Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

Þriðjudaginn 14. nóvember 2000, kl. 17:25:26 (1736)

2000-11-14 17:25:26# 126. lþ. 24.7 fundur 110#B skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál# (munnl. skýrsla), GE (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 24. fundur, 126. lþ.

[17:25]

Gísli S. Einarsson (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. utanrrh. þessi orð. Ég nefndi samstarf okkar á alþjóðavettvangi, Alþjóðaþingmannasambandið, og það mun koma frásögn frá þeim fundi nú til hv. þingmanna mjög fljótlega. Það er ekkert lítið sem þar er að gerast. Þannig háttar til að Bandaríkin hafi ekki tekið þátt í þessu starfi undanfarin ár, sem mér þykir vera mikill ljóður á þeirra ráði og það stendur til að ári liðnu að vísa þeim úr Alþjóðaþingmannasamtökunum. Ég hefði viljað beina því til hæstv. utanrrh. að ef hann ætti þess kost að eiga samskipti við bandaríska ráðamenn um að þeir skoðuðu stöðu sína í tengslum við þetta alþjóðasamstarf. Það er ærið oft sem málefni eru vakin af stað á þessum vettvangi og kláruð á þingi Sameinuðu þjóðanna. Ef það er möguleiki á einhverjum vettvangi að hafa áhrif á Bandaríkjamenn í þessu efni, jafnvel þó að þeir hafi ekki verið með æðstu völd í þessum samtökum, þá bið ég um að þetta sé orðað ef á því gefst færi. Það eru reyndar fleiri þjóðar sem geta sætt því að vera vísað í burt af þessum vettvangi en það er ekki ástæða til að ræða það frekar hér.

Ég vil bara ítreka að ég hef séð að menn hafa verið að rækja á þessum vettvangi árangursríkt starf og að mínu mati mætti koma miklu betur fram hvað menn hafa verið að fjalla um þarna og ræða.