir íslenskt samfélag. Mikil eining ríkir um þátttöku okkar í norrænu samstarfi, varnarsamstarfinu innan NATO og við Bandaríkin, Sameinuðu þjóðunum, ásamt fjölmörgum stofnunum á sviði málefna Evrópu og annarra alþjóðamála. Aukin alþjóðavæðing, vaxandi þáttur alþjóðlegra viðskipta og annarra samskipta í framförum og velferð þjóða kalla á nýjar áherslur. Aðstoð við útrás íslenskra fyrirtækja, þróunaraðstoð og friðargæslustörf eru þrjú lýsandi dæmi um ný verkefni sem krefjast tíma og mannafla. Viðskiptaþjónusta utanríkisráðuneytisins hefur verið efld til að sinna auknu markaðsstarfi og styðja við bakið á íslensku atvinnulífi sem sækir nú fram á alþjóðlegum mörkuðum með meiri krafti og fjölbreytni en nokkru sinni fyrr.

Með auknu framlagi íslenska ríkisins til friðaraðgerða á alþjóðlegum vettvangi áréttum við vilja okkar til virkrar þátttöku í aðgerðum Sameinuðu þjóðanna, NATO, ÖSE og ESB til að varðveita frið og stöðugleika og koma í veg fyrir hernaðarleg átök. Hið sama má segja um aukið framlag Íslands til þróunarsamvinnu, en með því viljum við leggja okkar af mörkum til að berjast gegn fátækt og misrétti í heiminum. Framlög okkar á þessum sviðum eru skerfur til að byggja upp betri framtíð alls mannkyns.

Að kalda stríðinu loknu hafa björtustu vonir manna um útrýmingu ófriðar og átaka því miður ekki ræst. Þarf ekki annað en að vísa til ástandsins á Balkanskaga og í löndunum fyrir botni Miðjarðarhafsins í því sambandi. Auk þátttöku í varnar- og öryggismálastarfi krefjast breyttir tímar viðbragða við ýmsum nýjum hættum sem við þurfum að gefa meiri gaum, t.d. útbreiðslu gereyðingarvopna, skipulagðri glæpastarfsemi, hryðjuverkahópum, kúgun minni hluta og þjóðerniserjum, svo fátt eitt sé talið. Hermálaútgjöld þjóða heims eru enn gríðarleg. Þau voru samtals um 809 milljarðar dala í fyrra, samkvæmt upplýsingum frá Alþjóðaherfræðistofnuninni í London. Í ræðu minni á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna nú í haust lagði ég áherslu á að þjóðir heims kappkosti í framtíðinni að öryggi þeirra verði tryggt með sem allra minnstum vopnabúnaði. Víst er að þetta mikla fé mætti nýta til uppbyggingar í heiminum og neyðin blasir víða við eins og hvarvetna má sjá.

Sendiráð verða stofnuð á næsta ári í Tókíó, Ottawa og Vínarborg til að takast á við ný verkefni. Í síðastnefndu borginni er þegar starfandi fastanefnd gagnvart ÖSE og stofnunum Sameinuðu þjóðanna þar. Ráðgert er að hún verði jafnframt sendiráð í Austurríki og fleiri ríkjum þegar tímar líða. Sendiráðinu í Tókíó er ætlað að styrkja tengslin við Japan á hinu pólitíska, viðskipta- og menningarlega sviði. Sendiráð í Kanada mun, auk hefðbundinnar starfsemi að pólitískum tengslum, auknum viðskiptum og menningartengslum, efla enn frekar samskiptin við Vestur-Íslendinga. Bæði Japan og Kanada hafa ákveðið að opna sendiráð hér á landi á næsta ári á gagnkvæmnisgrundvelli. Þá er á næsta ári einnig gert ráð fyrir að opna skrifstofu í Maputo í Mósambík. Opnun hennar er liður í að efla íslenskt framlag til þróunarsamvinnu sem á síðustu árum hefur fyrst og fremst beinst að suður hluta Afríku.

