Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

Þriðjudaginn 14. nóvember 2000, kl. 14:27:21 (1691)

2000-11-14 14:27:21# 126. lþ. 24.7 fundur 110#B skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál# (munnl. skýrsla), utanrrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 24. fundur, 126. lþ.

[14:27]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson) (andsvar):

Herra forseti. Alþingi er samsett af þingflokkum sem stjórnmálaflokkar standa að baki og að mínu mati er mikilvægast af öllu að þessi umræða sé rekin á vettvangi stjórnmálaflokkanna. Auðvitað er fullt tilefni til þess og allir möguleikar á því að ræða þessi mál á Alþingi, bæði í almennum umræðum, í utanrmn. Utanrmn. er sú nefnd þingsins sem ber að fjalla um slík mál og er að fjalla um þau. Það fer eftir nefndinni sjálfri í hvaða mæli hún telur nauðsynlegt og mikilvægt að taka þessi mál til umfjöllunar. Ef Alþingi sjálft telur málið vera þess eðlis að rétt sé að skipa um það sérstaka nefnd þá er það ákvörðun Alþingis. Ég tel í sjálfu sér að utanrmn. hafi alla möguleika og burði til að sinna því viðfangsefni og ég hef skilið það svo að m.a. þess vegna hafi þessi fundur um þessi mál verið boðaður í fyrramálið. Ekki meira um það.

Varðandi viðræður við Bandaríkjamenn í sambandi við hina svokölluðu bókun er svarið einfalt: Þær viðræður eru ekki hafnar. Við Íslendingar höfum ekki farið fram á það enn sem komið er að þær hefjist og stefna okkar er einföld. Við viljum framlengja þá bókun sem er nú í gildi að mestu leyti óbreytta, það höfum við sagt við Bandaríkjamenn og ef þeir eru tilbúnir til þess teljum við ekki sérstaka ástæðu til langra viðræðna um þau mál.