Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

Þriðjudaginn 14. nóvember 2000, kl. 15:46:59 (1711)

2000-11-14 15:46:59# 126. lþ. 24.7 fundur 110#B skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál# (munnl. skýrsla), utanrrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 24. fundur, 126. lþ.

[15:46]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson) (andsvar):

Herra forseti. Svo ég víki fyrst að síðustu spurningu hv. þm. þá gerum við okkur enn vonir um að íslenska ákvæðið svokallaða nái fram að ganga á lokastigi þeirra samninga sem nú eiga sér stað. Það er hins vegar ekki hægt að fullyrða um það á þessari stundu. Það liggur alveg ljóst fyrir að fyrir hendi er andstaða við þetta íslenska ákvæði, það var hins vegar inni í lokasamþykkt í Kyoto og þess vegna hefur ráðstefnan þær skyldur að tekið sé á þessu máli. Við höfum átt í ítarlegum viðræðum við margar þjóðir um þetta mál. Ég get nefnt sérstaklega í því sambandi Kanada en þær viðræður hafa gengið að mínu mati vel. Við höfum jafnframt átt í mikilvægum viðræðum við þjóðir Evrópusambandsins í þessu máli, sem jafnframt hafa gengið bærilega, en niðurstaða er ekki fengin. Hér er hins vegar um afskaplega stórt hagsmunamál að ræða fyrir Ísland og framtíðarhagsmuni Íslendinga og þess vegna hljótum við að trúa því að okkur takist að verja þá mikilvægu hagsmuni Íslendinga.

Hvað við gerum ef það tekst ekki er að mínu mati ekki tímabært að segja neitt um. Ég tel ástæðu til að ræða það þegar það kemur upp en á þessu stigi vil ég vænta þess að takist að fá aðra niðurstöðu.

Hv. þm. spurði um fjölmörg önnur mál sem ég vildi gjarnan koma að og svara, e.t.v. get ég það að einhverju leyti í síðari andsvörum eða þá á þeim stutta tíma sem ég hef til ráðstöfunar við lok umræðunnar.