Á síðastliðnum áratug hóf Ísland þátttöku í alþjóðlegri friðargæslu á vegum alþjóðastofnana, einkum Atlantshafsbandalagsins og ÖSE. Þessi þátttaka hefur smám saman verið aukin og að jafnaði hefur um tugur Íslendinga verið við friðargæslustörf á þessu ári í Bosníu og Kosovo. Frá árinu 1994 hafa alls 50 manns starfað að friðargæslu á vegum Íslands í Bosníu og Kosovo, einkum úr röðum lögreglumanna, lækna og hjúkrunarfræðinga.

Í því skyni að efla þátttöku Íslands í alþjóðlegri friðargæslu ákvað ríkisstjórnin í sumar að setja á fót starfshóp fjögurra ráðuneyta til að móta tillögur um það efni. Hópurinn lagði fram tillögur sínar ásamt greinargerð í októbermánuði.

Ríkisstjórnin hefur nú fjallað um tillögur hópsins. Ákveðið hefur verið að efla þátttöku Íslands í alþjóðlegri friðargæslu með það fyrir augum að Ísland geti þegar þörf krefur lagt sitt af mörkum og kostað ákveðinn fjölda einstaklinga til friðargæsluverkefna á hverjum tíma. Stefnt verður að því að á næstu tveimu til árum geti allt að 25 manns starfað við friðargæslu. Með aukinni þátttöku og reynslu af þessu starfi verði stefnt að því að fjölga friðargæsluliðum í allt að 50 manns. Til greina kemur fólk úr ýmsum starfsstéttum, þar á meðal lögreglumenn, verkfræðingar, læknar og hjúkrunarfræðingar, lögfræðingar, stjórnendur og tæknimenntað starfsfólk.

Undir heitinu Íslenska friðargæslan verður komið upp skrá eða lista yfir allt að 100 manns sem eru tilbúnir til að fara til friðargæslustarfa með stuttum fyrirvara. Íslenska friðargæslan verður undir stjórn alþjóðaskrifstofu utanríkisráðuneytisins sem mun sjá um ráðningu, undirbúning og þjálfun starfsliðs og almenna umsjón með starfseminni.

Herra forseti. Mannréttindi eru algild og það er á ábyrgð alþjóðasamfélagsins alls að tryggja virðingu fyrir þeim. Við leggjum áherslu á að tryggja beri mannréttindi um heim allan, m.a. á grundvelli mannréttindayfirlýsingar Sameinuðu þjóðanna og alþjóðlegra mannréttindasáttmála. Ísland hefur einkum lagt áherslu á réttindi kvenna og barna og hefur því t.d. verið komið á framfæri með málflutningi á vettvangi allsherjarþingsins og mannréttindaráðs Sameinuðu þjóðanna.

Ísland hefur leitast við að leggja sitt af mörkum til neyðaraðstoðar og til að leysa vanda flóttamanna, en sá vandi er mjög mikill og verður sífellt áleitnara viðfangsefni á alþjóðavettvangi. Ljóst er að vandamál flóttamanna verða ekki leyst án samvinnu allra þjóða.

Niðurfelling skulda fátækustu ríkja heims, svokallað HIPC-átak, er að líkindum metnaðarfyllsta tilraun sem fram hefur farið til að losa fátækustu ríki heims úr vítahring skulda og afborgana sem hafa sligað efnahag þeirra undanfarin ár. Gert er ráð fyrir að 30 fátækustu ríki heims fái fyrirgreiðslu, samtals um 50 milljarða dollara. Til þess að fá fyrirgreiðslu þurfa ríkisstjórnir þessara fátæku landa að uppfylla ákveðin skilyrði sem eru þau að það fólk sem býr við sárasta örbirgð njóti fyrirgreiðslunnar þegar fram líða stundir. Með öðrum orðum á að nýta það svigrúm sem skapast við niðurfellingu skuldanna hjá þessu fátæka fólki, t.d. á sviði mennta- og heilbrigðismála og atvinnuuppbyggingar. Þegar hafa tíu lönd lagt fram áætlanir um sinn þjóðarbúskap sem uppfylla skilyrðin. Gert er ráð fyrir að önnur tíu verði búin að skila slíkum áætlunum og fá þær samþykktar fyrir lok þessa árs.

