Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

Þriðjudaginn 14. nóvember 2000, kl. 15:53:36 (1715)

2000-11-14 15:53:36# 126. lþ. 24.7 fundur 110#B skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál# (munnl. skýrsla), ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 24. fundur, 126. lþ.

[15:53]

Ögmundur Jónasson:

Herra forseti. Ég vil byrja á að þakka hæstv. utanrrh. fyrir þá skýrslu sem hann hefur flutt Alþingi. Það er spurning hve miklar kröfur hægt er að gera til skýrslu á borð við þessa sem sett eru ströng tímamörk. Ef til vill er hún dæmd til að verða almenns eðlis en ekki er þar með sagt að hún sé dæmd til að verða yfirborðskennd. En að mínum dómi er skýrslan einmitt það þegar kemur að ýmsum þeim málefnum sem eru hvað umdeildust á vettvangi utanríkismálanna og vísa ég þar t.d. til viðskiptabannsins á Írak og til Miðausturlanda. Reyndar er það svo að ekki er vikið einu orði að Írak í skýrslunni.

Í henni er fjallað í fáum orðum um starf á vettvangi Sameinuðu þjóðanna og þess sérstaklega getið að Íslendingar láti til sín taka á sviði hafréttarmálefna og mannréttinda. En hér er ef til vill komið mesta hitamál samtímans á sviði mannréttindamála og ekki minnst á það einu orði í skýrslu utanrrh. Þetta finnst mér sannast sagna mjög undarlegt og ekki síst í ljósi þeirra umræðna sem fram hafa farið á Alþingi margítrekað um viðskiptabannið og tilraunir þingmanna til þess að fá því hnekkt.

Ég hef margoft gert grein fyrir afstöðu minni til viðskiptabannsins og hér hefur ítrekað og árum saman verið flutt þáltill. um það efni. Það er hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon ásamt nokkrum hv. þm., þar á meðal mér, sem höfum staðið að þessari þáltill. en hún hefur alltaf verið svæfð í utanrmn. og Alþingi aldrei leyft að taka endanlega afstöðu til hennar, aldrei hefur verið látin fara fram atkvæðagreiðsla í þinginu og fengið fram hver raunverulegur vilji þingsins er. Þegar þessi mál komu síðast til umræðu vísaði ég í rannsóknarvinnu sem unnin hefur verið á vegum mannréttindanefndar Sameinuðu þjóðanna, mjög vandað plagg sem hefur verið unnið á vegum hennar með upplýsingum sem bera vott um mjög alvarlegt ástand og styður það sem við margoft höfum lýst á Alþingi í umræðum um viðskiptabannið.

Ég ætla ekki að víkja nánar að því núna í ræðu minni en fara nokkrum orðum um Palestínumálið. Í skýrslu utanrrh. hæstv. segir, með leyfi forseta:

,,Ábyrgð Ísraels er mikil þó að við fordæmum harðlega ofbeldisaðgerðir beggja aðila. Gagnkvæmt traust er horfið og það mun taka langan tíma að byggja það upp að nýju. Fyrr er þess ekki að vænta að við getum gert okkur einhverjar vonir um varanlegan frið fyrir botni Miðjarðarhafsins.``

Undir hið síðasta skal ég taka. En ekki held ég það fái staðist að Íslendingar hafi fordæmt Ísraelsmenn mjög harðlega vegna ofbeldisaðgerða þeirra gagnvart Palestínuaröbum. Alla vega var það svo þegar greidd voru um það atkvæði á vettvangi Sameinuðu þjóðanna, hvort fordæma ætti Ísrael, hvort mótmæla ætti harðlega ofbeldinu gagnvart Palestínuaröbum, þá sátu Íslendingar hjá við þá atkvæðagreiðslu, því miður. En á meðal þeirra ríkja sem studdu þessa gagnrýni má nefna Austurríki, Frakkland, Írland, Lúxemborg og Finnland en Íslendingar treystu sér ekki til að fordæma þetta ofbeldi.

