Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

Þriðjudaginn 14. nóvember 2000, kl. 16:33:31 (1721)

2000-11-14 16:33:31# 126. lþ. 24.7 fundur 110#B skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál# (munnl. skýrsla), utanrrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 24. fundur, 126. lþ.

[16:33]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. kom inn á félagslegar úrbætur í þriðja heiminum og tengingu þessara félagslegu úrbóta í alþjóðlegum viðskiptasamningum. Það vita allir að um þetta er afskaplega mikil umræða á vegum Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar, WTO, um hvort rétt sé að taka upp staðla, vinnustaðla ,,Labour Standards`` og það hefur verið skoðun margra að þetta ætti fremur heima hjá Alþjóðavinnumálastofnuninni en við höfum stutt þau sjónarmið að félagslegar úrbætur ættu heima í þessum alþjóðlegu viðskiptasamningum.

Hitt er svo annað að þegar maður fer að ræða þessi mál við forustumenn í þriðja heiminum þá benda þeir á hina miklu fátækt og örbirgð sem hvarvetna blasir við og þá staðreynd að fjölskyldur eru að reyna að komast af saman og þá staðreynd að mikið af börnum lendir á götunni og lendir í betli, vændi eða glæpum. Það blasir því hvarvetna við að þessi mál eru ekki auðveld úrlausnar, og það eru fyrst og fremst börnin sem líða í þessum löndum. En af því að hér hefur mikið verið talað um börn þá er líka rétt að benda á að Íslendingar hafa tekið að sér að hjálpa börnum víða um heim með frjálsum framlögum og mér finnst það afskaplega merkilegt að sérstakt heimili skuli vera rekið í Indlandi á vegum ABC þar sem eru 1.500 börn sem annars hefðu lent á götunni, munaðarlaus börn sem Íslendingar sjá algjörlega um fyrir íslenskt fé án þess að hið opinbera komi þar að, sem sýnir að almenningur getur hjálpað mikið í þessum efnum víðs vegar í heiminum.