Eins og áður hefur komið fram hafa umsvif Þróunarsamvinnustofnunar Íslands vaxið umtalsvert á undangengnum árum. Nýlega var undirritaður fyrir hönd stofnunarinnar samstarfssamningur við Úganda sem er nýtt samstarfsland. Stofnunin mun hafa fastan starfsmann og skrifstofu í Kampala frá og með næstu áramótum. Fyrstu verkefnin verða væntanlega á sviði fiskveiða eins og endranær. Um leið og stofnunin hefst handa í Úganda rennur samstarfssamningurinn við Grænhöfðaeyjar út. Stofnunin mun þó áfram veita Grænhöfðaeyjum styrki til einstakra verkefna.

Þróunarsamvinnustofnun Íslands starfar áfram í Mósambík, Malaví og Namibíu. Einnig hefur stofnunin stutt uppbyggingarstarfið á Austur-Tímor, en þaðan hefur m.a. borist beiðni um aðstoð við gerð fiskihafnar.

[13:45]

Nýlega gerði utanríkisráðuneytið samning við Nýsköpunarsjóð atvinnulífsins og Þróunarsamvinnustofnun Íslands um það sem við höfum kosið að kalla viðskiptaþróun. Ætlunin er að aðstoða íslensk fyrirtæki við að afla sér viðskipta í þróunarríkjum. Samstarf við Alþjóðabankann tengist þessu starfi, en bankinn hefur látið í ljós áhuga á að eiga samstarf við fyrirtæki hér á landi til uppbyggingar atvinnulífs í þróunarríkjum. Íslensk fyrirtæki eiga mikið erindi til þróunarlanda, ekki einvörðungu í sjávarútvegi heldur í mörgum öðrum greinum. Það býr mikill kraftur og þekkingarauður í íslensku atvinnulífi og honum eigum við að deila með fátækum þjóðum, öllum til hagsbóta.

Sem formennskuríki í EFTA hefur Ísland það hlutverk að vera málsvari EFTA/EES-ríkjanna í samskiptum við ESB, ekki síst við rekstur EES-samningsins. Þetta missiri hefur framkvæmdastjórn ESB hert nokkuð málflutning sinn og minnt á það að þegar EFTA-ríkin skorast undan því að taka samþykktir Evrópusambandsins inn í samninginn getur það leitt til þess að hluti EES-samningsins falli úr gildi. Einkum hefur þessi málflutningur sprottið af því hversu mjög hefur dregist að taka inn í samninginn tilskipun um viðskipti með gas, nokkrar gerðir sem varða aukefni í matvælum og veitingu einkaleyfa í líftækni.

Þó að EES-samningurinn sé traustur grunnur og þess hafi ekki orðið vart að Evrópusambandið víki sér beinlínis undan samningsskuldbindingum þá telja EFTA-ríkin að samninginn megi nota á markvissari hátt til að tryggja samræmi á svæðinu og koma sjónarmiðum EFTA/EES-ríkjanna betur á framfæri. Hefur verið unnið að því að tryggja dreifingu sjónarmiða og álitsgerða EFTA-ríkja innan stjórnkerfis ESB. Starfsmönnum ESB hefur verið boðið á kynningarnámskeið um EES-samninginn og verið er að fara yfir hvernig efla megi óformleg tengsl og upplýsingaskipti við Evrópuþingið. Samkvæmt nýlegum könnunum rata 82% þeirra breytinga sem Evrópuþingið leggur til inn í endanlegan texta ESB-samþykkta svo það er til mikils að vinna að fylgjast betur með því ferli.

Ríkjaráðstefnunni sem nú stendur yfir er ætlað að laga stofnanir ESB að auknum fjölda aðildarríkja og er þá miðað við þau 12--13 ríki sem nú hafa tekið sér stöðu við dyr ESB. Þeim málaflokkum þar sem niðurstaða fæst aðeins með einróma samþykki verður fækkað á yfirstandandi ríkjaráðstefnu þó að enn séu ekki líkur á því að verulegar breytingar verði t.d. í skatta- og félagsmálum. Væntanlega verður gengið frá einhverri uppstokkun atkvæðavægis sem styrkir stærri ríkin í sessi. Enn fremur verður tekið á því hversu stór framkvæmdastjórnin skuli vera og hver verði verkaskipting innan hennar. Reglur um það hvernig ákveðinn fjöldi aðildarríkja getur efnt til frekara samstarfs sín á milli án þess að öll aðildarríkin séu með verða settar og rætt verður hvernig hægt sé að fara með möguleg mannréttindabrot aðildarríkja, þ.e. hvernig stofnanakerfi ESB geti tekið slík mál til umfjöllunar. Vegna mikilvægis framkvæmdastjórnarinnar sem samstarfsaðila í EES-kerfinu er það í þágu EFTA/EES-ríkja að framkvæmdastjórnin haldi sterkri stöðu. Fróðlegt verður enn fremur að sjá hvort kostur verði gefinn á því í framtíðinni að EFTA/EES-ríki komi að efldu samstarfi tiltekinna aðildarríkja, á svipaðan hátt og Ísland og Noregur taka nú þátt í Schengen-samstarfi á fleiri sviðum en Bretland og Írland.

