Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

Þriðjudaginn 14. nóvember 2000, kl. 15:03:54 (1697)

2000-11-14 15:03:54# 126. lþ. 24.7 fundur 110#B skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál# (munnl. skýrsla), utanrrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 24. fundur, 126. lþ.

[15:03]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson) (andsvar):

Herra forseti. Það kemur fram í ræðu minni að það sé mitt mat að mikil eining ríki um þátttöku okkar í norrænu samstarfi, varnarsamstarfi innan NATO og við Bandaríkin. Ég er þeirrar skoðunar. Ég nefni í þessu sambandi ekki veru varnarliðsins hér á landi en ég hef leyft mér að álykta svo að jafnvel þótt ágreiningur sé um veru þess hér á landi sé það almennt álit Íslendinga að okkur beri að vera í varnarsamstarfi með Bandaríkjunum og Atlantshafsbandalaginu. Þannig upplifi ég íslenskt samfélag. Ég upplifi hins vegar ekki málflutning vinstri grænna með þeim hætti svo það sé alveg skýrt, en ég tel að sá málflutningur eigi ekki mikinn hljómgrunn í íslensku samfélagi. Ég tel það ekki vera ástæðu þess að viðkomandi flokkur hefur þó nokkurt fylgi meðal þjóðarinnar. Ég tel að það séu aðrar ástæður.

Nú mál vel vera að hv. þm., eins og hér hefur komið fram, sé mér ósammála um það. Ég kem víða á fundi, víða um land og svara mörgum fyrirspurnum og hef verið alllengi í stjórnmálum og tel að mikil breyting hafi orðið á í þessu sambandi. Þó að oft séu harðar umræður um þessi mál á hv. Alþingi, þá finnst mér þær ekki vera endurspeglun á umræðunni í samfélaginu. Þetta er mitt mat. Það stendur í ræðu minni hvort sem þingmönnum líkar það betur eða verr, þá er þetta mín skoðun. Hv. þm. getur verið henni ósammála en það getur ekki komið í veg fyrir að ég setji þá skoðun fram.