Ég held að enginn deili um það að Ísraelsmenn hafa farið með ofbeldi á hendur Palestínuaröbum. Við minnumst þess þegar Sharon, formaður Likud-bandalagsins og einn harðasti haukurinn í framvarðarsveit Ísraelsmanna, þekktur að endemum úr stríðinu frá Líbanon á sínum tíma, fór með fylktu liði, vopnaðri sveit manna, að helgihofum Araba í Jerúsalem og þegar því var mótmælt, þá var ekki svarað eins og oft er þegar kemur til mótmæla með táragasi og kylfum, nei, þar var skriðdrekum og herþyrlum beitt og nú er svo komið að a.m.k. 200 manns hafa látið lífið í þeim átökum. Það fær því ekki staðist að Íslendingar hafi fordæmt ofbeldið, það fær ekki staðist sem hæstv. utanrrh. heldur hér fram í ljósi þess að Íslendingar treystu sér ekki til að fylgja Frökkum, Austurríkismönnum, Finnum og Írum, svo nokkrar þjóðir séu nefndar, sem fordæmdu ofbeldið á vettvangi Sameinuðu þjóðanna.

[16:00]

Síðan vil ég fjalla um fátækustu þjóðir heims. Um það er fjallað í skýrslu hæstv. utanrrh. Hann svaraði því einnig til eða skýrði nánar mál Íslendinga í andsvari við hv. þm. Þórunni Sveinbjarnardóttur, sem er því miður farin úr salnum. Ég hefði gjarnan viljað að hún hefði hlýtt á þetta og hugsanlega tekið málið upp að nýju í ljósi þess sem mig langar til að segja um það atriði.

Hæstv. utanrrh. nefnir það réttilega að það hafi m.a. verið að frumkvæði Norðurlandanna sem átakinu var ýtt úr vör árið 1996, þ.e. sérstök aðstoð eða niðurfelling skulda við fátækustu ríki heims.

Í skýrslu sinni segir hæstv. utanrrh. orðrétt:

,,Gert er ráð fyrir að 30 fátækustu ríki heims fái fyrirgreiðslu, samtals um 50 milljarða dollara. Til þess að fá fyrirgreiðslu þurfa ríkisstjórnir þessara fátæku landa að uppfylla ákveðin skilyrði sem eru þau að það fólk sem býr við sárasta örbirgð njóti fyrirgreiðslunnar þegar fram líða stundir. Með öðrum orðum á að nýta það svigrúm sem skapast við niðurfellingu skuldanna fátækasta fólkinu til framdráttar, til dæmis á sviði mennta- og heilbrigðismála og atvinnuuppbyggingar. Þegar hafa 10 lönd lagt fram áætlanir um sinn þjóðarbúskap sem uppfylla skilyrðin. Gert er ráð fyrir að önnur 10 verði búin að skila slíkum áætlunum og fá þær samþykktar fyrir lok þessa árs.``

Þetta sagði hæstv. utanrrh. í skýrslu sinni. Hv. þm. Þórunn Sveinbjarnardóttir gekk á hæstv. ráðherra og spurði: Hver eru þessi skilyrði? Hæstv. ráðherra vísaði í tækniyrði og skammstafanir sem mig langar aðeins að víkja að.

Sú var tíðin að Alþjóðabankinn og Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn gerðu þeim ríkjum sem var veitt fyrirgreiðsla að ráðast í það sem kallast var ,,structural adjustment loans`` eða ,,enhanced structural adjustment facility`` og þetta voru lán sem byggðu á því að þessum fátæku ríkjum var gert að ráðast í markaðsvæðingu og einkavæðingu. Oft hafði það þær afleiðingar að fjölþjóðlegir risar, sem höfðu lánað þessum ríkjum, komust yfir eignir þeirra. Þetta var eina leiðin að greiða upp lánin, það var að láta af hendi auðlindir eða almannaþjónusta sem Alþjóðabankinn og Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn gerði þeim að einkavæða. Þetta var ein ástæðan fyrir því að Alþjóðabankinn og Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn og þess vegna Alþjóðaviðskiptastofnunin hafa verið gagnrýnd og var einn rauður þráður í gagnrýninni á fundinum í Seattle, Prag og víðar.

Þetta varð til þess að bankinn hefur núna breytt um stefnu að nokkru leyti. Nú er talað um ,,poverty reduction strategy papers`` eða ,,plans`` eins og hæstv. utanrrh. vísaði í hér áðan. Þetta byggir á breyttri hugsun að hluta til. Aðeins að því leyti að nú er ríkjunum sjálfum gert að setja fram áætlanir. Eftir sem áður mun Alþjóðabankinn eða aðilar á hans vegum, IFI, International Financial Institutions, og sérfræðingar bankans fara yfir þessa pappíra og þessi plön og sjá til þess að þau standist þær kvaðir sem alþjóðalánastofnanirnar setja á þessi ríki. Hverjar eru svo þessar kvaðir?