Þó að sífellt fjölgi þeim efnissviðum sem teljast afgreidd í viðræðum ESB og umsóknarríkja heyrist æ oftar að viljann skorti enn til þes að höggva á hnúta í erfiðustu málunum, til að mynda í landbúnaði, frjálsri för fólks, dóms- og innanríkismálum og umhverfismálum. Það verði ekki fyrr en hægt verði að tímasetja hvenær umsóknarríkin verða aðildarríki. Takist að ná niðurstöðu á ríkjaráðstefnunni í Nice er líklegt að aukinn kraftur færist í aðildarviðræður undir forustu Svía á fyrri helmingi næsta árs. Það er brýnt að efla aðkomu EFTA/EES-ríkjanna að stækkunarferlinu nú þegar undirbúningi lýkur og raunverulegar samningaviðræður um aðlögun og aðlögunartíma hefjast. Nýjum aðildarríkjum ber skylda til að sækja um aðild að EES sem telst hluti af þeim réttindum og skyldum sem þau taka yfir við aðild. Erfitt er að ímynda sér annað en að það verði á þeim forsendum sem um hefur samist milli ESB og þeirra. Því hef ég lagt á það þunga áherslu í viðræðum mínum við Evrópusambandið, t.d. á fundum með framkvæmdastjóranum, Verheugen, sem er ábyrgur fyrir stækkunarviðræðum af hálfu framkvæmdastjórnar, að EFTA/EES-ríkin geti fylgst sem best með þessum viðræðum og fái tækifæri til að koma tímanlega á framfæri athugasemdum og tillögum.

Áfram verður kappkostað að fylgjast sem best með þróun Evrópusambandsins og áhrifum þeirra breytinga á stöðu Íslands. ESB tekur sífelldum breytingum sem krefjast árvekni og stöðugrar vinnu til að tryggja hagsmuni Íslands. Utanríkisráðuneytið mun áfram leitast við að veita sem bestar upplýsingar um það starf þannig að það geti skapað góðan grundvöll fyrir lifandi umræðu um stöðu Íslands í Evrópu.

Ríki Fríverslunarsamtaka Evrópu (EFTA) hafa í samstarfi gert fríverslunarsamninga við 15 ríki. Til dæmis má nefna að viðræðum við Mexíkó, undir forustu Íslands, um fríverslunarsamning er nýlokið á farsælan hátt. Verður hann undirritaður síðar í þessum mánuði. Að auki standa nú yfir viðræður við Kanada, Jórdaníu, Kýpur, Króatíu, Egyptaland og Túnis. Fríverslunarviðræður EFTA og Chile hefjast í desember á þessu ári. Í farvatninu er einnig að hefja viðræður við Suður-Afríku og fleiri ríki.

Eitt af grundvallarsjónarmiðum EFTA er að ekki verði gerður fríverslunarsamningur nema hann gildi fyrir sjávarafurðir jafnt sem iðnaðarvörur. EFTA-samstarfið við gerð fríverslunarsamninga er því Íslandi afar mikilvægt og tryggir markaðsaðgang fyrir íslenska framleiðslu á erlendum mörkuðum sem við hefðum ekki bolmagn til að gera einir og sér á báti.

Samskipti Atlantshafsbandalagsins og Evrópusambandsins hafa undanfarið orðið eitt helsta viðfangsefni bandalagsins. Öllum er ljóst að Evrópuríkin þurfa að leggja meira af mörkum til sameiginlegs öryggis aðildarríkjanna. Áform ESB um að skapa sér aukna hernaðargetu er öðrum þræði liður í þeirri viðleitni. Af Íslands hálfu hefur verið lýst stuðningi við aukna ábyrgð Evrópuríkja í öryggis- og varnarmálasamstarfinu, en einnig er lögð áhersla á að standa þurfi vörð um samheldni ríkja Atlantshafsbandalagsins.

