Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

Þriðjudaginn 14. nóvember 2000, kl. 14:22:54 (1689)

2000-11-14 14:22:54# 126. lþ. 24.7 fundur 110#B skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál# (munnl. skýrsla), utanrrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 24. fundur, 126. lþ.

[14:22]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson) (andsvar):

Herra forseti. Alltaf má um það deila hvort eitthvað nýtt komi fram í skýrslum eða ræðum sem þessum og ætla ég ekki að segja neitt um það frekar en vil hins vegar vekja athygli hv. þingmanna á því að í dag hefur verið dreift á borð þingmanna skýrslu um þátttöku Íslands í alþjóðlegri friðargæslu sem er að mínu mati mjög merkileg nýjung og hefur ekki komið fram áður með þessum hætti. Ég held að það sé óumdeilt að það mál hefur ekki verið lagt fram með þessum hætti fyrr á hv. Alþingi án þess að ég ætli að fara frekar út í það í þessu stutta andsvari.

Ég vildi aðeins koma að Evrópumálunum sem hv. þm. Sighvatur Björgvinsson vék að eðlilega og með réttu. Það var ekki ætlun okkar að gera þau mál að sérstöku umræðuefni í þessari skýrslu en að sjálfsögðu hljóta þau að verða til stöðugrar umræðu á Alþingi. Í fyrramálið er sérstakur fundur í utanrmn. sem snertir þau mál og þangað hef ég verið boðaður en ég tel að sú skýrsla sem flutt var sl. vetur hafi skilað m.a. þeim tilgangi að auka umræðu um Evrópumálin í íslensku þjóðfélagi og hafi verið til þess fallin að þau mál hafi verið tekin skipulega fyrir í stjórnmálaflokkum, í hagsmunasamtökum eins og hjá Alþýðusambandinu, Vinnuveitendasambandinu og fjölmörgum öðrum samtökum. Þetta starf fer nú fram og utanrrn. starfar að því með mörgum samtökum, veitir liðsinni sitt eftir bestu getu og það er af hinu góða. Þess vegna ber sérstaklega að fagna því að Alþýðusambandið hefur farið í þetta viðamikla starf.