Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

Þriðjudaginn 14. nóvember 2000, kl. 17:07:00 (1730)

2000-11-14 17:07:00# 126. lþ. 24.7 fundur 110#B skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál# (munnl. skýrsla), utanrrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 24. fundur, 126. lþ.

[17:07]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson) (andsvar):

Herra forseti. Ég styð að sjálfsögðu hæstv. forseta í að framfylgja þingsköpum og verð að sjálfsögðu að beygja mig undir þingsköp Alþingis eins og aðrir sem hér eiga sæti. Hins vegar er rétt að það er takmarkaður tími til að svara þeim spurningum sem hér koma fram. Við því er sennilega lítið að gera nema þá að breyta þingsköpum því að það er að sjálfsögðu miklu betra ef hægt er að svara jafnóðum og spurningar koma fram en ekki aðeins í lokin. Eins og hæstv. forseti tók fram hefur ráðherra einungis til þess 15 mínútur. Ekki meira um það.

Vegna þess að það hefur komið fram í ræðum margra að við höfum setið hjá við atkvæðagreiðsluna hjá Sameinuðu þjóðunum, þá er það rétt. Rúmlega 40 ríki sátu hjá og ástæðan var sú að í textanum var einhliða fordæmt ofbeldi Ísraels en við ásamt öðrum ríkjum vildum fordæma allt ofbeldi. Með okkur í þessari afstöðu voru þrjú Norðurlandanna og fjölmörg önnur lönd sem standa okkur næst. Við höfum lagt mikið upp úr því að Norðurlöndin stæðu saman í þessum málum, ég bendi á að Norðmenn sem hafa beitt sér mjög í friðarviðræðum í Miðausturlöndum standa með sama hætti að þessu máli. Á síðasta fundi utanríkisráðherra Norðurlanda hér í Reykjavík var rætt að tryggja það í framtíðinni að Norðurlöndin stæðu saman í svona málum. Það kom fram í máli Finna að þeim þótti leitt að svo skyldi fara og það er ætlun Norðurlandanna að samræma betur málflutning sinn í máli sem þessu. Skýringarnar eru því tvær, það er textinn og þau almennu viðhorf að við viljum standa saman með hinum Norðurlöndunum í viðkvæmum málum sem þessum.