Það er þetta sem er ekki alveg ljóst. En ef ég skil hæstv. utanrrh. rétt eru þær svipaðar og Norðurlöndin lögðu til fyrir fjórum árum 1996 því vísað er í þetta framtak Norðurlandaþjóðanna árið 1996.

Hvað skyldi það hafa verið, hverjar skyldu þessar kvaðir hafa verið þá?

Í fréttatilkynningu frá utanrrh. 22. september 1997 segir m.a., með leyfi forseta, og þetta er sami hæstv. utanrrh. og situr hér í dag og er að skýra þetta fyrir okkur. Hér segir, með leyfi forseta:

,,Utanríkisráðherra lýsti yfir fullum stuðningi Norðurlandanna og Eystrasaltsríkjanna við sérstakt átak Alþjóðabankans til að auka fjárfestingar einkaaðila í orkumálum, samgöngu- og fjarskiptakerfum þróunarríkjanna.``

Á fundi þar sem hæstv. ráðherra hafði orð fyrir Norðurlöndunum, sem haldinn var í Hong Kong að ég hygg, þar sem hann útlistar stefnu Íslendinga ,,Statement by Mr. Halldór Ásgrímsson, Minister of Foreign affairs Iceland, on behalf of the Nordic and Baltic countries`` þetta er yfirlýsing hæstv. ráðherra fyrir hönd þessara ríkja. Þar segir hann t.d. af því hann vék hér að spillingunni, að við ættum að reyna að finna leiðir til þess að koma í veg fyrir að fjármunirnir rynnu til spilltra valdamanna, sem oft hefur gerst og ég tek alveg undir það með honum í sjálfu sér, að sjálfsögðu, eins og dæmin sanna frá Zaír t.d. og ríkjum þar sem einræðisherrar hafa komist yfir gilda sjóði, reyndar aðallega einræðisherrar sem hafa þjónað Bandaríkjunum og Vesturveldunum hafa verið látnir komast upp með það.

En hér segir hæstv. ráðherra:

Ég leyfi mér að vitna í þetta á ensku, herra forseti, ,,deregulation, open markets and free competition are important instruments in the fight against corruption.``

Leiðir til að draga úr spillingu er markaðsvæðingin og hér nokkru síðar í ávarpi hans er rætt um sams konar aðgerðar\-áætlun og hann vísaði væntanlega til áðan í máli sínu ,,... action program to facilitated private involvement in infrastructure`` -- aðgerðaráætlun til að tryggja einkafjármögnun í stoðkerfi samfélagsins.

Hér erum við aftur farin að tala um það sem vakandi fólk um heim allan er að gagnrýna þessar stofnanir fyrir. Ég get svarað hv. þm. Þórunni Sveinbjarnardóttur því hvernig á því standi að ekki gangi að koma þessum fjármunum út. Hún nefndi það í ágætri ræðu sinni að einvörðungu 15 milljarðar dollara hefðu gengið til þessara ríkja. Ástæðan er sú að þau neita að gangast undir þær kvaðir sem alþjóðafjármagnskerfið setur þeim á herðar. Það er ástæðan.

Nú vil ég að hæstv. utanrrh. upplýsi okkur um þetta. Eru Íslendingar virkilega að taka þátt í því, eins og þeir gerðu því miður 1996, að knýja þessar fátækustu þjóðir heimsins til að umbylta þjóðfélagskerfum sínum og stoðkerfum samfélagsins á þann veg að alþjóðarisarnir geti gleypt þau, eins og dæmin sanna, því miður. Niðurstaðan hefur orðið sú að fjölþjóðlegir risar hafa gleypt upp auðlindir og almannaþjónustu þessara ríkja og þau eru að reyna að berjast gegn þessu og sporna gegn þessu. Hæstv. utanrrh. skuldar okkur því skýringar á stefnu sinni.

Herra forseti. Eitt að lokum. Ég veit að það eru ekki margir sem hafa gert þetta í áranna rás en ég er einn af þeim sem setja stórt spurningarmerki og hef um það miklar efasemdir að Íslendingar eigi að fara fram á alþjóðavettvangi til að berjast fyrir banni við stuðningi við fiskveiðar. Ég hef miklar efasemdir um þetta og ég á síðar eftir að gera grein fyrir minni afstöðu í þessu máli.