Í umræðum þeim sem enn standa yfir um evrópsk öryggis- og varnarmál hefur það verið meginmarkmið okkar að tryggja að tekið yrði fyllsta tillit til stöðu landsins sem aðildarríkis að Atlantshafsbandalaginu og aukaaðildarríkis Vestur-Evrópusambandsins. Þannig höfum við farið þess á leit að ESB skýrði betur en gert hefur verið að hve miklu leyti það hyggst taka tillit til evrópsku bandalagsríkjanna sem ekki eru í ESB, ríkja sem þau sjálf buðu aukaaðild að VES á sínum tíma. Þrátt fyrir að sambandið hafi stigið skref í rétta átt á leiðtogaráðsfundinum í Feira í júní eru vonir við það bundnar að sambandið bregðist enn frekar við óskum sem fram hafa verið settar um raunverulega hlutdeild í mótun ákvarðana sambandsins um öryggis- og varnarmál í Evrópu.

Það hefur verið stefna íslenskra stjórnvalda undanfarin ár að auka hlut Íslands á sviði tvíhliða varnarsamstarfs við Bandaríkin og á sviði fjölþjóðlegs varnarsamstarfs við þau ríki sem eiga aðild að Samstarfi í þágu friðar. Auk ákvörðunar um smíði varðskips sem er búið þeim tækjakosti sem þarf til að geta tekið þátt í sameiginlegum æfingum með varnarliðinu á sviði björgunar og sjóferðaeftirlits, hafa utanríkisráðuneytið, Almannavarnir, Landhelgisgæsla og sérsveit ríkislögreglustjóra tekið þátt í æfingum svo sem Norðurvíkingi og almannavarnaæfingunni Samverði, en Almannavarnir ríkisins leiddu þá æfingu sl. sumar.

Nýlega var efnt til skoðanaskipta háttsettra embættismanna og sérfræðinga um afmarkaða þætti varnarsamstarfsins, svo sem fyrirkomulag verktöku fyrir varnarliðið og aðgang að varnarsvæðum. Hafa þessar viðræður gengið vel og umtalsverður árangur náðst, en þeim er ekki að fullu lokið.

Mikilvægi norrænnar samvinnu fyrir Ísland er óumdeilanlegt og þarf ég ekki að fara mörgum orðum um það hér á hinu háa Alþingi. Umræður í sl. viku um skýrslu um stefnu og skipan Norðurlandasamvinnunnar á nýrri öld, svokallaða framtíðarskýrslu, voru að vonum miklar og áhugaverðar, enda er margt í henni athyglisvert. Skýrslan er unnin að frumkvæði Íslands og ég er þess fullviss að hún er góður grundvöllur til að styrkja starfsemi Norðurlandaráðs og tengja það betur öðru alþjóðlegu starfi, ekki síst ESB.

Árið 1994 flutti ég ásamt meðal annarra núverandi fjármálaráðherra og forsætisráðherra Finnlands tillögu í Norðurlandaráði um norræna upplýsingaskrifstofu hjá ESB í Bruss\-el. Ekki reyndist unnt að ná samkomulagi um hana því þá þótti ekki rétt að Norðurlöndin kæmu fram gagnvart ESB sem ein heild. Nýr tónn er í framtíðarskýrslunni varðandi þetta og margir stjórnmálamenn á Norðurlöndum hafa skipt um skoðun. Það eru t.d. augljósir hagsmunir fyrir okkur Íslendinga að Norðurlöndin starfi sem nánast saman á alþjóðavettvangi, en með vaxandi starfi ESB hefur orðið breyting þar á.

