Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

Þriðjudaginn 14. nóvember 2000, kl. 15:10:40 (1701)

2000-11-14 15:10:40# 126. lþ. 24.7 fundur 110#B skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál# (munnl. skýrsla), TIO (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 24. fundur, 126. lþ.

[15:10]

Tómas Ingi Olrich (andsvar):

Herra forseti. Ég get í sjálfu sér tekið mjög undir það að full ástæða væri til að kanna betur afstöðu almennings nú til veru okkar í NATO og veru varnarliðsins hér. Hins vegar er ekki hægt að horfa fram hjá því að þegar verið er að vitna í skoðanakannanir frá 9. áratugnum, þá varð grundvallarbreyting á afstöðu manna til NATO, bæði hér á landi og annars staðar í heiminum þegar Sovétríkin hrundu og fyrrverandi Sovétlýðveldi breyttu um afstöðu sína til Atlantshafsbandalagsins jafnskjótt og þar höfðu verið leidd til öndvegis lýðræðisöfl og mannréttindi. Þá kom í ljós að meðal þessara afla hafði verið litið á Atlantshafsbandalagið sem friðarsamtök, varnarsamtök friðsamlegra lýðræðisþjóða. Þetta sjónarmið endurspeglaðist einmitt mjög sterkt eftir 1990. Það eru að vísu tíu ár síðan það var.

Það er heldur ekki hægt að neita því að eflaust hefur það óyndisúrræði þegar Atlantshafsbandalagið neyddist til að grípa til loftárása á Júgóslavíu haft áhrif á afstöðu manna til bandalagsins en þá er best að taka það með í reikninginn og gleyma því ekki að þar var um algert óyndisúrræði að ræða, aðgerðir sem var ekki hægt annað en grípa til vegna þess að í algert óefni stefndi í Kosovo. Mér finnst því rétt að styðja þá afstöðu þingmannsins að full ástæða sé til að fara að skoða þessi mál, en mér sýnist að svolítið sé horft fram hjá þeim fjölbreyttu viðhorfum sem urðu þarna eftir 1990 í þessum efnum.