Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

Þriðjudaginn 14. nóvember 2000, kl. 17:13:29 (1733)

2000-11-14 17:13:29# 126. lþ. 24.7 fundur 110#B skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál# (munnl. skýrsla), SJóh (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 24. fundur, 126. lþ.

[17:13]

Sigríður Jóhannesdóttir (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég get að sjálfsögðu tekið undir það með hæstv. ráðherra að þessar deilur eru óhemjuflóknar. Ef ég vitna til nýliðinnar dvalar í New York kom til mikilla mótmælaaðgerða á meðan ég var þarna, svo mikilla að ég hélt á tímabili að stríðið væri að færast til New York. Fyrri daginn voru gyðingar að mótmæla og þeir fylltu nánast alla Aðra breiðgötu með fólki sem var alveg yfirgengilega reitt og hrópaði og var með spjöld á lofti gegn aröbum. Daginn eftir voru Palestínuarabar að mótmæla og þeir sem fylgdu þeim að málum og þá voru enn þá fleiri mættir og ábyggilega allt lögregluliðið í ríkinu. Þetta var alveg ótrúlegt, þetta var svo ófriðlegt.

Ég veit að mjög erfitt er að taka á þessu máli í því umhverfi sem er þarna allt um kring. Samt hefði ég viljað í þessu tilfelli, af því að þarna er verið að beita að mínum dómi Palestínumenn þvílíkum órétti í þeim aðgerðum sem Ísraelsmenn hafa haft uppi undanfarinn mánuð, að við og þá allar Norðurlandaþjóðirnar hefðum staðið saman um að fordæma Ísraelsmenn í þessu tilviki.