Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

Þriðjudaginn 14. nóvember 2000, kl. 14:07:15 (1688)

2000-11-14 14:07:15# 126. lþ. 24.7 fundur 110#B skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál# (munnl. skýrsla), SighB
[prenta uppsett í dálka] 24. fundur, 126. lþ.

[14:07]

Sighvatur Björgvinsson:

Herra forseti. Ég vil byrja á því að þakka hæstv. utanrrh. fyrir þá munnlegu skýrslu sem hann hefur flutt Alþingi. Í skýrslunni eru að vísu engin sérstök nýmæli eða neitt sem vekur sérstaka athygli. Hins vegar er þetta gott yfirlit yfir það sem utanríkisþjónustan hefur fengist við.

Í aðfaraorðum sínum varar hæstv. utanrrh. við þeirri hættu sem útbreiðsla gereyðingarvopna nú felur í sér á sama tíma og verið er að reyna að draga úr hefðbundnum vígbúnaði.

Eins og kunnugt er hefur Bandaríkjastjórn áformað að hefja áætlun sem kennd hefur verið við geimstríð. Núverandi forseti Bandaríkjanna hefur ákveðið að fresta og skilja það eftir í höndum nýs forseta hvort þeirri áætlun verður fram haldið. Verði það gert óttast ég að það hefjist nýr kapítuli í vopnakapphlaupinu í heiminum með geigvænlegum afleiðingum. Nú er rétti tíminn til þess að ríki sem er í vináttusamstarfi við Bandaríkin láti í sér heyra um þessar áætlanir og vari við því að þráðurinn sé upp tekinn af nýjum forseta þar sem honum var sleppt. Ég saknaði þess í ræðu hæstv. utanrrh. að hann léti fram koma afstöðu ríkisstjórnarinnar til þessa máls og spyrst fyrir um það hjá hæstv. ráðherra, og vísa þá til orða hans í inngangserindi, hvort hann sé ekki sama sinnis og ég í því að þarna sé ástæða til þess að staldra við og þarna sé ástæða til þess að vinátturíki Bandaríkjanna láti frá sér heyra til þess að reyna að koma í veg fyrir að þetta vopnakapphlaup, kapphlaup um nýja gereyðingartækni, hefjist.

Þá minnist hæstv. ráðherra í skýrslu sinni á íslensku friðargæsluna og segir að reynslan af þeirri þátttöku hafi verið góð. Í því sambandi verð ég að minnast á það að nú er á vegum Norðurlandaráðs verið að skoða sameiginlegt norrænt verkefni um friðargæslu í heiminum sem ég tel að við Íslendingar eigum að taka þátt í. Ég vil spyrja hæstv. utanrrh. um afstöðu hans til þess verkefnis sem nú er verið að hefja á vegum Norðurlandaráðs um frekara norrænt samstarf en verið hefur í þessum málum sem yrði þá að einhverju leyti bæði á vegum Norðurlandaráðs og norrænu ráðherranefndarinnar með þátttöku viðkomandi ríkja.

Herra forseti. Það er ekki langt síðan hæstv. utanrrh. lagði fram mjög ítarlega skýrslu um Evrópumál, þar á meðal um afstöðu Íslands til Evrópusambandsins og líklega framtíð þess samstarfs sem Ísland á nú við Evrópusambandið á vettvangi EES. Í munnlegri skýrslu hans sem flutt var hér áðan hefur hann raunverulega litlu eða engu við það að bæta. Þó hefur sá athyglisverði viðburður orðið að stærstu launþegasamtök landsins, Alþýðusamband Íslands, eru nú í þann veginn að marka sér stefnu um þetta mikilvæga mál. Alþjóðanefnd Alþýðusambandsins hefur skilað tillögum til alþýðusambandsþings þar sem rætt er um að tveir kostir séu í stöðunni fyrir okkur Íslendinga eins og sakir standa. Annars vegar, eins og þar segir, að styrkja samninginn um hið Evrópska efnahagssvæði, en alþjóðanefndin er einróma þeirrar skoðunar að harla lítil pólitísk líkindi séu á að það muni takast, og hins vegar að undirbúa okkur undir umræðu um það hver eigi að vera samningsmarkmið okkar ef við kjósum að ganga til liðs við Evrópusambandið og óska eftir að hefja viðræður við Evrópusambandið um hugsanlega aðild Íslands. Nú veit ég ekki hver verður niðurstaða alþýðusambandsþings um þessi mál. Þetta er tillaga sem alþjóðanefnd Alþýðusambandsins, þ.e. þeir einstaklingar í forustu Alþýðusambandsins sem fyrst og fremst sinna alþjóðamálum hafa komist að sameiginlega og lagt fyrir sitt þing. En það er mjög athyglisvert að umræðurnar skulu vera komnar þó þetta langt hjá fjölmennustu launþegasamtökum landsins. Það hefði vissulega verið ástæða fyrir hæstv. ráðherra að nefna þetta í ræðu sinni áðan því að þetta eru án efa viðbrögð við þeirri skýrslu sem hæstv. ráðherra flutti okkur á liðnum vetri og óskaði eftir því að umræður hæfust meðal þjóðarinnar um efni hennar.

