Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

Þriðjudaginn 14. nóvember 2000, kl. 16:41:32 (1726)

2000-11-14 16:41:32# 126. lþ. 24.7 fundur 110#B skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál# (munnl. skýrsla), SAÞ
[prenta uppsett í dálka] 24. fundur, 126. lþ.

[16:41]

Sigríður A. Þórðardóttir:

Herra forseti. Tímarnir breytast og mennirnir með. Þetta höfum við fengið að reyna á mjög áþreifanlegan hátt á síðustu áratugum. Breytingarnar eru nú svo örar að við þurfum að hafa okkur öll við til að fylgjast með framförum og tækni á öllum sviðum.

Eitt einkenni hins nýja tíma er stóraukin áhersla á alþjóðlegt samstarf. Hnattvæðingin svokallaða er staðreynd. Íslendingar eru virkir þátttakendur í samfélagi þjóðanna en um leið eykst vægi hefðbundinnar alþjóðasamvinnu Íslendinga, t.d. á sviði Evrópu- og Norðurlandasamstarfs, Atlantshafsbandalagsins og Sameinuðu þjóðanna. Ég vil við þetta tækifæri þakka utanrrh. fyrir yfirgripsmikla skýrslu um utanríkismál á Alþingi í dag.

Það eru fáein atriði sem ég vil gera að umtalsefni. Í fyrsta lagi er sérstök ástæða til að fagna þeirri ákvörðun að efla þátttöku Íslands í alþjóðlegri friðargæslu með því að koma á fót íslensku friðargæslunni undir stjórn alþjóðaskrifstofu utanrrn. sem mun sjá um ráðningu, undirbúning og þjálfun starfsliðs og almenna umsjón með starfseminni. Það er mikilvægt fyrir okkur Íslendinga að taka þátt í slíku starfi með öðrum þjóðum og stuðla þannig að því að viðhalda friði og stöðugleika í veröldinni.

Íslendingar hafa tekið þátt í ýmsum friðargæsluverkefnum á undanförnum árum og af því tilefni spyr ég hæstv. utanrrh.: Hvar nýtist okkar reynsla best og á hvaða sviðum?

Í öðru lagi vil ég nefna EES-samninginn og framkvæmd hans en í skýrslu utanrrh. er því lýst að EFTA-ríkin telji að nota megi samninginn á markvissari hátt til að tryggja samræmi á svæðinu og koma sjónarmiðum EFTA- eða EES-ríkjanna betur á framfæri. Ég bið utanrrh. að fjalla nánar um það með hvaða hætti unnt sé að nýta EES-samninginn betur og einnig hvernig á að tryggja aðkomu EES-ríkjanna að stækkunarferli í Evrópusambandinu þegar undirbúningi lýkur og samningaviðræður um aðlögun og aðlögunartíma hefjast. Einnig spyr ég um stöðu mála varðandi Schengen.

Í þriðja lagi vil ég nefna að það er mjög mikilvægt að tekist hafa fríverslunarsamningar við Mexíkó og nýju lífi blásið í viðræður við Kanada og fleiri þjóðir. Hvernig er staða viðræðnanna við Kanada? Er þess að vænta að þeim ljúki fyrir áramót?

Í fjórða og síðasta lagi fjalla ég um norrænt samstarf. Í síðustu viku var 52. þing Norðurlandaráðs haldið á Íslandi. Það er ástæða til þess við umræður um utanríkismál að flytja Alþingi Íslendinga og starfsfólki þess sérstakar þakkir fyrir vandaðan undirbúning. Öll framkvæmd Norðurlandaráðsþingsins var af hendi leyst með miklum ágætum og trúmennsku í hvívetna og var okkur öllum til sóma.

[16:45]

Á þingi Norðurlandaráðs voru fjölmörg merkileg mál á dagskrá en hæst bar skýrslu ráðgjafarnefndar sem skipuð var af norrænu ráðherranefndinni undir formennsku Jóns Sigurðssonar bankastjóra Norræna fjárfestingabankans. Skýrslan nefnist Umleikið vindum veraldar. Í henni koma fram margar athyglisverðar hugmyndir um innihald norræna samstarfsins og einnig um fyrirkomulag þess til framtíðar. Á næstu mánuðum verður unnið úr þeim hugmyndum og tillögum sem fram koma í skýrslunni á vettvangi Norðurlandaráðs og norrænu ráðherranefndarinnar og þess er vænst að sameiginlegur vinnuhópur fulltrúa beggja aðila komi að þeirri vinnu.

Norðlæga víddin hefur verið nokkuð til umfjöllunar í Norðurlandaráði á þessu ári. Það er brýnt að Norðurlöndin öll komi sterkt að þeirri vinnu. Evrópusambandið hefur lýst því yfir að Ísland og Noregur sem EES-samstarfsaðilar taki fullan þátt í stefnumótun og verkefnum hinnar norðlægu víddar. Mikilvægt er að nýta Barents- og Eystrasaltssamstarfið ásamt Norðurskautsráðinu og samstarfi Vestur-Norðurlanda til að fylgja eftir stefnunni um hina norðlægu vídd. Mörg mikilvæg verkefni eru þar á dagskrá svo sem orkumál og þá þar með talin kjarnorka í Rússlandi og Eystrasaltslöndunum, umhverfismál og heilsuvernd á nærsvæðum Norðurlandanna, hagvöxtur og atvinnumál, samgöngur og fjarskiptamál, barátta gegn skipulagðri glæpastarfsemi og efling lýðræðis.

Það er ástæða til að fagna aðgerðaáætlun Evrópusambandsins á þessu sviði sem samþykkt var í sumar. Vinnuhópur á vegum forsætisnefndar Norðurlandaráðs vinnur að samræmingu og framkvæmd þessara mála á vegum þess.

Miklar hræringar eru nú í varnar- og öryggismálum Evrópu. Ákvarðanir Evrópusambandsins í þeim efnum hafa ekki síður áhrif á Ísland og Noreg en þau Norðurlönd sem aðild eiga að sambandinu. Margt er enn óvíst í þessari þróun en höfuðatriði hlýtur að vera að tryggja frá upphafi fullan þátttökurétt Íslands og Noregs í nýjum öryggismálastofnunum. Hér er treyst á að Norðurlöndin standi saman.

Í skýrslunni Umleikið vindum veraldar, er lögð áhersla á að Norðurlöndin tali einum rómi á alþjóðavettvangi og að norræn samvinna sé fyrst og fremst pólitískt starfstæki á alþjóðavettvangi. Þessar áherslur og hugmyndir eru athyglisverðar og hljóta að skoðast í fullri alvöru á norrænum vettvangi.