Eystrasaltríkin þrjú hafa æ nánara samstarf við Norðurlöndin. Tillaga sem rædd var á þingi Norðurlandaráðs um aðild þeirra að Norðurlandaráði hlaut ekki brautargengi, enda ótímabær. Starf Norðurlandaráðs byggist á sameiginlegri sögu, tungu og menningu Norðurlanda og því breyttist grundvöllur ráðsins með afgerandi hætti ef ríkin þrjú yrðu fullgildir aðilar. Samstarf Norðurlanda við Eystrasaltslöndin mun þó eflaust enn styrkjast. Nýlega var ákveðið að kalla sameiginlega fundi ráðherra Norðurlanda og Eystrasaltríkjanna fundi hinna átta í stað fimm plús þrír fundi. Innan Norðurlandaráðs gæti einnig farið fram samstarf við Eystrasaltsríkin um ákveðin málefni á jafnræðisgrundvelli samkvæmt tillögum í framtíðarskýrslunni, en þar er lagt til að Eystrasaltsríkjunum verði boðin aðild að Norræna fjárfestingabankanum. Það er ánægjulegt að geta skýrt frá því að nú stefnir í að Öryggis- og samvinnustofnun Evrópu geti lokið starfsemi sinni í Eistlandi og Lettlandi þar sem staða mannréttindamála í löndunum er nú í samræmi við alþjóðlegar skuldbindingar.

Það er lykilatriði fyrir framtíðarvelmegun íbúa Evrópu og stöðugleika að þeim pólitísku og efnahagslegu breytingum sem átt hafa sér stað í Rússlandi undanfarinn áratug verði fram haldið þannig að endurreisn rússnesks efnahagslífs verði að veruleika og lýðræðislegir stjórnarhættir festist þar í sessi. Það er nauðsynlegt að hafa það hugfast að það er veikburða Rússland, Rússland á barmi efnahagslegs, pólitísks og hernaðarlegs hruns sem ástæða er til að hafa áhyggjur af, en ekki velmegandi Rússland með markaðshagkerfi og undir lýðræðisstjórn. Ísland styður eftir megni þær breytingar og þá stefnu sem við teljum stuðla að efnahagslegri uppbyggingu og lýðræðislegu rússnesku stjórnarfari.

Í starfi sínu innan Sameinuðu þjóðanna hefur Ísland lagt megináherslu á hafréttarmálefni og mannréttindi. Umræðan um málefni hafsins hefur aukist og er einstaklega mikilvægt að Íslendingar taki virkan þátt í henni. Við verðum að tryggja hagsmuni okkar og sjá til þess að alþjóðlegar aðgerðir á þessu sviði taki mið af raunverulegum aðstæðum.

Þrátt fyrir að margt hafi áunnist á sviði mannréttindamála á vettvangi Sameinuðu þjóðanna er enn mikið verk óunnið. Víða eru stjórnvöld treg til að vinna að framgangi mannréttinda innan sinna landamæra. Framlag Íslands til starfsemi UNIFEM í Kosovo er í samræmi við áherslu Íslands á málefni kvenna og barna.

Sem kunnugt er hafa fjögur ríki, Ísland, Danmörk fyrir hönd Færeyja, Bretland og Írland, gert tilkall til landgrunnsréttinda á Hatton-Rockall svæðinu. Aðilar þurfa að ná samkomulagi um skiptingu svæðisins sín á milli eða um að svæðið verði sameiginlegt nýtingarsvæði. Jafnframt þarf að nást niðurstaða um afmörkun ytri marka landgrunnsins með hliðsjón af tillögum landgrunnsnefndarinnar. Við höfum talið tímabært að koma aftur á viðræðum milli aðila Hatton-Rockall málsins til að endurmeta stöðu þess og áttum frumkvæði að því að koma á tvíhliða viðræðum við Breta síðastliðið vor. Viðræðurnar voru gagnlegar og verður þeim fram haldið nú í vetur. Báðum aðilum er þó ljóst að til að ná samkomulagi í málinu þurfa Írar og Danir fyrir hönd Færeyinga, einnig að koma að því.

Áhugi á málefnum hafsins fer hraðvaxandi á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna. Það er að mörgu leiti jákvæð þróun þar sem alþjóðlegt samstarf til verndar hafinu er brýnt hagsmunamál okkar Íslendinga. Á hinn bóginn hefur borið á því að einstök iðnríki vilji fjalla um fiskveiðar á allsherjarþinginu og segja þar öðrum ríkjum fyrir verkum, ekki síst fiskveiðiríkjunum. Þetta er afar varasöm þróun sem við verðum að fylgjast náið með og spyrna gegn.

