Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

Þriðjudaginn 14. nóvember 2000, kl. 15:23:45 (1709)

2000-11-14 15:23:45# 126. lþ. 24.7 fundur 110#B skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál# (munnl. skýrsla), SvH
[prenta uppsett í dálka] 24. fundur, 126. lþ.

[15:23]

Sverrir Hermannsson:

Herra forseti. Mér varð, eins og hv. 3. þm. Norðurl. e., á að staðnæmast við 1. málsl. í upphafi ræðu hæstv. utanrrh. þar sem segir, með leyfi forseta:

,,Stöðugleiki og samstaða um grundvallarþætti utanríkismálanna einkennir íslenskt samfélag.``

Þetta er ekki að undra vegna þess að hvenær sem vikið er að málefnum hæstv. ríkisstjórnar þá er upp hafinn söngur um að allt sé í stakasta lagi, allt sé blúndulagt. Um það predika fyrirsvarsmenn hæstv. ríkisstjórnar seint og snemma. Öllu er svarað á einn veg enda þótt vá sé blátt áfram fyrir dyrum eins og við t.d. sjáum fyrir okkur í gengismálum, svo að það sé nefnt, og fjölmörgum öðrum málum, gegndarlausum viðskiptahalla og gengisfalli sem blasir við. Síðast í gær var hæstv. forsrh. spurður um stöðu þeirra mála og umsagnir sérfræðinga, sem hann þóttist ekki hafa heyrt, um stöðu íslenskra fjármála og viðskiptamála. Þá var á honum að skilja að alltaf hefði legið fyrir að hlutabréf mundu falla í verði en óðar en varir mundu útflutningsfyrirtæki græða á gengissigi. Þá var það allt í einu orðið að jákvæðri þróun. Það er bullandi halli á heilbrigðiskerfinu og stöðugt talað um að þar sé stórkostlegra úrbóta að vænta þrátt fyrir milljarða halla á hverju ári og að biðlistar lengist. Okur er í orku- og tryggingamálum en aldraðir og öryrkjar vel settir að dómi hæstv. ríkisstjórnar.

En hvað um samstöðu um meginmál í íslenskum utanríkismálum sem er afstaðan til ESB eins og nú standa sakir? Auðvitað getur hæstv. utanrrh. ekki talað fyrir munn annarra flokka þegar hann talar um hina algeru samstöðu en nú er hann væntanlega að tala um samstöðu ríkisstjórnarinnar a.m.k. skyldi maður halda og þar hefur hann áreiðanlega fulla heimild til þess að kveða svo að orði. En hvað blasir við? Hefur formaður Framsfl. ekki stofnað til 50 manna sérfræðinganefndar til þess að rannsaka og ræða sérstaklega hugsanlega aðild Íslands að ESB? Og hver er afstaða hins stjórnarflokksins í því efni? Það er meira að segja svo að hæstv. forsrh. telur málið alls ekki umræðuhæft með neinum hætti. Ef nokkuð er að marka þessa nýju stefnu Framsfl. sem þarna birtist í 50 manna nefndinni, þá eru þessir tveir stjórnarflokkar á öndverðum meiði blátt áfram í sambandi við þessi örlagamál um Evrópusambandið. (SJS: Gleymdu ekki nefnd Samfylkingarinnar.) Mikið rétt. En þegar grannt er skoðað, skyldi þá þetta vera rétt sem hæstv. utanrrh. segir að samstaða sé milli flokkanna einmitt í Evrópumálunum, að þessi skipan nefndarinnar sé allt saman sjónarspil sett fram til þess að slá ryki í augu helftar Framsfl. sem hefur verið mjög gagnrýnin á hæstv. utanrrh., formann Framsfl., fyrir að vera algjör taglhnýtingur forsrh. og ekki þora að tala um mál sem hinn bannar? Skyldi þetta vera ástæðan og fullyrðingin um samstöðuna sé þá rétt? Þessu er a.m.k. haldið fram og á daginn mun kannski koma, að hvaða niðurstöðu svo sem nefndin kemst, að hæstv. utanrrh. muni grípa það til ráðs sem blasir við, að benda á að okkur sé inngangan ómöguleg og útilokuð á meðan ákvæði um fiskveiðimál eru eins og þau eru í Evrópusambandinu.

