Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

Þriðjudaginn 14. nóvember 2000, kl. 17:09:24 (1731)

2000-11-14 17:09:24# 126. lþ. 24.7 fundur 110#B skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál# (munnl. skýrsla), SJóh (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 24. fundur, 126. lþ.

[17:09]

Sigríður Jóhannesdóttir (andsvar):

Hæstv. forseti. Mér er ljóst að forseti var að framfylgja þeim þingsköpum sem eru í gildi enda var gagnrýni mín ekki í því fólgin að ég þekkti ekki þingsköp hvað þetta varðar. Ég vildi hins vegar benda á að þetta þyrfti að endurskoða. Ég held að ef við reynum að skoða þetta af sanngirni hljóti að vera samstaða um það að þegar er verið að flytja slíka skýrslu um svona viðamikinn málaflokk eins og utanríkismál sé mjög mikilvægt að til þess sé nægur tími, hæstv. ráðherra fái þann tíma sem þarf til að gera grein fyrir því sem hann telur þurfa að gera grein fyrir og svo fái þingmenn skammtaðan tíma en svo geti hann brugðist við fyrirspurnum frá þingmönnum eins og hann telur nauðsynlegt.

Ég geri mér grein fyrir því að í umræddri atkvæðagreiðslu á allsherjarþinginu voru Norðurlöndin að standa saman, eins og ég hef margoft talað fyrir og hæstv. utanrrh. veit en í þessu máli verð ég samt að gera þá játningu að þetta kom illa við mig. Mér hefði þótt miklu meiri reisn að því að Norðurlöndin hefðu staðið saman um að mótmæla því sem þarna fer fram.