Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

Þriðjudaginn 14. nóvember 2000, kl. 16:39:57 (1725)

2000-11-14 16:39:57# 126. lþ. 24.7 fundur 110#B skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál# (munnl. skýrsla), RG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 24. fundur, 126. lþ.

[16:39]

Rannveig Guðmundsdóttir (andsvar):

Herra forseti. Ég var einmitt að kvarta undan því að utanrrh. hefði kannski ekki nægilegan tíma til að svara spurningum hvers og eins okkar og mér finnst það hart að hann skuli þurfa að nota lungann úr síðara svari sínu til að svara kalli utan úr sal með fullri virðingu fyrir því efni sem þar var hreyft.

En ég spurði um kvennasáttmálann, hvort hann þyrfti að koma með einhverjum hætti hérna fyrir þingið og ég spurði líka um Rúanda-dómstólinn, ég hef gert það áður. Hann er frábrugðinn alþjóðasakadómstólnum en hann er sams konar og alþjóðastríðsglæpadómstóllinn í fyrrum Júgóslavíu og við settum lög um hann. Það má vel vera að menn hugsi sem svo að það sé frekar ólíklegt að einhverjir komi frá Rúanda og hingað. Það er kannski ekki meginatriðið, heldur að við ætlum að vera fyrirmynd og ef við teljum að ástæða sé til að setja lög um alþjóðlegan stríðsglæpadómstól í einu landi þá eigum við að setja lögin líka varðandi annað land. Það er okkar siðferðilega skylda og ég hvet til þess að ráðherrann beri hingað inn nákvæmlega sams konar mál og hann flutti varðandi alþjóðastríðsglæpadómstólinn í fyrrum Júgóslavíu og setjum nákvæmlega eins lög. Ég hvet hann til þess og að í lokaræðu sinni komi hann þá inn á aðra þætti sem ég hef gert að umtalsefni í ræðu minni.