Öflug fiskveiðistjórn heima fyrir og alþjóðlegt átak um afnám ríkisstyrkja í sjávarútvegi eru lykillinn að því að tryggja áframhaldandi sjálfbæra nýtingu auðlinda hafsins.

Í gær hófst í Haag í Hollandi síðasti undirbúningsfundurinn fyrir sjötta aðildarríkjaþing loftslagssamningsins sem stendur yfir alla næstu viku. Þar verða veigamiklar ákvarðanir teknar um framkvæmd Kyoto-bókunarinnar. Iðnríkin hafa lýst því yfir að fáist ekki niðurstaða varðandi viðskipti með losunarkvóta á fundinum fullgildi þau ekki bókunina. Eins og kunnugt er hefur ekkert OECD-ríkjanna staðfest bókunina en staðfesting þeirra er forsenda þess að bókunin öðlist gildi.

[14:00]

Á meðal þeirra mála sem eru á dagskrá aðildarríkjaþingsins er íslenska ákvæðið svokallaða. Ríkisstjórnin hefur lýst því yfir að Ísland fullgildi ekki Kyoto-bókunina nema ásættanleg niðurstaða náist um það mál. Sendinefnd Íslands á þinginu í Haag undir forystu umhverfisráðherra vinnur að því að sú verði raunin þannig að eðlileg nýting hreinna og endurnýjanlegra orkulinda Íslands geti áfram verið undirstaða framfara í landinu.

Næsta umhverfi okkar, Evrópa, varðar okkur mestu. Mér hefur því nú sem oftar á undangengnum missirum orðið tíðrætt um hagsmuni okkar á þeim slóðum. Það er þó einnig nauðsynlegt að líta til fleiri átta og okkur fjær.

Lungann úr öldinni hafa átök og ófriður einkennt stjórnmálaþróunina í Miðausturlöndum. Friðarferlið fyrir botni Miðjarðarhafsins sem hófst með Óslóarsamkomulaginu fyrir sjö árum virðist nú hafa siglt í strand. Friðarviðræður Ísraels og Palestínumanna hafa ratað í ógöngur sem vandséð er hvernig úr eigi að komast. Ósveigjanleg afstaða deiluaðila hefur leitt af sér óhugnanlegt ofbeldi og grimmd. Sanngirni mun ekki ríkja í þessum heimshluta fyrr en Ísraelar og Palestínumenn líta á hvorir á aðra sem jafningja og Jerúsalem verður sett undir einhvers konar alþjóðlega stjórn.

Ábyrgð Ísraels er mikil þó að við fordæmum harðlega ofbeldisaðgerðir beggja aðila. Gagnkvæmt traust er horfið og það mun taka langan tíma að byggja það upp að nýju. Fyrr er þess ekki að vænta að við getum gert okkur einhverjar vonir um varanlegan frið fyrir botni Miðjarðarhafsins.

Við skulum vera minnug þess að úr okkar eigin sögu eru dæmi um að atburðir hinum megin á hnettinum hafi haft bein áhrif á þróun utanríkis- og öryggismála. Svo var t.d. um Kóreustríðið, en þess er nú minnst að rétt hálf öld er liðin síðan það braust út og vakti alvarlegan ugg vestrænna ríkja. Þaðan kveður nú sem betur fer við annan tón góðu heilli. Það er eitt af því ánægjulegasta sem gerst hefur á alþjóðavettvangi upp á síðkastið, hvernig farið er að rofa til á Kóreuskaganum. Leiðtogafundur Suður- og Norður-Kóreu í júní markar þar tímamót. Fundir sem fylgt hafa í kjölfarið eru líklegir til að styrkja hina jákvæðu þróun.

Í nýafstaðinni opinberri ferð til Indlands var með í för viðskiptasendinefnd fulltrúa 18 íslenskra fyrirtækja. Á meðan á dvölinni stóð var efnt til viðskiptaþinga í samvinnu við þarlendar stofnanir. Ljóst er að mikill gagnkvæmur áhugi er fyrir auknum viðskiptum milli landanna. Fjöldi indverskra fyrirtækja, á þriðja hundrað, sótti þingin og átti viðræður við fulltrúa íslensku fyrirtækjanna. Nú þegar er hafið mikið samstarf, sérstaklega á sviði nýsköpunar, svo sem hugbúnaðargerðar og lyfjaframleiðslu.

