Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

Þriðjudaginn 14. nóvember 2000, kl. 15:19:28 (1706)

2000-11-14 15:19:28# 126. lþ. 24.7 fundur 110#B skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál# (munnl. skýrsla), SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 24. fundur, 126. lþ.

[15:19]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Herra forseti. Unaðslegt er nú að hafa hv. þm. Sighvat Björgvinsson hér með okkur á þingi og það veit sá sem allt veit að ég á eftir að sakna hans ef hann skyldi hætta á undan mér.

Hv. þm. Sighvatur Björgvinsson sagði einu sinni fyrir alþingiskosningar vestur á fjörðum hátt og í heyranda hljóði og eru að hundruð vitna, að hann mundi aldrei styðja ríkisstjórn sem framlengdi kvótakerfið. Ekki leið á löngu áður en hv. þm. var orðinn stuðningsmaður ríkisstjórnar og settist skömmu síðar í ríkisstjórn sem festi kvótakerfið í sessi og framkvæmdi það sem aldrei fyrr. Við getum lengi haldið þessu áfram, hv. þm., að reyna með einhverjum slíkum upprifjunum að gera lítið hvor úr öðrum. Það lyftir ekki umræðunni á hærra plan eins og Nóbelsskáldið bað um forðum.

Varðandi þetta með Evrópunefndina þá er það alveg rétt að það er ekki beinlínis sú nefnd sem er í síðasta málslið tillögugreinar okkar um mótun stefnu í alþjóðamálum. En í umræðum um þá tillögu sem hér urðu allmiklar og hv. þm. tók m.a. þátt í, nefndi ég til sögunnar Evrópustefnunefndina gömlu, veifaði meira að segja bókinni sem hún gaf út og spurði sérstaklega hvort það væri e.t.v. einhver flötur á a.m.k. samstöðu um ákveðna vinnu að þessu leyti og ég hygg að hæstv. utanrrh. hafi svarað því þá með eitthvað svipuðum hætti og hann svaraði hér áðan. Það var til þessa sem ég var að vísa þegar ég sagði að hv. þm. Sighvatur Björgvinsson hefði tekið hér upp sama mál og ég ræddi nokkrum vikum áður. En hafi það komið illa við hv. þm. að ég skyldi orða þetta svona þá biðst ég undan því og verð að segja að hv. þm. er orðinn nokkuð viðkvæmur ef jafnvel svona sakleysislegt orðalag stuðar hann.