Herra forseti. Ég er ekki að segja, síður en svo, að okkur liggi lífið á í þessum efnum en við megum ekki halda þannig á málum að einhverjir aðrir, þriðju aðilar, komi okkur í kastþröng, þ.e. að við neyðumst til þess að hefja umræðu um kosti og löst af því að einhverjir aðrir úti í heimi séu búnir að taka ákvarðanir sem neyði okkur til þess, hvort sem okkur líkar betur eða verr, að fara að gera upp okkar hug.

Nú vill svo til í fyrsta lagi að Danir greiddu atkvæði gegn því að taka upp evruna og í öðru lagi var samþykkt sú stefna á flokksþingi norska verkamannaflokksins þegar þessi mál komu til umræðu, að ekki væri gert ráð fyrir því að Norðmenn mundu sækja um aðild að Evrópusambandinu fyrir árið 2005. Þessar ákvarðanir, þ.e. niðurstaða þjóðaratkvæðagreiðslunnar í Danmörku og ákvörðun norska verkamannaflokksins sem fer með stjórn í Noregi núna, gefa okkur vissulega svigrúm. Hefðu þær ákvarðanir verið með einhverjum öðrum hætti þá er ég hræddur um að Íslendingar hefðu verið komnir í nokkra kastþröng svo maður tali nú ekki um ef forustuflokkurinn í norskum stjórnmálum hefði tekið ákvörðun um að berjast fyrir því í næstu kosningum að Noregur sækti um aðild að Evrópusambandinu á næstu fjórum árum. Þá hefðum við verið komin í nokkra kastþröng. Við erum það hins vegar ekki en það er engin afsökun fyrir því að við búum okkur ekki undir að hefja umræður um þessi mál og taka efnislega afstöðu. Tveir stjórnmálaflokkanna, Framsfl. og Samfylkingin, hafa hafið þessa vinnu. Framsfl. hefur skipað 50 manna nefnd til þess að fjalla um kosti og löst aðildarumsóknar og Samfylkingin fengið 14 sérfræðinga um það verkefni að gera úttekt á hugsanlegum samningsmarkmiðum Íslendinga, ekki vegna þess að Samfylkingin hafi mótað þá stefnu að við eigum að sækja um heldur vegna þess að Samfylkingin hefur mótað þá stefnu að við eigum að hefja þessa umræðu og við eigum að búa okkur undir að taka þessa ákvörðun.

[14:15]

Ég legg áherslu á að það má vel vera að skoðanir séu skiptar í öllum flokkum á þessu stigi málsins, hvort sækja eigi um aðild að Evrópusambandinu eða ekki, meira að segja innan vinstri grænna því að það hefur komið í ljós í skoðanakönnunum að um 20% fylgismanna vinstri grænna telja að það sé rétt á þessu stigi að Íslendingar stefni að því að senda inn aðildarumsókn. Meira að segja í þeim herbúðum er ekki einhugur um málið. En það er engin afsökun fyrir því að stjórnmálaflokkar taki málið ekki upp, hefji ekki umræður um það og gangi að því verki með Alþýðusambandi Íslands sem er að hefja umræðuna. Fjölmennustu launþegasamtökin í landinu eru að undirbúa sig undir í fyrsta lagi að fræða almenning um kosti og galla. Í öðru lagi að taka á sig þá ábyrgð sem hver og einn stjórnmálaflokkur verður að taka á sig, að taka afstöðu í málinu þegar þar að kemur og kynna hana fyrir þjóðinni. Við megum ekki í þessu máli tefla okkur í þá stöðu, Íslendingar, að það ráðist af hagsmunum einhverra annarra hvað við gerum, að við séum neydd til að taka ákvörðun vegna þess að einhverjir hafi komið okkur í kastþröng, hvort sem þeir heita Norðmenn eða Svisslendingar. Við eigum að taka ákvörðun út frá eigin hagsmunum og þeir atburðir tveir sem ég lýsti áðan gefa okkur færi á því að gera upp hug okkar án ótta við það að við séum að missa af einhverri lest.

Í þessu sambandi vil ég t.d. varpa fram þeirri hugmynd hvort ekki sé að verða tímabært að á Alþingi sé endurreist Evrópustefnunefndin sem vann með hæstv. utanrrh. og ríkisstjórn við mótun stefnu Íslands í Evrópumálunum fyrir nokkrum árum en var lögð niður eftir að Alþingi hafði samþykkt aðild okkar að hinu Evrópska efnahagssvæði. Þegar það verður gert, þegar það verður talið tímabært, tel ég að Alþingi Íslendinga eigi að sínum hluta til að vinna með ríkisstjórninni í að marka þessa Evrópustefnu og mér er auðvitað ljóst að í þeirri nefnd eins og hinni fyrri munu sitja þingmenn úr öllum flokkum. Þar mun verða lýst öllum skoðunum á málinu. Þar munu allir hafa jafnan rétt á að koma sjónarmiðum sínum á framfæri en ég tel að þannig eigi menn að vinna að framtíðarskoðun á stöðu Íslands í Evrópu með ríkisstjórninni af hálfu Alþingis og þeim öðrum öflum í samfélaginu sem eru að vinna að skoðun á þessum málum í dag.