Þekking á staðháttum á fjarlægum mörkuðum gerir síauknar kröfur til utanríkisþjónustunnar og íslensk fyrirtæki gera nú orðið kröfu um þátttöku hennar í útrásinni. Það er því nauðsynlegt að huga að því hvernig við getum liðsinnt atvinnulífinu í framsókn þess í þessum heimshluta í framtíðinni.

Herra forseti. Í haust hefur farið fram nokkur umræða um stofnun nýju sendiráðanna í Japan og Kanada. Sú umræða hefur svo gott sem einskorðast við þann kostnað sem fylgir kaupum á skrifstofu- og íbúðarhúsnæði. Það er að mörgu leyti skiljanlegt enda um háar fjárhæðir að ræða. Staðreyndin er hins vegar sú, og nauðsynlegt að það komi fram, að kaup á húsnæði í þessum löndum er óumdeilanlega talin hagkvæmasta leiðin og leiðir til lægri húsnæðiskostnaðar þegar til lengdar lætur en leiga. Það er eingöngu af þessum ástæðum sem þessi afstaða var tekin og hún var rædd við utanríkismálanefnd og var nefndin sammála þeirri niðurstöðu eftir því sem ég best taldi.

Dagskrá til að minnast landafunda Ameríku var viðamikil bæði í Bandaríkjunum og í Kanada. Í Bandaríkjunum voru skipulagðir um 250 atburðir víða um landið og um 200 í Kanada. Þetta er án efa mesta kynning á Íslandi og íslenskri menningu sem fram hefur farið vestan hafs. Landafundanefnd vann mjög gott starf við skipulagningu þessa mikla kynningarátaks í góðri samvinnu við utanríkisráðuneytið, sendiráð Íslands í Washington, aðalræðisskrifstofuna í Winnipeg, auk fjölmargra annarra aðila. Í þessu sambandi er rétt að nefna að afar góð samvinna tókst við marga aðila í Bandaríkjunum um þetta mikla verkefni og vil ég sérstaklega nefna samstarfið við aldamótanefnd Hvíta hússins. Einnig náðist gott samstarf við margar aðrar þýðingarmiklar stofnanir svo og ræðismenn Íslands vítt og breitt um Bandaríkin.

Af einstökum atriðum ber auðvitað hæst siglingu víkingaskipsins Íslendings til Grænlands, Kanada og Bandaríkjanna undir skipsstjórn Gunnars Marels Eggertssonar og áhafnar hans. Vil ég þakka Gunnari Marel og áhöfninni fyrir glæsilegt afrek í þágu Íslands og landafundanefnd fyrir metnaðarfulla dagskrá og glæsilegan árangur.

Nú er brýnt að setjast niður og meta á hvern hátt best verður fylgt eftir þeim góða árangri sem náðst hefur í Norður-Ameríku og nýta þann meðbyr sem Ísland nýtur þar um þessar mundir. Umboð landafundanefndar rennur út í janúar næstkomandi og huga þarf að því hvort einhvers konar framhald þjóni hagsmunum okkar. Utanríkisþjónustan mun fyrir sitt leyti fylgja þessum árangri eftir.

Þátttaka Íslands í Expo 2000 í Hannover í Þýskalandi tókst með miklum ágætum. Af þeim 18 milljónum manna sem heimsóttu sýninguna komu 4,6 milljónir í íslenska skálann sem er mun meira en bjartsýnustu spár gerðu ráð fyrir. Einungis þýski skálinn fékk fleiri gesti. Íslenski skálinn léði landi og þjóð jákvæða ímynd og bar vott frumleika, tæknikunnáttu og hugviti sem skiptir miklu máli í svo mikilvægu viðskiptalandi sem Þýskaland er.

Herra forseti. Aldrei hefur verið augljósara en nú hversu mikilvæg öflug utanríkisþjónusta er fyrir hagsmuni Íslands. Hnattvæðingin er helsti drifkraftur framfara. Á vettvangi alþjóðamála er tekist á um málefni sem skipta sköpum fyrir hagsmuni þjóðarinnar. Það er skylda okkar að sinna þeim af festu og kostgæfni og til þess þurfum við sterka utanríkisþjónustu.