En það er fleira sem ég er ekki viss um að samstaða sé um og það er nýr grundvallarþáttur sem hefur verið tekinn upp af hæstv. utanrrh. og ég sakna þess að það er hvergi vikið að því atriði í þessari ræðu. Það er hin nýja stefna formanns Framsfl. að hleypa erlendu auðvaldi inn í íslenska fiskveiðilögsögu. Að vísu kemur það undir eins í ljós að máttarstoðir hins stjórnarflokksins eru sammála um það, og Morgunblaðið undir eins, að þetta sé góð og hentug stefna. Nú vantar íslenska auðvaldið meira fjármagn til þess að braska með, til þess að viðhalda kvótabraski sínu, og þá er að leita til Unilever um viðskipti.

Ég verð að segja að mér ofbauð þegar hæstv. utanrrh., formaður Framsfl., tilkynnti um þessa, sem ég kalla, kúvendingu frá fyrri stefnu og mér hefði aldrei boðið í grun að ætti eftir að koma á daginn af hálfu íslenskra stjórnvalda. Og það sem meira er, þetta er á flugstigi framkvæmdar. Þeir ganga undir þessu allir nema Kristján Ragnarsson, sem að vísu ræður miklu. En útvegsmenn, samtök útvegsins, taka undir þessa nýju stefnu. Ég vildi þess vegna biðja um það að fá einhverja frekari útlistingu á því hvernig framkvæmt skuli.

[15:30]

Á bls. 4 er vikið að mannréttindum og það er, með leyfi forseta, orðað svo í upphafi:

,,Mannréttindi eru algild og það er á ábyrgð alþjóðasamfélagsins alls að tryggja virðingu fyrir þeim.``

Það kann vel að vera að hæstv. utanrrh. sinni mannréttindamálum sem vera ber á erlendum vettvangi en það vantar dálítið upp á að þess sé gætt að sinna þeim hérlendis. Fyrir forustu hans og LÍÚ-klíkunnar hafa þúsundir Íslendinga verið sviptir grundvallarmannréttindum, mannréttindum, réttindum til lífsframfæris síns, með því að sækja verðmæti í eigin sjó. Um það þarf ekki að fara fleiri orðum. Hér er lagt til að Íslendingar leggi áherslu á að tryggja beri mannréttindi um allan heim en um leið yfirsést þessum herrum grundvallarmannréttindi sem sjálfur Íslendingurinn er sviptur.

Þá er hér á öðrum stað vikið að ríkisstyrkjum til sjávarútvegs og ef ég man rétt er lýst yfir andstöðu eins og segir hér, með leyfi forseta:

,,Öflug fiskveiðistjórn heima fyrir og alþjóðlegt átak um afnám ríkisstyrkja í sjávarútvegi eru lykillinn að því að tryggja áframhaldandi sjálfbæra nýtingu auðlinda hafsins.``

Áreiðanlega eru hvergi dæmi um það í veröldinni annars staðar að útvegur sé jafnrækilega ríkisstyrktur eins og á Íslandi þar sem lénsherrunum er rétt að gjöf sjávarauðlindin öll sömul eins og hún leggur sig. Það er meira en lítill holhljómur í svona tali.

Ég tek undir það að þátttaka okkar í friðargæslu er af hinu góða. Það hefur oft verið svo að stórþjóðirnar, sem hafa gegnt slíku hlutverki, hafa gjarnan verið tortryggðar vegna þess að þeir hefðu annað og meira í huga en að gæta friðarins. Það verður áreiðanlega ekki sagt um okkur Íslendinga og þess vegna ber sérstaklega að fagna því framtaki og efla það með öllum hætti því við getum áreiðanlega lagt þar mjög góðan skerf af mörkum.

Ég sé ekki ástæðu til að gerast langorður um þá mögru skýrslu sem hér liggur fyrir. En hæstv. utanrrh. endar skýrslu sína á því að taka fram eins og hér segir, með leyfi forseta:

,,Aldrei hefur verið augljósara en nú hversu mikilvæg öflug utanríkisþjónusta er fyrir hagsmuni Íslands.``

Þar af leiðandi skyldu menn halda að nauðsyn bæri til að stöðu utanrrh. gegndi traustur og trúverðugur maður. Enginn mun þekkja betur til starfshátta hæstv. núv. utanrrh. en fyrrv. formaður Framsfl., Steingrímur Hermannsson. Flogið hafa fyrir þær umsagnir Steingríms úr ævisögu hans sem skilja má á þann veg að varasamt kunni að vera að trúa núv. formanni Framsfl. fyrir sendibréfi milli bæja.