Herra forseti. Á bls. 12 í hinni munnlegu skýrslu fjallar hæstv. utanrrh. í örfáum orðum um varnarsamstarfið við Bandaríkin. Það vekur athygli mína að hann víkur ekki að því að neinar viðræður séu í gangi um endurnýjun á bókuninni sem fellur úr gildi árið 2002, bókuninni sem ég hef kallað bókun um framkvæmd varnarsamningsins, heldur nefnir hann aðeins að efnt hafi verið til skoðanaskipta háttsettra embættismanna og sérfræðinga um afmarkaða þætti varnarsamstarfsins. Því vil ég spyrja hæstv. ráðherra hvort hinar formlegu viðræður um endurskoðun á bókuninni séu ekki hafnar, ef ekki, hvenær þær hefjist. Jafnframt vil ég spyrja hæstv. ráðherra um það hvort ekki sé þá alveg tryggt að öllum þingflokkum á Alþingi, hvort sem þeir sitja í stjórn eða stjórnarandstöðu, verði tryggð aðkoma að málinu t.d. með því að hann haldi utanrmn. reglulega upplýstri um hvað fer fram í þeim viðræðum. Ég vil enn fremur spyrja hæstv. utanrrh. að því sem hann hlýtur að vera búinn að gera upp við sig hver er stefna hans í þeim viðræðum. Hvað er það sem íslensk ríkisstjórn undir forustu hans mun leggja fram, hverjar eru óskir hennar um breytingar eða ekki breytingar á bókuninni um framkvæmd varnarsamningsins sem er um það bil að líða undir lok og verður ekki framlengd af sjálfu sér, ekki nema nýtt samkomulag náist þar um? Þetta skortir í ræðu hæstv. utanrrh. og vil ég því óska eftir því að hann gefi þinginu nokkru gleggri upplýsingar um þetta.

Hæstv. ráðherra ræðir talsvert mikið um norræna samvinnu og tillögur hins svonefnda vitringahóps, enda er mjög eðlilegt að það sé gert því að þetta er einn snarasti þáttur íslenskrar utanríkisstefnu. Við sem sátum á þingi Norðurlandaráðs höfum rætt tillögur vitringahópsins fyrir nokkrum dögum og munum halda þeirri umræðu áfram. Í þeim tillögum eru bæði góðar ábendingar og markverð nýbreytni sem fitjað er upp á en þar eru líka viðmið sem ég óttast að sé ekki líklegt að menn nái samkomulagi um svo sem að öll Norðurlöndin tali ávallt einni röddu á vettvangi Evrópu o.s.frv. Þetta er fallegt og gott markmið en reynslan hefur einfaldlega sagt okkur það frá sl. fimm árum, en það eru fimm ár síðan þetta markmið var sett, að harla litlar líkur eru á því að það markmið náist.

Það sem er hins vegar einna athyglisverðast í þessum tillögum vitringahópsins er að Norðurlandasamstarfið myndi kjarna í eins konar regnhlífarsamstarfi um ýmis mál sem geti náð allt frá ströndum Kanada og til Rússlands og væri fróðlegt að heyra álit hæstv. utanrrh. á þeirri tillögu sem ég tel vera þá stærstu og merkustu í hugarsmíðum vitringahópsins, hvort hann vilji leggja því máli lið að Norðurlandasamstarfið verði eins konar kjarnasamstarf í slíku regnhlífarsamstarfi með öllum þeim umsvifum og öllum þeim aukakostnaði sem því fylgir því að það mun auðvitað kalla á aukin útgjöld.

Herra forseti. Að lokum, af því að tími minn er að verða búinn og maður hefur ekki tíma til að koma nema að örfáum atriðum í ræðu utanrrh., þá ræðir hann um viðskiptamál og um Alþjóðaviðskiptastofnunina og markmið hennar sem eru að bæta markaðsaðgang og draga úr ríkisaðstoð sem hann segist vera fylgjandi. Þá vil ég spyrja hæstv. ráðherra af þessu tilefni um gamalt deilumál. Að hverju er verið að vinna af hálfu hæstv. ríkisstjórnar til þess að bæta markaðsaðgang, t.d. landbúnaðarafurða, innfluttra landbúnaðarafurða hér á Íslandi til að ná þessu höfuðmarkmiði Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar sem hæstv. ráðherra tekur undir?